
Deiliskipulag og stækkun Sigöldustöðvar
EFLA vann deiliskipulag fyrir Sigöldustöð, en hún er ein af sex virkjunum á vatnasviði Þjórsár og Tungnaár. Virkjanamannvirki eru til staðar en til stendur að stækka virkjunina og auka raforkuframleiðslu.
Um hvað snýst verkefnið
Sigöldustöð var tekin í notkun árið 1978. Þá tíðkaðist ekki að vinna deiliskipulag fyrir virkjanir. Virkjunin er í eigu Landsvirkjunar og vill fyrirtækið hafa í gildi deiliskipulag fyrir stöðvarmannvirki allra virkjana. Með því móti getur Landsvirkjun sett fram skýrari framtíðarsýn um æskilega þróun á einstökum orkuvinnslusvæðum.
Í deiliskipulaginu er gerð grein fyrir núverandi mannvirkjum Sigöldustöðvar ásamt því að setja heimildir fyrir ný mannvirki og framkvæmdir sem tengjast stækkun stöðvarinnar.
Helstu áskoranir verkefnisins voru:
- Að hafa gildandi deiliskipulag fyrir stöðvarmannvirki Sigöldustöðvar.
- Að tryggja örugga umgjörð um aðgengi og umferð um svæðið.
- Að setja skilmála fyrir verndun og viðhald núverandi mannvirkja.
- Að heimila framkvæmdir til að hægt sé að efla raforkuframleiðslu.
- Sem minnst umferð tengd framkvæmdum verði um Fjallabaksleið nyrðri. Umferð, a.m.k. stórra bíla/tækja, verði um vað á Tungnaá.
- 1 / 3
- 2 / 3
- 3 / 3
Á vatnasviði Þjórsár og Tungnaár eru sex vatnsaflsvirkjanir: Búrfellsstöð syðst, þá Sultartangastöð, Búðarhálsstöð, Hrauneyjafossstöð, Sigöldustöð og Vatnsfellsstöð nyrst. Auk þess er fyrirhuguð bygging Hvammsvirkjunar ofarlega í byggð. Efla hefur unnið deiliskipulag fyrir allar virkjanirnar og einnig fyrirhugaða Hvammsvirkjun.
Undanfari deiliskipulagsgerðar fyrir virkjanirnar var að EFLA (áður Steinsholt) tók saman yfirlit yfir stöðu skipulags og lóðamála fyrir virkjanir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Sett fram árið 2017 í þessari skýrslu.
Verkefnið fól í sér úttekt á stöðu aðal- og deiliskipulagsmála fyrir virkjanir, miðlanir/veitur á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Lagt var mat á hvort bæta þyrfti umfjöllun um mannvirki í aðalskipulagi, samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og hvort deiliskipulag væri í gildi fyrir allar deiliskipulagsskyldar framkvæmdir. Þá var farið yfir hvort skráning fornminja hefði farið fram á hverju svæði fyrir sig. Enn fremur var gerð úttekt á skráningu lóða hjá HMS (þá Fasteignamati ríkisins) og stöðu lóðablaða fyrir skráningarskyld mannvirki. Gerðar voru tillögur að úrbótum þar sem þess þurfti. Í öllum tilfellum þurfti að vinna deiliskipulag fyrir stöðvarnar.
Hlutverk EFLU
- EFLA var ráðgjafi í verkefninu og sá um gerð deiliskipulagstillögu, vinnslu og framsetningu skipulagsgagna.
- Samráð og fundir með verkkaupa.
- Vegna mögulegrar stækkunar vann EFLA nýjar loftmyndir og landlíkan af svæðinu umhverfis stöðvarhúsið og aðrennslis- og frárennslisskurði ásamt Sigöldugljúfri.
- Stöðvarhúsið skannað og nákvæmt 3D líkan framleitt af ytra byrði hússins og sameinað líkani frá Landsvirkun. Lokaafurð var Revit líkan af öllu stöðvarhúsinu og inntaki sem notað er við hönnun á stækkun stöðvarhússins.
- Frummat á línubreytingum á núverandi háspennulínum og möstrum vegna tilkomu nýs tengivirkishúss við Sigöldustöð.
- EFLA gerði tillögu að útliti fyrir tengivirkisramma sem verða fyrir framan og aftan tengivirkishúsið.
Umhverfismál
Ganga þarf vel um landið meðan á framkvæmdum stendur og eftir að framkvæmdum lýkur að aðlaga land aftur að landinu umhverfis á sem náttúrulegastan hátt, auk þess að forðast óþarfa rask á landi á framkvæmdatíma. Ef notast á við útilýsingu á framkvæmdartíma þá er mikilvægt að hún sé lágstemmd og ljósi beint niður, til að draga úr áhrifum lýsingar á öðrum svæðum.
Lagt er mat á líkleg umhverfisáhrif af stefnu deiliskipulagsins, þ.e. stækkun Sigöldustöðvar. Virkjanasvæðið er í aðalskipulagi skilgreint sem iðnaðarsvæði og svæði til efnistöku. Heimilt er að vera með vinnubúðir og önnur tímabundin mannvirki vegna framkvæmda við stækkun Sigöldustöðvar. Mannvirki verða á svæði sem hefur verið raskað vegna fyrri framkvæmda og nýttir verða þeir vegslóðar sem fyrir eru á svæðinu. Sett eru ákvæði til að koma í veg fyrir mengun frá starfseminni og um frágang svæðisins að framkvæmdum loknum. Vegna landslags umhverfis Sigöldustöð þá eru mannvirki lítt sýnileg, nema á þeim stutta vegkafla meðan ekið er fram hjá framkvæmdasvæði eftir Fjallabaksleið nyrðri.