Menning
EFLA hefur á að skipa hæfu, reynslumiklu og áhugasömu starfsfólki sem starfar á fjölbreyttum sviðum. Mikilvægt er að starfsfólki geti þróast í starfi og sýni sjálfstæði og frumkvæði.
Samfélagsleg ábyrgð og hugarfar nýsköpunar í starfi eru meðal áhersluatriða í menningu EFLU.
Allt starfsfólk er mikilvægur hlekkur í starfseminni og framlag hvers og eins skiptir máli fyrir góðan árangur fyrirtækisins
Í árslok 2023 störfuðu 403 einstaklingar í 347 stöðugildum hjá EFLU hf. en heildarfjöldi starfsfólks hjá félaginu og dótturfélögum var 524 einstaklingar. Þar af voru 5 starfsnemar og 32 nemar í sumarstarfi hjá EFLU hf.
Starfsfólk EFLU býr yfir fjölbreyttri menntun og er menntunarstig starfsfólks mjög hátt en meira en 90% þess hefur háskólamenntun. Starfsfólk býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu á sviði verkfræði, tækni og í ýmsum öðrum greinum.
Hjá EFLU er kynjahlutfall þannig að 37% starfsfólks eru konur og 63% starfsfólks eru karlar og fjölgaði konum um rúmlega 1% á milli ára. Ekkert starfsfólk EFLU er skráð kynhlutlaust. Það er yfirlýst stefna EFLU að auka hlut kvenna og hlutlausra kynja, t.d. í gegnum nýráðningar og fræðslu. Meðalstarfsaldur er rúmlega átta ár og meðallífaldur starfsfólks 42 ár. Aldursbreidd starfsfólks EFLU er mjög mikil eða frá 19 til 79 ára. Hlutfallslega flest starfsfólk er á aldrinum 30 – 39 ára.
Starfsfólk EFLU
- 012345678901234567890123456789Starfsmenn árið 2023
- 01234567890123456789%Starfsfólk EFLU eru konur
- 01234567890123456789Sumarstarfsmenn
- 0123456789árMeðalstarfsaldur
Störf óháð staðsetningu
EFLA býður upp á störf óháð staðsetningu og hefur starfsfólki sem velur að starfa í heimabyggð fjölgað. Þetta starfsfólk sinnir því sínu starfi utan hefðbundinna starfsstöðva félagsins eða fjarri sínum fagteymum og nýtir tæknina til að eiga samskipti. Samhliða lögðu stjórnendur sig fram um að mæta nýjum áskorunum með nýjum og fjölbreyttum aðferðum í því skyni að styðja sem best við sitt fólk.
Móttaka nýs starfsfólks
Aukin áhersla var lögð á móttöku nýs starfsfólks á árinu enda skiptir vandað móttökuferli mjög miklu máli. Það hvernig tekið er á móti nýju starfsfólki getur haft mikil áhrif á líðan þess og síðar helgun í starfi. Á árinu 2023 hófu tæplega hundrað starfsmenn störf hjá EFLU hf. Móttökuferlið var endurskoðað og er nú skilgreint sem tveggja ára ferli. Kallað er eftir upplifun starfsfólk með reglubundnum könnunum á tímabilinu, auk þess sem öllu starfsfólki stendur til boða að hitta mannauðssérfræðing til að ræða það sem vel er gert sem og það sem betur má fara. Samhliða þessu var unnið að endurbótum á nýliðafræðslunni auk þess sem fóstrar fengu aukinn stuðning og þjálfun.
