Loftmynd af Mývatni.

Fráveitulausn í Mývatnssveit

MývatnssveitIðnaðurSjálfbærni og umhverfiSkipulagsmál

EFLA sá um verkfræðiráðgjöf varðandi fráveitulausn fyrir Skútustaðahrepp sem gengur út á að aðskila svartvatn frá grávatni hjá öllum rekstraraðilum sveitarfélagsins og endurnýta næringarefni í svartvatninu til uppgræðslu á Hólasandi.

Viðskiptavinur
  • Skútustaðahreppur
Verktími
  • 2017 - 2020
Þjónustuþættir
  • Fráveitu- og ofanvatnskerfi
  • Hönnun mannvirkja
  • Skipulagsmál

Um hvað snýst verkefnið

Kostnaður við þessa leið reyndist mun minni en við uppsetningu hefðbundinna þriggja þrepa hreinsistöðva á hverjum stað. Endurnýting skólps er einnig jákvæð fyrir umhverfið og stuðlar að minni losun gróðurhúsalofttegunda.

Mývatn og lífríki þess nýtur sérstakrar verndar í lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Eitt af því sem áhrif hefur á ástand vatnsins og vistkerfis þess er fráveituvatn frá byggðinni umhverfis vatnið. Miklar sveiflur í bakteríuflóru vatnsins undanfarin ár hafa orðið tilefni til vinnu við úttekt á núverandi fráveitukerfi sveitarinnar og við tillögur að breytingum á því. Í reglugerð um verndum Mývatns og Laxár er þess krafist að skólp sé hreinsað með ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa þar sem losun nemur meira en 50 persónueiningum. Rotþró með siturbeði er í reglugerð um fráveitur og skólp skilgreind sem tveggja þrepa hreinsivirki og er slíkt hreinsivirki því ófullnægjandi fyrir stærri aðila og fjölmennari staði á vatnasviði Mývatns og Laxár.

Endurnýting svartvatns til uppgræðslu

EFLA vann skýrslu árið 2017 um fráveitumál við Mývatn en þar var fjallað um núverandi stöðu og lagðar fram tillögur að úrbótum. Einn valkost við hreinsun fráveituvatns var þó ekki fjallað um í þeirri skýrslu en það er sá möguleiki að aðgreina svokallað svartvatn (e. blackwater) frá grávatni (e. greywater), en það er annars vegar salernisskólp og hins vegar skólp frá baðherbergi, eldhúsi og þvottahúsi. Svartvatnið yrði þá fjarlægt af svæðinu en grávatnið hreinsað með hefðbundum hætti á staðnum. Sá kostur að fjarlægja allt skólp var skoðaður í skýrslu EFLU og var metinn óraunhæfur vegna mikils umfangs grávatnsins. EFLA hefur nú unnið að þróun fráveitulausnar sem miðar að því að skilja svartvatn frá grávatni með það að markmiði að endurnýta næringarefni úr svartvatninu til uppgræðslu á Hólasandi, sem er stórt landgræðslusvæði í umsjá Landgræðslu ríkisins.

Vatnssparandi salerni

Notkun vatnssparandi salerna er forsenda þess að hægt sé að aka salernisskólpi upp á Hólasand og því munu allir rekstraraðilar og stofnanir sveitarfélagsins koma til með að skipta út hefðbundnum vatnssalernum fyrir vatnssparandi vacuum salerni. Þau síðarnefndu nota 1 lítra af vatni í hverju skoli en hefðbundin vatnssalerni nota 6-9 lítra í hverju skoli. Þessir aðilar munu einnig fjárfesta í lokuðum tönkum til geymslu á svartvatni en grávatn frá þessum aðilum verður hreinsað í núverandi rotþróm og siturbeðum innan lóðar hjá hverjum aðila.

Svartvatn sem áburður

Á Hólasandi verður svartvatnið geymt í geymslutanki og nýtt sem áburður á sumrin. Ætlunin er einnig að sía svartvatnið en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort sá síubúnaður verður staðsettur við geymslutankinn á Hólasandi eða í sjálfum dælubílnum sem kemur til með að tæma svartvatnstankana. Einn slíkur bíll er til á landinu, í Hrunamannahreppi, og hefur hann reynst vel og minnkað sorp úr rotþróarseyru umtalsvert en með þessum hætti fæst hreinna efni til endurnýtingar í landgræðsluverkefnum.

Ný lausn á Íslandi

Þessi fráveitulausn er ný af nálinni í íslensku umhverfi en leitast hefur verið við að endurnýta salernisskólp um árabil í Svíþjóð, til dæmis í bæjarfélögunum Uddevalla og Södertälje, ekki síst vegna þess að í svartvatni er mikið magn fosfórs sem er mikilvægt áburðarefni. Nú þegar hefur eitt hótel við Mývatn tekið vatnssparandi salerni í notkun en framkvæmdir við byggingu geymslutanks á Hólasandi munu að mestu fara fram sumarið 2019.

Umhverfismál

Umhverfislegur ávinningur af þessari fráveitulausn er mikill. Í fyrsta lagi sér Landgræðslan fram á að geta hætt notkun á innfluttum, tilbúnum áburði á Hólasandi og einnig er talið líklegt að uppgræðsluverkefnið megi vinna hraðar en gert hefur verið hingað til. Minni innflutningur áburðar og aukin uppgræðsla örfoka landsvæða er jákvætt fyrir losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

Endurnýting fosfórs úr skólpi er einnig mikilvægt umhverfislegt atriði en fosfór er óendunrýjanleg auðlind sem unnin er úr námum. Námur þessar munu að endingu tæmast og því er mikilvægt að hefja aðgerðir til að auka endurnýtingu fosfórs úr skólpi og öðrum úrgangi.

Rannsóknir á sviði útskolunar næringarefna úr áburði í jarðvegi, bæði erlendis og hér á landi, hafa sýnt að upptaka köfnunarefnis og fosfórs af gróðri er það mikil að litlar líkur eru taldar á að næringarefni berist í grunnvatn á Hólasandi. Vöktunarrannsóknir munu leiða í ljós hversu mikið af næringarefnum skolast út í jarðveg og mögulega til grunnvatns, og með þeim hætti má áætla hvort minnka þurfi magn svartvatns sem dreift er á uppgræðslusvæðum, eða hvort auka megi magnið.

Hlutverk EFLU

  • Samráð sveitarfélagsins, Landgræðslunnar, heilbrigðiseftirlitsins, Umhverfisstofnunar og umhverfisráðuneytisins um þessa leið
  • Hönnun fráveitulausnarinnar
  • Gerð áætlunar um vöktunarrannsóknir í samvinnu við Landgræðsluna
  • Ráðgjöf við rekstraraðila í Skútustaðahreppi og sveitarfélagið varðandi uppsetningu nýrrar salernislausnar og vali á tönkum til geymslu á svartvatni
  • Skipulagsmál

Ávinningur verkefnis

Stofn- og rekstrarkostnaður er lægri við þessa lausn en hefðbundna fráveitulausn sem hefði falist í því að setja upp þriggja þrepa hreinsistöðvar á þeim stöðum sem losa meira en 50 persónueiningar af skólpi. Umhverfislegur ávinningur af þessari fráveitulausn er einnig mikill. Vonast er til að reynslan af endurnýtingu svartvatns til uppgræðslu muni nýtast á fleiri stöðum á landinu.

Viltu vita meira?