
Umhverfisyfirlýsingar fyrir malbik
EFLA útbjó umhverfisyfirlýsingar (Environmental Product Declaration, EPD) fyrir fjórar malbikstegundir sem eru framleiddar hjá Colas. Undanfari slíkra yfirlýsinga er vistferilsgreining, en slíkar greiningar eru notaðar til að meta umhverfisáhrif vöru.
Um hvað snýst verkefnið
Umhverfisáhrif voru reiknuð fyrir 1 tonn af fjórum malbikstegundum; tvær heitblandaðar malbikstegundir, 12549 SL11 Hólabrú og 33966 SL16 Durasplitt, og tvær kaldblandaðar malbikstegundir, 74000 Kaldblandað malbik og 74002 Kaldblandað malbik með sementi. Ásamt því að innihalda steinefni, bik og önnur íblöndunarefni, samanstanda heitblönduðu malbikstegundirnar af um 30% endurunnu malbiki. Hlutfall endurunnins malbiks í kaldblönduðu malbikstegundunum er ennþá hærra, eða um 92-94% af malbiksblöndunni.
Fyrir útgáfu umhverfisyfirlýsinga er reglum fyrir viðeigandi vöruflokk fylgt eftir ásamt ítarlegum stöðlum sem innihalda kröfur og leiðbeiningar fyrir gerð vistferilsgreininga. Slíkar yfirlýsingar eru vottaðar af óháðum þriðja aðila sem hefur djúpa LCA sérfræðiþekkingu og nauðsynlega hæfni.
Vistferilsgreiningin náði yfir vinnslu hráefna, flutninga til malbikunarstöðvar, framleiðslu, flutninga að verkstað og förgun. Umhverfisáhrif voru reiknuð fyrir nítján umhverfisáhrifaflokka, s.s. gróðurhúsaáhrif, eyðingu auðlinda, súrnun vatns og lands, næringarefnaauðgun og myndun ósonsvið yfirborð jarðar. Hér á eftir er fjallað sérstaklega um niðurstöður fyrir kolefnisspor malbiktegundanna.
Helstu niðurstöður
Samanburður við önnur EPD blöð frá erlendum malbiksframleiðendum leiddi í ljós að kolefnisspor 74000 kaldblandaðs malbiks er með því lægsta sem finnst fyrir malbik, og eins koma hinar malbikstegundirnar afar vel út í álíka samanburði við sambærilegar malbikstegundir.
Niðurstöður sýndu fram á mikilvægi þess að endurnýta malbik, en með því að notast við endurunnið malbik í stað þess að notast eingöngu við steinefni úr námum hefur eftirfarandi áhrif á kolefnisspor malbikstegundanna:
- Kolefnisspor 12549 SL11 Hólabrú lækkar um 11%
- Kolefnisspor 33966 SL16 Durasplitt lækkar um 19%
- Kolefnisspor 74000 Kaldblandað malbik lækkar um 55%
- Kolefnisspor 74002 Kaldblandað malbik með sementi lækkar um 36%
Í tilfelli allra tegundanna, hefur öflun hráefna og flutningur þeirra mikil umhverfisáhrif. Þar af leiðandi stuðlar Colas Ísland að aukinni sjálfbærni í malbiksframleiðslu með því að notast við endurunnið í malbik í stað steinefna sem fengin eru úr námu í Hólabrú eða innflutt steinefni, sem og bik sem unnið er úr jarðolíu.
Útgáfa umhverfisyfirlýsingar
Upplýsingarnar sem koma fram í EPD blöðum malbikstegundanna nýtist Colas Ísland í að veita viðskiptavinum sínum og almenningi gagnsæjar, samanburðarhæfar og áreiðanlegar upplýsingar um umhverfisáhrif malbiksins. EFLA hefur framkvæmt vistferilsgreiningar og kolefnissporsútreikninga um árabil og var ráðgefandi þegar fyrsta umhverfisyfirlýsing íslenskrar framleiðslu var gefin út, fyrir Steinull.

EFLA gerði umhverfislýsingar fyrir fjórar malbikstegundir framleiddar af Colas
Hlutverk EFLU
- Vistferilsgreining framkvæmd
- Umhverfisáhrif skilgreind
- Kolefnisspor malbikstegundar reiknað út
- Gerð umhverfislýsingar og gangast undir vottunarferli
Ávinningur verkefnis
Vistferilsgreininguna er hægt að nýta sem verkfæri til ákvarðanatöku um aðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifum malbiks. Colas Ísland hefur undanfarin ár verið að huga að því að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir umhverfisvænni orkugjafa, líkt og rafmagn, vetni eða metanól til þess að draga úr losun við framleiðslu malbiks. Niðurstöður vistferilsgreiningarinnar staðfesta að ávinningurinn yrði mikill ef Colas Ísland fer í slíkar aðgerðir.