Heilsueflandi vinnustaður
EFLA leggur metnað sinn í að hlúa að heilsu og vellíðan starfsfólks og hefur verið í hópi heilsueflandi vinnustaða á Íslandi frá upphafi verkefnisins árið 2020. Um er að ræða verkefni á vegum Embættis landlæknis, Vinnueftirlitsins og VIRK. Heilsueflandi vinnustaður er sameiginlegt verkefni vinnuveitenda, starfsfólks og samfélagsins og nær til félagslegra, andlegra og líkamlegra þátta sem stuðla að vellíðan einstaklings.Árlega er lagt mat á stöðu EFLU í samræmi við viðmið Embættis landlæknis og VIRK, auk þess sem kallað er eftir upplifun starfsfólks í árlegri vinnustaðakönnun. Markmið verkefnisins er að skapa umhverfi og aðstæður í vinnuumhverfi starfsfólks sem stuðla að heilsusamlegum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan, svo sem hollu mataræði, hreyfingu, góðu vinnuumhverfi og góðum samskiptum.
Vellíðan
Jafnrétti
Andleg og líkamleg heilsa starfsfólks
Þegar kemur að vellíðan starfsfólks skiptir miklu máli að traust ríki í teymum þar sem starfsfólk getur sagt hug sinn af einlægni og skipst á hugmyndum og aðferðum á uppbyggilegan máta. Teymisvirkni og samábyrgð ýtir undir samvinnu þar sem starfsfólk leitar hvert til annars og deilir þekkingu sinni og reynslu. Á árinu var innleiðingu á uppfærðri stefnu gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi (EKKO) fylgt eftir með fræðslu og kynningum um ýmis atriði sem styðja við góð samskipti á vinnustað, svo dæmi sé tekið. Einelti og áreitni eru ekki liðin hjá EFLU og lögð er áhersla á fræðslu og þjálfun um málaflokkinn. Áfram var kapp lagt á að koma sem best til móts við starfsfólks í formi aukins sveigjanleika, heimavinnu, bætts upplýsingaflæðis og fræðslu, svo dæmi séu nefnd.
EFLA hlaut jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012 árið 2019 og var vottunin endurnýjuð á árinu 2022 með gildistíma til ársins 2025. Eitt af markmiðum EFLU er að enginn launamunur sé á milli kynjanna sem og að launamunur mælist aldrei hærri en 1%. Niðurstöður síðustu launagreiningar sýndu að óútskýrður launamunur var um 0,5% körlum í óhag, sem er í fyrsta skipti sem mælingar sýna niðurstöður þeim í óhag. Hjá EFLU hefur enginn óskað eftir kynlausri skráningu og því er samanburðurinn einungis á milli tveggja kynja, þ.e. karla og kvenna. Á kvennafrídaginn 24. október voru konur og kvár hvött til að leggja niður launuð og ólaunuð störf og vildi EFLA þannig leggja lóð sitt á vogarskálarnar til að styðja málstaðinn. EFLA hlaut á árinu viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar fyrir að vera eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa undirritað viljayfirlýsingu um jafnt kynjahlutfall í framkvæmdarstjórn félagsins.
Á árinu 2023 fengu um 82% starfsfólks greiddan íþrótta- eða hreyfingarstyrk og um 36% starfsfólks höfðu gert samgöngusamning. Árlega eru framkvæmdar heilsufarsmælingar á starfsstöðvum EFLU fyrir þau sem það kjósa, auk þess sem boðið er upp á flensusprautu að hausti. Í höfuðstöðvum EFLU er góð aðstaða fyrir starfsfólk til íþróttaiðkunar, tímar í jóga og hreystiþjálfun hafa verið í boði og aðstaða fyrir heilsunuddara. EFLA hefur hlotið gullvottun sem hjólavænn vinnustaður. Vottunin hvetur vinnustaði til að bæta aðbúnað hjólreiðafólks, bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk, og hvetja þannig fleiri til að velja umhverfisvæna og heilbrigða ferðamáta í daglegu lífi. Lögð er áhersla á að gera starfsfólki kleift að hlúa að andlegri heilsu og starfsfólki veitt aðstoð ef það óskar eftir henni.
