Matarspor
Matarspor er þjónustuvefur fyrir mötuneyti, matsölustaði og matvöruverslanir.
Þar má reikna má út og bera saman kolefnisspor og næringargildi mismunandi máltíða, rétta og vara. Kolefnisspor máltíðanna er sett í samhengi við það hversu langt þyrfti að aka fólksbíl til að losa sama magn gróðurhúsalofttegunda.
Næringagildi og kolefnisspor máltíða
Ein mesta ógn sem mannkynið stendur frammi fyrir í dag er hnattræn hlýnun vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Íslenskur landbúnaður veldur 13% losunar í kolefnisbókhaldi Íslands og er þá ótalin losun vegna framleiðslu matvæla erlendis og innflutnings þeirra. Því er mikilvægt að miðla upplýsingum um áhrif matvæla á loftslagið svo hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir.
Samhliða þessari þróun, hefur tíðni lífstílssjúkdóma farið sívaxandi sem má meðal annars rekja til óhollustu í mataræði. Þar af leiðandi, auk kolefnisspors máltíða og rétta, eru einnig settar fram upplýsingar um næringargildi þeirra.
Neðar á síðu má sjá algengar spurningar og svör um útreikninga.
Reiknir fyrir kolefnisspor og næringargildi máltíða
Kolefnisspor er mælikvarði á beina og óbeina losun gróðurhúsalofttegunda vegna athafna mannsins. Matarspor er reiknir sem veitir upplýsingar um kolefnisspor og næringargildi máltíða. Matarspor virkar þannig að skráðar eru uppskriftir ólíkra máltíða og hugbúnaðurinn stillir þá upp samanburði á bæði kolefnisspori og næringargildi máltíðanna. Í Matarspori er hægt að setja inn upplýsingar um innflutning ef um er að ræða erlend matvæli. Kolefnissporið er síðan sett í samhengi við það hversu langt þyrfti að aka fólksbíl til að losa sama magn af gróðurhúsalofttegundum.
EFLA vinnur nú að útreikningum á kolefnisspori íslenskra matvæla í samstarfi við Matís og Háskóla Íslands í samráði við helstu hagsmunaaðila sem starfa í matvælaiðnaðinum á Íslandi. Slíkt samstarf tryggir gæði gagnanna, að aflað sé gagna sem endurspegla vistferil matvælanna hér á landi og að greiningarnar séu unnar með samræmdum aðferðum. Gagnagrunnur Matarsporsins er því í stöðugri þróun og útreikningarnir verða sífellt nákvæmari fyrir íslenskan markað.
Upplýst ákvörðun um eigin neyslu
Til þess að sigrast á loftslagsvánni þarf að auðvelda fólki að taka upplýstar ákvarðanir. Matarspor er verkfæri sem birtir kolefnisspor máltíða með myndrænum hætti sem og næringargildi þeirra. Upplýsingarnar auðvelda þannig notendum að taka upplýsta ákvörðun um eigin neyslu og stuðlar að vitundarvakningu um matarsóun og nýtingu matarafurða. Matarspor er því vel til þess fallið að auka umhverfis- og heilbrigðisvitund notenda og einnig til að þróa loftslagsvænni máltíðir.
Matarspor setur fram:
- Útreikning á kolefnisspori og næringargildi máltíða í mötuneytum og matsölustöðum
- Samanburð á kolefnisspori allt að 5 mismunandi máltíða með myndrænum hætti
- Helstu ofnæmisvalda máltíða
- Kolefnisspor máltíða sett í samhengi við útblástur fólksbíls
- Kolefnisspor sem byggir á fleiri en 500 matvælum og er gagnagrunnurinn reglulega uppfærður og fer stækkandi
Ávinningur með notkun Matarspors
- Veitir aukna umhverfisvitund starfsfólks og viðskiptavina
- Er öflugt tól til að meta og draga úr losun fyrirtækis vegna matar og matarsóunar
- Er verkfæri til að þróa loftslagsvænni máltíðir og mataræði
Algengar spurningar og svör um útreikninga í Matarspori
Matarspor byggir á stórum gagnagrunni sem inniheldur gögn um losun gróðurhúsalofttegunda vegna matvæla. Umsjónarmaður mötuneytis eða matsölustaðar slær inn magn allra hráefna í einni máltíð og tilgreinir hvort þau séu innflutt og þá frá hvaða heimsálfu.
Matarspor sækir upplýsingar í gagnagrunninn, reiknar út kolefnisspor máltíðarinnar og birtir það jafnóðum á stöplariti. Til að setja hlutina í samhengi þá er einnig birtur sá fjöldi kílómetra sem meðalfólksbíll þarf að aka til þess að losun hans jafnist á við kolefnisspor máltíðarinnar.
Kolefnisspor matvæla er samantekt á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda sem fram fer á líftíma eða vistferli þeirra, þ.e.a.s. eftir allri virðiskeðjunni.
Tekið er tillit til losunar gróðurhúsalofttegunda vegna breytinga á landnotkun (t.d. ruðningur skóga), framleiðslu fóðurs, reksturs býlis, vinnslu matvöru, flutninga, umbúða og sölu, nema að annað sé tekið fram.
Matarspor reiknar kolefnisspor máltíða og matvæla, en það reiknar ekki önnur umhverfisáhrif á borð við súrnun sjávar, vatnsnotkun eða næringarefnaauðgun, né heldur er tekið mið af öðrum mikilvægum samfélagsþáttum eins og líffræðilegri fjölbreytni, heilsu manna, jafnrétti og fátækt.
