Fjöll, gróður og á.

Útivistarsvæði við Esju

EsjanSamgöngur og innviðirSjálfbærni og umhverfiSkipulagsmál

EFLA sá um margvíslega ráðgjöf varðandi þróun og endurbætur á útivistarsvæðinu við Esjuna, t.d. lagfæringar á gönguleiðum, stækkun útivistarsvæðis og kortagerð.

Viðskiptavinur
  • Skógræktarfélag Reykjavíkur
Verktími
  • 2015 - 2021
Þjónustuþættir
  • Ferðamannastaðir
  • Framkvæmdaáætlanir
  • Framkvæmdaeftirlit
  • Göngu- og hjólastígar
  • Hjólreiðar
  • Kort og kortagrunnar
  • Landslags- og garðyrkjutækni
  • Landslagsarkitektúr
  • Skipulagsmál
  • Verkefnastjórnun
Fólk að ganga niður göngustíg við stóran klett.

Um hvað snýst verkefnið

Um er að ræða ráðgjöf og hönnun við útivistarsvæði Esjunnar, bæði viðgerðir og endurbætur með það að leiðarljósi að bæta aðgengi og öryggi á svæðinu ásamt því að stuðla að bættri ásýnd og upplifun göngu- og hjólafólks. Gönguleiðin um Esjustíg að Steini og Þverfellshorni er ein vinsælasta gönguleið landsins. Þar ganga a.m.k. 100.000 manns á hverju ári með tilheyrandi álagi og hefur það kallað á endurbætur á leiðinni.

Stækkun útivistarsvæðis

Til þess að minnka álagið á gönguleiðinni að Steini og Þverfellshorni var lögð áhersla á það að stækka svæðið og opna mun stærra og fjölbreyttara útivistar- og ferðamannasvæði til austurs af hinni vinsælu gönguleið, meðal annars með aðgreiningu á umferð hjólandi og gangandi ferðamanna.

Stækkunin fól meðal annars í sér að útbúa nýja tengileið frá Mógilsá að Kollafjarðará, en sá stígur var gerður fyrir blandaða umferð gangandi og hjólandi vegfarenda. Þessi nýja leið tengir bílastæðið við Mógilsá við nýjar og fjölbreyttari leiðir, til að mynda nýjar hjólaleiðir og gönguleiðir sem liggja um svæðið neðan við Gunnlaugsskarð.

Endurbætur núverandi göngu- og hjólastíga

Lögð var áhersla á að endurbæta núverandi stíga þar sem að mikil umferð er og einnig voru stígar endurgerðir eða færðir til. Þar á meðal var aðalstígur að Þverfellshorni og Steini frá Mógilsá að Þvergili endurbættur, þegar lengra er komið upp Esjustíg var breytt legu stíga við Einarsmýri til að vernda viðkvæm gróðurlendi og einnig var framkvæmd endurgerð á hættulega grófum stígum við Grensöxl.

Ásamt endurbætingum á stígum voru nýjar brýr útbúnar yfir læki og mýrarsvæði. Sjá kort af gömlum og nýjum leiðum.

Göngukort Esja

Þar sem að stígarnir voru endurgerðir í upphafi göngunnar upp að Steini var fyllt í stíginn með grófu og vel drenerandi burðarlagsefni. Yfirborðsefni á stíginn var lagt út með afgerandi vatnshalla. Lögð var sérstök áhersla á að finna mjög stöðugt efni sem binst við burðarlagið, fyllingin var öll þjöppuð niður sem er gríðarlega mikilvægt til að binda efnið saman og tryggja stöðugleika til lengri tíma.

Öryggismál, skilti og stikur

Gönguleiðin upp í gegnum klettabeltið að hringsjánni á Þverfellshorni var orðin hættuleg og var að valda grjóthruni. Af þeim sökum var lögð keðja upp á Þverfellshornið, laust grjót fjarlægt og þrepum bætt við á erfiðum stöðum svo að leiðin væri öruggari fyrir bæði vegfarendur þar og neðar. Heildarlengd leiðarinnar sem nú er með stuðningskeðju er um 300 m.

Ásamt því voru ný skilti sett upp (þar á meðal örnefnaskilti), nýir og fleiri vegprestar/vegvísar og göngu- og hjólaleiðir voru stikaðar. Sérstakar fjallahjólaleiðir hafa verið merktar og mótaðar í samvinnu við fjallahjólasamfélagið.

Stafrænar lausnir

Stafrænar lausnir voru notaðar til að kynna nýjar leiðir fyrir útivistarfólki. Nýjum leiðum hefur verið komið inn á upplýsingasíður um göngu- og hjólaleiðir og var kort útbúið af svæðinu sem hægt er að nota sem leiðsögukort í snjallsíma.

Út frá uppsafnaðri notkun á leiðum í forritinu Strava má sjá að notkun á öllum leiðum er orðin nokkuð almenn þrátt fyrir að stutt var síðan þær komu til.

Fjall með gönguleið upp hlíðina.

Gunnlaugsskarð.

Umhverfismál

Mikil áhersla var lögð á að raska sem minnst umhverfinu í Esjuhlíðum. Sjálfbærni og virðing við umhverfið var rauður þráður í allri hönnun. Stígum var meðal annars hliðrað til, til að hlífa viðkvæmu gróðursamfélagi á votlendissvæði fyrir átroðningi og raski og unnið var að því að rækta það upp til fyrra horfs. Á votlendissvæðum hafa verið lagðar sérstakar fljótandi mýrarbrýr sem eru byggðar úr timbri úr Heiðmörk.

Hlutverk EFLU

Þjónusta EFLU í verkefninu samanstóð af eftirtöldum verkþáttum:

  • Umsjón með þróun, hugmyndavinnu og styrkumsóknum
  • Umsjón verklegra framkvæmda á öllum stigum
  • Gerð vegvísa og korta af svæðinu
  • Uppsetning á örnefnaskiltum, vegprestum og stikum

Ávinningur verkefnis

  • Endurbætt útivistarsvæði við Esjuna mun koma til með að stuðla að áframhaldandi heilsu fólks sem að leggur leið sína þangað, ásamt því að bjóða upp á nýjar leiðir um mikla náttúrufegurð og fallegt útsýni.
  • Endurbætt aðgengi og öryggi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
  • Nýir og endurbættir stígar gera aðkomu björgunaraðila greiðari og geta sparað mikilvægan tíma við björgunaraðgerðir.
  • Viðkvæmu gróðursvæði hefur verið hlíft og það ræktað upp til fyrra horfs.
  • Útivistarsvæðið í Esjuhlíðum hefur verið í mikilli þróun og er umfang skipulags stígakerfis gönguleiða aðkomuleiða og hjólaleiða nú um 23 km.
Kort af svæðinu sem um ræðir með merktum leiðum.

Viltu vita meira?