Hollur og næringarríkur matur
Framúrskarandi mötuneyti er rekið í höfuðstöðvum EFLU. Þar getur starfsfólk, gegn vægu gjaldi, fengið góðan og næringarríkan hádegisverð, auk þess sem starfsfólki er daglega boðið upp á ferska ávexti, hrökkbrauð, álegg, hnetur og fleira án endurgjalds. Lögð er áhersla á að merkja vel ofnæmisvalda og grænkeravalmöguleika í mat sem borinn er fram í mötuneytinu. Þar hefur starfsfólk auk þess aðgang að þjónustuvef sem sýnir kolefnisspor allra máltíða ásamt næringarefnainnihaldi hverrar máltíðar. Þannig geta matreiðslumeistarar okkar alltaf stillt máltíðir af m.t.t. næringar og upplýst starfsfólk. Leitast er við að bjóða upp á holla valkosti í hádegisverð á starfstöðvum á landsbyggðinni þar sem ekki eru rekin mötuneyti.
Helgun starfsfólks og starfsandi
EFLA framkvæmir reglulega vinnustaðakannanir í samstarfi við Gallup. Í könnununum er meðal annars helgun starfsfólks mæld sem og starfsánægja, auk ýmissra annarra atriða sem snúa að líðan og upplifun starfsfólks á vinnuumhverfi sínu. Mæling á helgun starfsfólks byggir á tólf lykilþáttum sem tengjast bæði líðan starfsfólks og rekstrarlegum þáttum. Mælingar sýna að helgun starfsfólks eykst á milli ára og hækkar úr 4,06 frá árinu áður í 4,21. Starfsánægja hjá EFLU hefur jafnframt aukist jafnt og þétt undanfarin ár og hélt sú þróun áfram á árinu 2023. Starfsánægja mældist 4,44 af 5 mögulegum í vinnustaðakönnun 2023. Áfram var lögð áhersla á að vinna sérstaklega með heilsu og líðan starfsfólks sem og regluleg snerpusamtöl sem sniðin voru að áherslum í stefnu félagsins. Þá rýndu öll teymi niðurstöðurnar og völdu sér 2-3 atriði til að vinna áfram með.
Endurgjöf og hrós
Á árinu var jafnframt aukin áhersla á að auka hrósmenningu hjá EFLU og hvetja til tíðari endurgjafar innan teyma og sviða. Rannsóknir hafa sýnt að tíðari hrós og endurgjöf á vinnustöðum hefur jákvæð áhrif á frammistöðu og getur dregið úr streitu starfsfólks. Aðgerðir sem farið var í á árinu til að auka hrósmenningu voru m.a fræðsla til starfsfólks og stjórnenda, að birta hrós vikunnar á innri vef og almenn hvatning til allra að setja sér það markmið að hrósa hvert öðru oftar fyrir það sem vel er gert. Mælingar síðla árs 2023 sýndu árangur af aðgerðum en samkvæmt þeim jókst upplifun starfsfólks á hrósi og endurgjöf marktækt á milli mælinga.
Sveigjanlegur vinnutími
EFLA leggur áherslu á að bjóða starfsfólki sínu upp á sveigjanlegan vinnutíma til að mæta ólíkum þörfum þess. Lögð er áhersla á að starfsfólk nái að halda góðu jafnvægi milli vinnu og einkalífs og er ávallt reynt að koma til móts við þarfir starfsfólks vegna aðstæðna sem geta skapast í einkalífi þeirra. Í vinnustaðakönnun 2023 metur starfsfólk sveigjanleika á vinnustaðnum og benda niðurstöður til þess að mikill meirihluti þess sé ánægt með þann sveigjanleika sem það hefur í starfi.
Starfsmannafélagið Öflungur
Öflungur er starfsmannafélag EFLU á Íslandi og óhætt er að segja að félagsstarf starfsfólks sé afar fjölbreytt. Lögð er áhersla á að viðburðir mæti ólíkum þörfum starfsfólks og að þeir séu fjölskylduvænir. Hlutverk Öflungs er m.a. að vinna að íþrótta-, félags- og menningarmálum starfsfólks og efla samstarf og samvinnu þess. Allt starfsfólk hefur val um hvort það vilji vera í starfsmannafélaginu og er nánast allt starfsfólk EFLU félagar. Mikil gróska var í starfi Öflungs á árinu og boðið var upp á fjölbreytta viðburði og dagskrá fyrir starfsfólk.
