Viðskiptahættir

Skrifstofurými, græn planta, glerveggir og viðarpanell. Gluggi aftast á myndinni

Mannréttindi

EFLA styður og virðir mannréttindi í samræmi við mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

EFLA lítur svo á að mannréttindi snerti alla og tekur ekki þátt í mannréttindabrotum annarra enda er sérhver manneskja borin frjáls og jöfn öðrum að virðingu og réttindum, líkt og fram kemur í yfirlýsingunni. Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna er einnig að finna ákvæði um helstu mannréttindi, svo sem réttinn til lífs, frelsis og mannhelgi, bann við pyntingum, þrælahaldi og mismunun, réttinn til friðhelgis einkalífs og fjölskyldu og rétt til menntunar og heilbrigðis.

Í stjórnarskrá Íslands eru nokkur grundvallarmannréttindi vernduð, en þar er að finna ákvæði þar að lútandi í köflum VI og VII. Þessi ákvæði varða í stórum dráttum trúfrelsi, almenna jafnræðisreglu, reglur um útlendinga, ríkisborgara og ferðafrelsi, persónufrelsi, bann við pyntingum og nauðungarvinnu, bann við refsingu án lagaheimildar og dauðarefsingu, réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum, friðhelgi einkalífs, eignarrétt, tjáningarfrelsi, félaga- og fundafrelsi, atvinnufrelsi, félagsleg réttindi, rétt til menntunar og vernd barna. EFLA heldur þessi gildi í heiðri og þannig virðir fyrirtækið réttindi og reisn starfsfólks og viðskiptavina sem og samfélagsins alls.

Gegn spillingu

Í öllu starfi EFLU er leitast við að koma ávallt fram af sanngirni og heilindum, hvort sem er í samskiptum við viðskiptavini, starfsfólk eða aðra þá sem fyrirtækið hefur samskipti við. Þannig eru mútur eða spilling af einhverju tagi ekki liðin, hvorki beint né óbeint. Þá er starfsfólki með öllu óheimilt að bjóða, lofa, gefa, falast eftir, krefjast eða þiggja, hvort sem er með beinum eða óbeinum hætti, neitt sem talist getur til óeðlilegra hagsbóta fyrir þá sjálfa eða EFLU. Öllu starfsfólki er gert að gæta þess að athafnir þeirra og hagsmunir rekist ekki á við ábyrgð þeirra hjá EFLU. Einnig er mikilvægt að starfsfólk reyni eftir fremsta megni að forðast aðstæður sem hægt væri að túlka sem hagsmunaárekstur.

Trúnaðarupplýsingar

Starfsfólk EFLU leggur sig fram við að meðhöndla trúnaðarupplýsingar af virðingu og varkárni í samræmi við persónuverndarstefnu fyrirtækisins. Við ástundum fagleg vinnubrögð í samskiptum við viðskiptavini og samstarfsaðila ásamt því að fylgja gæðastöðlum fyrirtækisins í öruggri vistun og meðhöndlun trúnaðargagna. Starfsfólki ber einnig að sýna viðeigandi aðgát þegar það ræðir trúnaðarmál við samstarfsfólk, samstarfsaðila og viðskiptavini.

Samstarf við birgja og þjónustuaðila

Í samstarfi við birgja og þjónustuaðila leitast EFLA við að ná gagnkvæmum ávinningi en jafnframt að lágmarka áhættu. Slíkt samstarf er áhættugreint og þeir aðilar sem geta haft veruleg bein áhrif á þjónustu EFLU, orðspor og möguleika á að ná settum markmiðum eru rýndir sérstaklega. Samningar eru gerðir um samstarfið og árangur metinn reglulega.

Regluverk

Starfsfólk EFLU er skuldbundið til að fara eftir lögum og reglugerðum á viðeigandi viðskiptasvæðum fyrirtækisins. Starfsfólk skal þekkja viðeigandi lög og ætlast er til þess að allir samstarfsaðilar starfi einnig samkvæmt lagalegum kröfum og stöðlum um ábyrga og heilbrigða viðskiptahætti. Starfsfólk EFLU skal fara að gildandi samkeppnislögum í hverju landi þar sem fyrirtækið er í viðskiptum.

