Stækkun Hrauneyjafossvirkjunar
Verkefnið fólst í verkhönnun stækkununar Hrauneyjafossvirkjunar, mögulegri viðbót á fjórðu vélasamstæðunnin sem yrði 70 MW, auk annarrar ráðgjafar tengdri verkefninu.
Um hvað snýst verkefnið
Í upphafi árs 2016 ákvað Landsvirkjun að verkhanna stækkun Hrauneyjafossvirkjunar, þann valkost að lengja stöðvarhús hennar um 16 m og bæta við einni 70 MW Francis vélasamstæðu við þær þrjár 72 MW samstæður sem fyrir voru og fól EFLU verkefnið.
Hrauneyjafossvirkjun er þriðja virkjunin sem reist var í keðju virkjana sem virkja vatnasvið Þjórsár og Tungnaár, fallið frá Þórisvatni að Fossá sem frávatn Búrfellsvirkjunar fellur í. Hrauneyjafossvirkjun var byggð árin 1978 til 1982 og virkjar 88 m fall milli Hrauneyjalóns, sem frávatn Sigölduvirkjunar fellur í, og Sporðöldulóns, inntakslóns Búðarhálsvirkjunar. Rekstrarhæð Hrauneyjalóns er 425,0 m y.s. og Sporðöldulóns er 337,0 m y.s.
Uppsett afl Hrauneyjafossvirkjunar fyrir stækkun var 216 MW og er orkugeta hennar 1295 GWst á ári. Eftir stækkun yrði uppsett afl 286 MW en orkugetan óbreytt, þ.e. stækkunin er reiðuaflsaukning en ekki aukning orkugetu.
Verkhönnun 70 MW stækkunar Hrauneyjafossvirkjunar samanstóð af; inntaki fjórðu fallpípunnar, fjórðu fallpípunni, stækkun stöðvarhússsvæðis til austurs, stækkun stöðvarhúss, fjórðu spennaþrónni auk spennis og gaseinangraðri tengingu við tengivirki, víkkun frárennslisskurðar næst stöðvarhúsi, 70 MW hverfli og 85 MVA rafala við 13,8 kV. Að auki ákvað Landsvirkjun að breikkun brúar á vegi 26, Sprengisandsleið, yfir frávatnsþröskuld og mögulegur viðbótarfrávatnsþröskuldur ásamt viðhaldi á aðrennslisskurði yrði hluti verkhönnunarinnar.
Verkhönnun stækkunarinnar miðað að því að lágmarka rekstrartap á framkvæmdatíma, þ.e. að virkjunin yrði í rekstri meðan á framkvæmdum stæði.
Hlutverk EFLU
EFLA var aðalráðgjafi Landsvirkjunar við verkhönnun 70 MW stækkunar Hrauneyjafossvirkjunar. Undirráðgjafi EFLU var Multiconsult ASA Noregi sem annaðist verkhönnun og kostnaðargreiningu á raf- og vélbúnaði, hverfli og rafala ásamt stoðbúnaði.
Landsvirkjun ákvað að nýta stækkun Hrauneyjafossvirkjunar sem þróunarverkefni fyrir verktrésgreiningu (e: Work Breakdown Structure) kostnaðar og fékk EFLU til að gera tillögu að verktré fyrir verkefnið sem síðar varð grunnur að kostnaðaráætlun stækkunarinnar.
Þróunarverkefnið óx og óskaði Landsvirkjun að kostnaðaráætluninni yrði gerð sérstök skil í greinargerð nefndri Grundvöllur áætlunarinnar (e: Basis of Estimate, TCM Framework: 7.3 - Cost Estimating and Budgeting) í samræmi við AACE® International Recommended Practice No. 34R-05.
Auk framangreinds óskað Landsvirkjun, sem hluta verkefnisins, að hagkvæmni steyptrar þrýstipípu yrði athuguð auk annarra smærri athugana.
Helstu verkefni EFLU
- Verkhönnun mannvirkja
- Verkhönnun vegna stjórnunar vatnsrennslis á framkvæmdatíma
- Verkhönnun loka og þrýstipípu
- Verkhönnun vél- og rafbúnaðar (Multiconsult ASA)
- Verkhönnun skilgreindra viðbótarverka
- Verkáætlun verkhönnunar
- Kostnaðargreining verkhönnunar á grundvelli tillögu verktrés kostnaðaráætlunar
- Greinargerðin: Grundvöllur áætlunarinnar, Basis of Estimate, TCM Framework: 7.3 - Cost Estimating and Budgeting