Upplýsingagjöf um sjálfbærni fyrirtækja
Fyrirtæki standa frammi fyrir auknum lagalegum kröfum er varða upplýsingaskyldu um stöðu sjálfbærnimála í rekstri sínum. EFLA getur leiðbeint fyrirtækjum í þessu ferli.
Upplýsingagjöf
Reglugerð ESB um flokkunarkerfi (e. EU-Taxonomy) er rammi um sjálfbær fjármál sem skilgreinir skilyrði til að lýsa afurð eða starfsemi sem „sjálfbærri“. Markmiðið með henni er að tryggja gagnsæi og koma í veg fyrir grænþvott. Samhliða hefur ESB innleitt reglugerð um upplýsingagjöf um sjálfbær fjármál (SFDR) sem skyldar fjármálafyrirtæki til að upplýsa hagsmunaaðila um UFS mælikvarða (umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti). Sambandið hefur einnig sett fram tilskipun um skýrslugjöf um sjálfbærni fyrirtækja (CSRD). Sérfræðingar EFLU aðstoða fyrirtæki við að framkvæma tvöfalda mikilvægisgreiningu, þar sem neikvæð og jákvæð áhrif sjálfbærniþátta í rekstri eru metin á umhverfið og samfélagið og fjárhagsleg áhrif þeirra á starfsemina. Sérfræðingar EFLU aðstoða einnig fyrirtæki við að uppfylla aðra sjálfbærnistaðla.
Gæði og sjálfbærni
Við hjá EFLU leggjum mikla áherslu á aðstoð við innleiðingu sjálfbærnistaðla þvert á atvinnugreinar. Sérfræðingar okkar hafa víðtæka þekkingu á því sviði og áralanga reynslu af starfi með fyrirtækjum, sveitarfélögum og opinberum stofnunum. Við leggjum áherslu á náið samstarf við viðskiptavini okkar til að skilja þarfir þeirra og greina ferla, vörur og markaði. Við getum unnið með viðskiptavinum að því að greina helstu sjálfbærniþætti í starfseminni og grípa til aðgerða til að minnka áhrif þeirra. Við getum aðstoðað við að framkvæma tvöfalda mikilvægisgreiningu, uppfylla sjálfbærnistaðla og sýna fram á jákvæð og neikvæð áhrif á samfélagið. Önnur mikilvæg atriði í sjálfbærnistarfi okkar eru vöktun, samantekt og greining gagna, svo og ritun og endurskoðun sjálfbærniskýrslna.
Meðal þjónustusviða eru:
- Útreikningur á kolefnisspori vöru eða þjónustu, í samræmi við alþjóðlega staðla
- Einfaldaðir útreikningar eða skimun á kolefnisspori vöru eða þjónustu
- Samantekt á kolefnisspori fyrirtækjareksturs í samræmi við GHG Protocol, CDP og GRI
- Ráðgjöf um skilgreiningu loftslagsmarkmiða og gerð áætlana um kolefnishlutleysi
- Aðstoð og ráðgjöf við gerð loftslagsyfirlýsingar (Climate Declaration) eða umhverfisyfirlýsingar (Environmental Product Declaration)
- Ráðgjöf við gerð græns bókhalds og endurskoðun þess
- Ráðgjöf við gerð útstreymisbókhalds og endurskoðun þess
- Ráðgjöf við gerð losunarskýrslu, vöktunaráætlunar og kaup á losunarheimildum (ETS)
- Aðstoð við að skilgreina græna ramma verkefna vegna útgáfu grænna skuldabréfa
- Ráðgjöf við innleiðingu flokkunarreglugerðar ESB og fleiri sjálfbærnireglugerða ESB
- Framkvæmd tvöfaldrar mikilvægisgreiningar
Fjárhagsleg sjálfbærni
Atvinnulífið gegnir lykilhlutverki í grænum samningi ESB, sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% fyrir árið 2030 og ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Sérfræðingar EFLU eru til staðar til að aðstoða viðskiptavini við þetta flókna verkefni. Það er okkur sérstakt ánægjuefni að vinna með viðskiptavinum í sjálfbærnivegferðinni.