
Deiliskipulag þéttbýlis í Laugarási
EFLA vann nýtt deiliskipulag fyrir Laugarás með tilliti til þéttingar byggðar, endurskoðunar byggingarheimilda, bættra samgangna og framtíðarstefnu um íbúðarbyggð með áherslu á atvinnuskapandi umhverfi.
Um hvað snýst verkefnið
Unnið var nýtt deiliskipulag fyrir þéttbýlið í Laugarási og var það unnið á grunni eldra skipulags. Leitast var við að þétta byggð, endurskoða byggingarheimildir og marka stefnu sem styrkir atvinnu og ýtir undir ný atvinnutækifæri. Samgöngur voru skoðaðar með það að markmiði að bæta umferðarflæði og umferðaröryggi ásamt því að horfa til framtíðar og taka frá svæði fyrir nýja brú yfir Hvítá.
EFLA var ráðgjafi í verkefninu og sá um gerð tillögu, vinnslu og framsetningu skipulagsgagna. Laugarás er einn af þremur þéttbýlisstöðum í Bláskógabyggð og hefur brúin yfir Hvítá við Iðu verið helsta forsenda þéttbýlismyndunar í Laugarási. Jarðhiti svæðisins er nýttur til ylræktunar og um árabil var Laugarás eitt stærsta gróðurhúsasvæði landsins. Garðyrkjustöðvum hefur þó fækkað undanfarin ár.
Markmið Bláskógabyggðar með gerð deiluskipulagsins var að stuðla að því að Laugarás yrði áhugaverður kostur fyrir búsetu og atvinnuuppbyggingu en vannýtt tækifæri eru á svæðinu m.a. með tilliti til jarðhita, kyrrláts umhverfis og nálægðar við vinsæla viðkomustaði ferðamanna í uppsveitum Árnessýslu. Til að ná þessu markmiði voru skilmálar fyrir lóðir yfirfarnir og eftir atvikum breytt. Þá voru götur breikkaðar og breytt í ákveðnum tilfellum til þess að bæta umferðaröryggi, og gert ráð fyrir bættum samgöngum og göngu-, reið- og reiðhjólaleiðum.
Deiliskipulagið gerir einnig ráð fyrir nýrri brú yfir Hvítá í framtíðinni og vegi að henni.
Helstu markmið verkefnisins eru:
- Laugarás verði áhugaverður kostur fyrir búsetu og atvinnuuppbyggingu.
- Skipulagðar verði fjölbreyttar íbúðarlóðir sem nýtast til uppbyggingar næstu árin. Gert sé ráð fyrir fjölbreyttum stærðum íbúða.
- Skapa möguleika á þróun og vexti núverandi og nýrrar atvinnustarfsemi, einkum tengdri landbúnaði, þjónustu og athafnastarfsemi.
- Tryggja gott aðgengi gangandi og hjólandi og almenna útivistarmöguleika fyrir íbúa og gesti.
- Bæta öryggi vegfarenda, t.d. með endurskoðun á innkeyrslum lóða, umferðarflæði og bílastæðum.
- Yfirfara lóðamörk, setja skilmála fyrir lóðir og útbúa lóðablöð með hnitsettum lóðamörkum.
- Byggð sé ekki innan þekktra flóðasvæða Hvítár.

Snið fyrir dæmigerða íbúðargötu í Laugarási. Íbúðarhús geta verið á 1-2 hæðum og í einhverjum tilfellum með kjallara. Götur eru 6 m breiðar og gangstéttar 2 m. Gert er ráð fyrir lagnabelti og svæði fyrir ofanvatn.
Hlutverk EFLU
- Sjá um gerð deiliskipulags, þ.e. deiliskipulagsuppdrátt, greinargerð með skipulagsskilmálum, forsendum og mat á umhverfisáhrifum áætlunarinnar.
- Samráð og fundir með verkkaupa.
- Samráðs- og kynningarfundir fyrir íbúa og almenning.
- Vinna húsakönnun fyrir mannvirki og þar sem við átti að setja skilmála um varðveislu þeirra.
- EFLA tók drónamynd af svæðinu og útbúnar voru nákvæmar hæðarlínur út frá henni. Nýttist þetta sem grunnur undir deiliskipulagsgerðina, staðsetningu nýrra hverfa og við skoðun á fráveitumálum.
Umhverfismál
Gerð var gróf skoðun á fráveitumálum og mörkuð stefna um sameiginlega fráveitu. Nokkur svæði voru tekin frá fyrir hreinsistöðvar fráveitu og lagnir að þeim. Með nýju deiliskipulagi eru tekin frá svæði fyrir blágrænar ofanvatnslausnir og gerð ákvæði um að á stærri lóðum skuli ofanvatni miðlað í jarðveg innan lóðar. Í nýrri íbúðarbyggð á Laugarásnum er tjörn sem tekur við ofanvatni og skapar um leið skemmtilegt umhverfi fyrir útiveru.
- 1 / 3
Íbúðarlóðir
- 2 / 3
Landbúnaðarlóðir
- 3 / 3
Lóðir fyrir verslun og þjónustu