Flokkunarreglugerð Evrópusambandsins (Taxonomy)

Flokkunarreglugerð ESB tók gildi á Íslandi 1. júní 2023 með lögum nr. 25/2023 um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar. Lögin voru afturvirk til 1. janúar 2023 og gilda því um allt fjárhagsárið 2023.

Tilgangur reglugerðarinnar er að skilgreina hvaða atvinnustarfsemi telst vera umhverfislega sjálfbær út frá tæknilegum matsviðmiðum sem koma fram í framseldri reglugerð ESB 2021/2139 og á að stuðla að gagnsæi í sjálfbærniupplýsingagjöf. Til þess að fyrirtæki geti talist umhverfislega sjálfbær í skilningi reglugerðarinnar þurfa þau að uppfylla viðmið fyrir umhverfislega sjálfbæra atvinnustarfsemi skv. 3. gr. reglugerðarinnar. Í fyrsta lagi þarf atvinnustarfsemin að stuðla verulega að einu eða fleiri umhverfismarkmiðum og á sama tíma má hún ekki skaða önnur markmið. Hún þarf að vera stunduð í samræmi við lágmarksverndarráðstafanir og að lokum að hlíta tæknilegum matsviðmiðum.

Umhverfismarkmiðin eru sex: mildun loftslagsbreytinga, aðlögun að loftslagsbreytingum, sjálfbær notkun og verndun vatns- og sjávarauðlinda, umskipti yfir í hringrásarhagkerfi, mengunarvarnir og eftirlit með mengun og loks vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa. Tæknileg matsviðmið fyrir mildun og aðlögun loftslagsbreytinga hafa verið innleidd með framseldri reglugerð ESB 2021/2139 og atvinnustarfsemi sem þar er tiltekin fellur undir upplýsingaskyldu á Íslandi. Framseld reglugerð ESB 2023/2486 um önnur umhverfismarkmið og framseld reglugerð ESB 2023/2485 um uppfærslu á loftslagsmarkmiðum tóku hins vegar gildi innan ESB árið 2023 og bíða innleiðingar hér á landi.

Gerð er krafa um að fyrirtæki birti hlutfall veltu, fjárfestingagjalda og rekstrargjalda fyrir nýliðið rekstrartímabil á hæfri starfsemi, þ.e. starfsemi sem fellur undir flokkunarreglugerðina. Að sama skapi skal birta sömu lykilmælikvarða fyrir starfsemi sem uppfyllir öll viðmið reglugerðarinnar og telst vera samræmd starfsemi eða umhverfislega sjálfbær.

Til þess að starfsemi teljist samræmd, og þar með að hún uppfylli skilyrði flokkunarreglugerðarinnar um að vera umhverfislega sjálfbær, þarf hún að fela í sér verulegt framlag (e. substantial contribution) og valda ekki umtalsverðu tjóni (e. do no significant harm), auk þess að uppfylla lágmarks verndarráðstafanir. Kröfurnar eru ítarlegar og ljóst að ef fyrirtæki vilja lýsa því yfir með góðri samvisku að markmiðin séu uppfyllt, og þannig að slíkt standist skoðun, þarf mikil grunnvinna að hafa átt sér stað.

EFLA hf. sem stór samstæða í skilningi ársreikningalaga fellur undir flokkunarreglugerðina og vinnur nú að innleiðingu verkferla til að uppfylla kröfur um lágmarksverndarráðstafanir. Einnig er unnið að endurbótum í verk- og fjárhagskerfum félagsins til að unnt sé að greina veltu, fjármagnskostnað og rekstrarkostnað er tengjast umhverfismarkmiðum í flokkunarreglugerð Evrópusambandsins. EFLA hf. stefnir á að birta upplýsingar um hlutfall veltu, fjárfestinga og rekstrargjalda fyrir þá starfsemi samstæðunnar sem flokkunarkerfið nær yfir, auk hlutfalls umhverfissjálfbærrar starfsemi, fyrir rekstrarárið 2024.