Fjölbreyttir viðburðir fyrir starfsfólk
50 ára afmæli EFLU
Árið 2023 var 50 ára afmæli EFLU fagnað. Haldið var upp á þessi tímamót með stórri árshátíð í Hörpu, en þangað var starfsfólki og mökum allra dótturfélaga boðið, til viðbótar við starfsfólk EFLU á Íslandi. Ýmislegt fleira var gert í tilefni af afmælinu, en auk árshátíðarinnar má nefna stofnun Emblu, Samverudags EFLU. Með Emblu er ætlunin að bjóða starfsfólki félagsins að hittast með fjölskyldum sínum og vera samfélaginu til aðstoðar og leggja sitt að mörkum. Þá var Kvennaathvarfinu veittur stór styrkur úr Samfélagssjóði EFLU en vegna afmælisins var ákveðið að styðja sérstaklega eitt verkefni á myndarlegan hátt. Aukin tengsl við viðskiptavini og samstarfsaðila vegna afmælisins voru einnig meginstef á árinu og munu verða það áfram á komandi ári 2024.
Öryggi og áhættumat
Öryggi starfsfólks er haft í fyrirrúmi hjá EFLU og leitast fyrirtækið við að skapa starfsfólki sínu öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi. Haft er víðtækt samstarf við starfsfólk um hættur, áhættumat, forvarnir og fræðslu. Lögð er áhersla á opin samskipti um vinnuvernd og kallað er eftir ábendingum og tillögum að umbótum. Þá er starfsfólk ávallt hvatt til að gæta að öryggi sínu og annars starfsfólks. Áhættumat og vinnulýsingar hafa verið gerðar fyrir öll helstu störf hjá EFLU, bæði innan skrifstofunnar og vegna vinnu á mismunandi verkstöðum. Allur nauðsynlegur öryggisbúnaður er til staðar fyrir starfsfólk og er hann CE merktur. Til að auka öryggisvitund og draga úr áhættu er starfsfólki gert að skima fyrir hættum þegar farið er á verkstað, með því að nota snjallforrit sem inniheldur stuttan lista yfir helstu öryggisatriði og viðbúnað.
Öryggisnefndir
Öryggisnefndir eru starfandi á öllum starfsstöðvum EFLU. Í öryggisnefndum sitja annars vegar öryggistrúnaðarmenn sem kosnir eru af starfsfólki og hins vegar öryggisverðir sem valdir eru af EFLU. Helsta hlutverk öryggisnefnda er að vinna að bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi í allri starfsemi fyrirtækisins og fylgjast með því að ráðstafanir á þessu sviði séu framkvæmdar og skili tilætluðum árangri. Þær sjá jafnframt um vöktun á öryggisbúnaði, öryggiskerfum á starfsstöðvum og brunaöryggi. Nefndirnar eru mjög virkar og taka þær þátt í öllum helstu ákvörðunum um öryggismál EFLU.
Persónuvernd
EFLU er umhugað um öryggi persónugreinanlegra upplýsinga viðskiptavina og starfsfólks síns og einsetur sér að tryggja áreiðanleika, trúnað og öryggi þeirra gagna sem unnið er með innan fyrirtækisins. EFLA vinnur samkvæmt núgildandi persónuverndarlöggjöf og persónuverndarstefnu.
Þjónustuaðilar í vinnuvernd
EFLA er viðurkenndur þjónustuaðili af hálfu Vinnueftirlitsins og er í samstarfi við Heilsuvernd um veitingu heildstæðrar þjónustu á sviði vinnuverndar. Öllum gildandi lögum og reglum er fylgt í starfsemi EFLU, svo sem lögum um vinnuvernd og almennri löggjöf um vinnumarkaðsmál. Langstærsti hluti starfsfólks EFLU hefur kosið að vera í stéttarfélögum. EFLA lýsir því yfir að fyrirtækið stendur alfarið gegn allri nauðungar- og þrælkunarvinnu sem og barnaþrælkun.