Sjálfbærni- og ársskýrsla 2023

A modern building with vertical lines on its facade with EFLA company logo

Sjálfbærni- og ársskýrsla hefur verið gefin út frá árinu 2015 og í þeim má finna upplýsingar um árangur og framgang fyrirtækisins. Þar er meðal annars sagt frá mælanlegum umhverfismarkmiðum EFLU, verkefnum tengdum samfélagslegri ábyrgð, samfélagsuppgjör og birtar lykiltölur umhverfisþátta.

Gróður.

Ávarp framkvæmdarstjóra

EFLA í hálfa öld

Við lifum sannarlega á tímum mikilla og hraðra breytinga. Tækninni fleygir hraðar fram en nokkru sinni fyrr, þar sem gervigreind vísar veginn með ótal möguleikum til aukinnar framleiðni og nýrra tækifæra. Á sama tíma vakna ótal spurningar um hvernig best sé að nýta þessa tækni og um leið hvort, og þá hvernig, sé hægt að koma í veg fyrir að hún sé notuð í annarlegum og jafnvel ólöglegum tilgangi. Mannskepnunni virðist ómögulegt að lifa saman í sátt og samlindi og ófriðarbál loga nú víðar á jarðarkúlunni en undanfarna áratugi. Á sama tíma stendur mannkynið frammi fyrir því að leysa stærstu áskorun sem það hefur mætt til þessa, að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og þar með úr hlýnun andrúmslofts með öllum þeim slæmu afleiðingum sem það skapar. Á Íslandi höfum við síðan rækilega verið minnt á það undanfarið ár að náttúruöflin geta verið bæði óblíð og óútreiknanleg.

Það gæti verið auðvelt að missa móðinn eftir upptalninguna hér á undan. En þegar hættur steðja að, hvort sem þær eru af manna eða náttúrunnar völdum, leysast oftar en ekki úr læðingi bestu kostir manneskjunnar. Þá verða til nýjar hugmyndir og lausnir sem enginn sá fyrir í hversdagsleika liðinna daga. Gott dæmi um þetta eru jarðhræringar og eldsumbrot á Reykjanesi á árinu 2023. Þrátt fyrir sífellt breyttar forsendur og nýjar áskoranir hafa ótrúlegustu vandamál verið leyst á mettíma. Með samstilltu átaki margra, hugmyndaauðgi og áræðni hafa orðið til lausnir sem vekja aðdáun langt út fyrir landsteinana.

Andlitsmynd af brosandi manni

„Með samstilltu átaki margra, hugmyndaauðgi og áræðni hafa orðið til lausnir sem vekja aðdáun langt út fyrir landsteinana.“

Sæmundur Sæmundsson
  • Framkvæmdastjóri

Það er einmitt þessi samtakamáttur, hugmyndaauðgi og áræðni sem einnig þarf að virkja þegar ekki ríkir beint neyðarástand. Ísland er í kjörstöðu til að verða fyrst landa í heimi óháð jarðefnaeldsneyti, enda er markmið stjórnvalda að ná því fyrir árið 2040. Þangað til eru einungis sextán ár og því er kominn tími á hraðar og áræðnar ákvarðanatökur í orkumálum, sem þarf svo að fylgja eftir með fjárfestingum og framkvæmdum. Við megum einfaldlega engan tíma missa, 2040 er bara handan við hornið.

Á árinu 2023 fagnaði EFLA hálfrar aldar afmæli. Fyrirtækið hefur ávallt lagt mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð og leggur sitt lóð á vogarskálarnar til að efla samfélög og leysa brýnustu verkefni þeirra á hverjum tíma. Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað í áranna rás og í dag eru starfsmennirnir um 500 talsins í sex þjóðlöndum. Það var því við hæfi að halda upp á 50 ára afmælið með því að stefna saman öllum starfsmönnum samstæðunnar og mökum þeirra. Það var mögnuð stund þegar hópurinn hittist í fyrsta sinn allur saman, ein EFLA. Krafturinn og gleðin voru hreinlega áþreifanleg.

Við hjá EFLU horfum bjartsýn fram á veginn og ætlum að nýta kraftinn, gleðina og samtakamáttinn til að þróa, hér eftir sem hingað til, hugvitsamlegar og sjálfbærar lausnir fyrir viðskiptavini okkar þar sem gæðin eru í fyrirrúmi.

Straws seen in front of af black building and blue skies