Landbúnaðarland í Kjósarhreppi
Landbúnaðarland í Kjósarhreppi var flokkað í fjóra flokka eftir mikilvægi lands til akuryrkju. Starfsfólk EFLU var ráðgjafi í verkefninu og sá um gerð tillögu, úrvinnslu og framsetningu.
Um hvað snýst verkefnið
Með flokkun landbúnaðarlands var mótuð aðferðafræði fyrir sveitarfélagið til að geta tekið á landnýtingarmálum á jafnræðisgrundvelli og að íbúum og landeigendum sé ljóst hvaða leikreglur eru í gildi áður en farið er út í skipulagsvinnu einstakra jarða eða landareigna.
Meginmarkmið voru
- Viðurkennt verði að vernda beri gott ræktunarland eins og aðrar auðlindir
- Góðu ræktunarlandi verði ekki spillt með óábyrgu skipulagi eða landnýtingu sem spillt geti fyrir mögulegri ræktun
- Tryggja sem best hnökralausa sambúð landbúnaðar, frístundabyggðar og annarrar landnotkunar
- Flokkun landbúnaðarlands nýtist til að marka stefnu um gott landbúnaðarland í aðalskipulagi sveitarfélagsins.
Landbúnaðarland í Kjósarhreppi var flokkað í fjóra flokka. Fjalllendi flokkast sem óbyggt land og er ekki tekið með í útreikninga þar sem það leiðir til fremur óraunsærrar niðurstöðu þar sem sveitarfélagið er fjalllent.
- Flokkur I kjörlendi fyrir akuryrkju eru rúmlega 1.050 ha (12%)
- Flokkur II - gott akuryrkjuland er tæplega 800 ha (9%)
- Flokkur III - blandað ræktunarland er tæplega 3.000 ha (33%). Land í þessum flokki getur hentað vel til skógræktar en einnig til beitar
- Flokkir IV ö annað land, er rúmlega 4.100 ha (46%). Land sem hentar m.a. til beitar, fyrir frístundabyggð og oft gott fyrir skógrækt
Umhverfismál
Við flokkun landbúnaðarlands er bæði gengið út frá ræktunar- og nýtingarhæfni lands. Líta ber á lífrænan jarðveg og plógtækt land sem auðlind sem ber að vernda fyrir matvælaframleiðslu til framtíðar litið. Jarðvegsgerð, halli lands, hitastig og hæð yfir sjó eru allt þættir sem skipta máli við flokkun landbúnaðarlands.
Eitt af markmiðum rammasamnings um loftlagsbreytingar er: "Að koma í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af mannavöldum og tryggja þannig að matvælaframleiðslu í heiminum verði ekki stefnt í hættu og að efnahagsþróun geti haldið áfram á sjálfbæran máta".
Eitt af markmiðum Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum 2018-2030 er að auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti með skógrækt og landgræðslu. Með því að flokka landbúnaðarland eru dregin fram þau svæði sem er æskilegt að nýta áfram til landbúnaðar (flokkar 1 og 2) og einnig sjást þau svæði sem eru þá heppilegri til skógræktar og jafnvel landgræðslu (flokkar 3 og 4).
Hlutverk EFLU
- Ráðgjafi verkkaupa við flokkun landbúnaðarlands
- Umsjón með tillögugerð ásamt vinnuhópi Kjósarhrepps o.fl. aðila
- Úrvinnsla og framsetning á uppdrætti og greinargerð
Ávinningur verkefnis
Með flokkun landbúnaðarlands hafa sveitarfélög yfirsýn yfir hvar er gott ræktunarland og geta nýtt flokkunina til að setja skilmála í aðalskipulagi fyrir slíkt land.
Getur komið í veg fyrir að landi sem hentar vel til ræktunar verði ráðstafað til annarrar landnotkunar með óafturkræfum hætti.