Vök Baths
EFLA sá um verkfræðihönnun og lýsingarhönnun á Vök Baths nýjum áningarstað ferðamanna á Austurlandi.
Um hvað snýst verkefnið
Umhverfi staðarins er einstakt þar sem Vakirnar, heitar náttúrulaugar, fljóta úti í vatninu.
Vök Baths er staðsett við bakka Urriðavatns sem er rétt fyrir utan Egilsstaði. Um er að ræða áningarstað fyrir ferðamenn sem geta komist í beina snertingu við náttúruna og nært í leiðinni líkama og sál. Eitt helsta kennimerki staðarins eru Vakirnar, tvær fljótandi heitar náttúrulaugar, sem eru staðsettar úti í vatninu og eru fyrstu sinnar tegundar hérlendis. Þær fljóta í vatninu og eru festar eins og bátar til að lágmarka umhverfisáhrif þeirra. Á staðnum er einnig laugarbar, gufubað, köld úðagöng og veitingastaður.
Vakirnar eru hitaðar með jarðhitavatni sem kemur úr borholum Urriðavatns en á Austurlandi eru fá jarðhitasvæði og því spennandi nýjung fyrir íbúa og gesti. Jarðhitinn í Urriðavatni varð sýnilegur þegar ákveðnar vakir, svokallaðar Tuskuvakir, mynduðust á vatninu yfir vetrartímann. Vakirnar urðu kveikja að þjóðsögum um skrímslið Tusku sem bjó í vatninu og urðu innblástur arkitekta í byggingarlist Vök Baths.
Jarðhitavatnið úr borholunum hefur verið vottað drykkjarhæft en ekkert jarðhitavatn hér á landi hefur fengið þá vottun áður. Staðurinn, í samstarfi við brugghúsið Austra, bruggar bjór úr jarðhitavatninu og býður að auki upp á jarðhitate.
EFLA sá um eftirfarandi þætti verkefnisins
Lýsingarhönnun
Markmiðið var að skapa notalega og aflappaða stemningu og er lýsingarhönnunin hlutlaus og lágstemmd. Hugmyndafræðin í upphafi verkefnis var að gæta að öryggi gesta og er öryggislýsingin á útisvæðum hugsuð til að lýsa upp vakarform laugarinnar þannig að fólk hrasi ekki.
Lýsingu var komið fyrir ofan í steyptu laugunum sem lýsir upp tröppur og steina til að tryggja að fólk reki sig ekki í eða slasi sig. Inni í búningsklefunum eru gestir færðir djúpt inn í bygginguna, nánast inn í jörðina. Gestir upplifa afslappað og hlýtt andrúmsloft þar sem lýsingin spilar stórt hlutverk. Birtan er mjúk sem undirstrikar arkitektúrinn og veitir baðgestum notalegt umhverfi. Lýsingunni er beint að veggjum og innréttingum en ekki á gólf eða staði þar sem fólk gæti upplifað sig upplýst.
Öll lýsing er LED og dimmanleg með DALI kerfi og aðgengileg með skjástýringu í hússtjórnunarkerfi hússins. Lýsingin var forrituð og stillt á staðnum í samvinnu við lýsingarhönnuð, arkitekta og verkkaupa til að ná fram þeim áhrifum sem óskað var eftir hverju sinni. Gerðar voru senur sem auðvelda starfsmönnum að breyta lýsingunni eftir þörfum. Sem dæmi um slíkt er norðurljósasena sem dimmar niður lýsingu bæði inni og úti til að auka upplifun gesta af ljósadýrðinni.
Hússtjórnarkerfi
Í hússtjórnarkerfi Vök Baths hafa starfsmenn góða og skýra yfirsýn yfir stöðu lauga-, loftræsi-, lýsinga- og neysluvatnskerfa byggingarinnar. Fárra inngripa er krafist af notendum, þar sem öll kerfi eru í nær alsjálfvirkum rekstri. Þá eru aðvaranir sendar úr hússtjórnarkerfi í vaktsíma starfsfólks ef eitthvað bjátar á og því unnt að reka kerfin mannlaus.
Nýverið var innleitt kallkerfi í hússtjórnarkerfið og geta baðgestir kallað eftir þjónustu með hnöppum á baðsvæði og í búningsklefum. Starfsfólk getur fengið beiðnirnar sendar í síma sem gerir rekstraraðilum kleift að manna færri fastar starfstöðvar.
Laugakerfi
Baðlónið er náttúrulaug og er jarðvarmavatnið nýtt beint í laugarnar og þ.a.l. eru enginn hreinsefni í baðvatninu. Til að tryggja hreinsun er nýju jarðvarmavatni dælt í laugarnar og vatnið endurnýjað til að tryggja hreinlæti. EFLA gerði hermanir til að tryggja sem bestu nýtingu á jarðvarmavatninu og einnig til að tryggja ákjósanlega hitadreifingu í laugunum.
Til að minnka notkun á jarðvarmavatni er varminn úr affallinu frá laugunum nýttur til að hita upp kalda vatnið sem er blandað við jarðvarmavatnið áður en því er dælt í laugarnar.
Burðarvirki
Húsið er á einni hæð og er allt burðarvirkið úr steinsteypu og nánast allt forsteypt nema gólf og ásteypa á loftaplötur. Allir innveggir eru einnig forsteyptir hvort sem þeir eru berandi eða ekki. Sérstaka athygli vekur veggur sem gengur þvert í gegnum húsið með munstur eftir lerkiboli og þvegna steypu milli þeirra. Laugarnar eru einnig gerðar úr forsteyptum einingum með staðsteyptum botni.
Loftræsing
Lögð var mikil áhersla á loftgæði í byggingunni og var loftræsing hönnuð fyrir baðklefa, veitingasal og starfsmannarými. Helstu áskoranir voru að láta loftræsinguna falla inn hönnun og arkitektúr hússins, en ventlar og ristar eru hvergi sjáanlegar í loftum.
Umhverfismál
Við hönnun Vök Baths var lögð áhersla á að raska sem minnst umhverfinu við Urriðavatn. Byggingarefnin eru náttúruleg og vistvæn og er timbrið og steypan unnin á svæðinu.
Sjálfbærni og virðing við umhverfið var rauður þráður í allri hönnun sem og í starfseminni.
Hlutverk EFLU
- Verkfræðihönnun allra mannvirkja (utan flotlauga)
- Byggingahönnun
- Ráðgjöf við sundlaugakerfi
- Hönnun loftræsikerfis
- Hönnun og ráðgjöf vegna hússtjórnarkerfis
- Lýsingarhönnun, bæði úti- og innilýsing
Hönnun hússins var í höndum Basalt arkitekta og voru innviðir þess hannaðir í samstarfi við Design Group Italia.
Ávinningur verkefnis
Um er að ræða einstakan ferðamannastað á Austurlandi sem á engan sér líkan og búast má við að staðurinn verði fjölsóttur af ferðafólki og íbúum svæðisins. Veitingastaðurinn býður m.a. upp á jarðhitate og bjór bruggaðan úr jarðhitavatninu, en vatnið eykur enn á sérstöðu staðarins þar sem það er það eina á landinu sem hefur verið vottað drykkjarhæft af heilbrigðisyfirvöldum.
- 1 / 3
- 2 / 3
- 3 / 3