Já, Matarspor býður notanda að fylla inn frá hvaða heimsálfu hvert og eitt matvæli er og hvort það var flutt inn með skipi eða flugvél. Innflutningurinn er síðan sýndur sér í samanburðinum til að notandi geti auðveldlega áttað sig á því hversu stóran þátt flutningar til landsins eiga í kolefnissporinu.
Matarspor byggir á gagnagrunni sem EFLA hefur útbúið og heldur við. Gögn fyrir íslensk matvæli koma bæði úr vistferilsgreiningum sem EFLA hefur unnið og öðrum greiningum sem hafa verið gerðar fyrir íslensk matvæli. EFLA sér um að uppfæra gagnagrunninn eftir því sem niðurstöður fyrir fleiri íslensk matvæli liggja fyrir.
Í samstarfi við Matís og Háskóla Íslands, vinnur EFLA að útreikningum á kolefnisspori íslenskra matvæla. EFLA sér um að uppfæra gagnagrunninn eftir því sem niðurstöður fyrir fleiri íslensk matvæli liggja fyrir.
Í kolefnisspori nautgripakjöts skiptir miklu máli hvort einungis sé verið að framleiða kjöt, þ.e. kjöt frá holdanautum og holdakúm, eða hvort einnig sé verið að framleiða mjólk. Ef einungis er verið að framleiða kjöt (holdanautgripir) þá tilheyrir allt kolefnissporið kjötinu. Ef, hins vegar, verið er að framleiða mjólk líka þá skiptist kolefnissporið á þessar tvær vörur, kjötið og mjólkina. Á alþjóðavísu fylgir holdanautsframleiðslu auk þess töluvert meiri landnotkun heldur en mjólkurframleiðsla, bæði vegna ræktunar og framleiðslu fóðurs.
Þess vegna er kolefnisspor alþjóðlegs nautgripakjöts frá holdanautum og holdakúm u.þ.b. þrefalt hærra heldur en kolefnisspor nautgripakjöts frá mjólkurframleiðslu.
Við eigum íslensk gögn fyrir lambakjöt, nautakjöt, mjólk, eldisbleikju, eldislax, þorsk, kartöflur, gúrkur, salat, tómata, gulrætur og ýmsar káltegundir (gulrætur og kál eru flokkuð saman sem annað grænmeti). Ef notandi velur innlent þá eru notuð íslensk gögn ef þau eru til, annars eru notuð erlend gögn.
EFLA uppfærir gagnagrunninn eftir því sem niðurstöður fyrir fleiri íslensk matvæli liggja fyrir.
Matarspor býður notendum upp á að velja frá hvaða landi maturinn kemur en það er einungis til að reikna út flutning til Íslands. Gögnin sem reiknirinn byggir á eru meðaltalsgögn og á bakvið kolefnisspor erlendra matvæla í gagnagrunninum eru gögn frá mörgum bændabýlum, allt frá nokkrum tugum og upp í nokkur þúsundum bændabýla sem eru staðsett víða um heim. Inni í meðaltalinu eru því gögn fyrir mismunandi lönd en reiknirinn býður ekki upp á að velja kolefnisspor fyrir framleiðslu í tilteknu landi.
Framleiðsluaðferðir fyrir sömu matvæli geta verið mismunandi og kolefnisspor sömuleiðis. Í reikninum er stuðst við meðaltalsgögn og á bakvið kolefnisspor erlendra matvæla eru gögn frá nokkrum tugum og upp í nokkur þúsund bændabýla sem eru staðsett víða um heim. Það er því almennt ekki hægt að velja á milli framleiðsluaðferða en inni í meðaltalinu ætti að vera tekið tillit til helstu framleiðsluaðferða.
Í Matarsporinu er reiknað með meðallosun á km fyrir fólksbílaflotann sem er gefin út af Orkusetri og hefur verið tæplega 160 g CO?/km á fyrri hluta árs 2019.
Ef kjöt er borið saman við kaloríuríkan mat úr plönturíkinu þá er kolefnisspor kjöts mun hærra á hverja kaloríu. Það er vegna margra þátta en helst er það vegna þess að umbreyting efnaorku úr plöntum í dýrakjöt er flókið ferli og það tapast mikil orka á leiðinni. Sömu sögu er að segja ef kjöt er borið saman við próteinríkan mat úr plönturíkinu. Þetta á við um meðaltalið, en breiddin í niðurstöðum er mikil og bestu framleiðsluaðferðir í kjötframleiðslu geta verið með töluvert lægra kolefnisspor en verstu framleiðsluaðferðir í grænmetisframleiðslu.
Kolefnissporið er sérstaklega hátt fyrir kjöt jórturdýra vegna losunar gróðurhúsalofttegunda frá meltingarvegi þeirra, þ.e. iðragerjunar. Jórturdýr eru jurtaætur sem geta ekki melt beðmið (sellulósann) í veggjum plöntufruma. Til að brjóta niður beðmið jórtra þau og nýta sér margar tegundir örvera í meltingarfærum sínum. Við niðurbrotið verður til metangas sem er öflug gróðurhúsalofttegund. Verið er að rannsaka hvernig mismunandi fóðurbætir getur dregið umtalsvert úr þessari losun. Nautgripir, kindur og geitur eru jórturdýr.
Ef kjöt er borið saman við mat úr plönturíkinu þá er kolefnisspor kjöts mun hærra, sjá nánar í svari við spurningunni: Af hverju er kolefnisspor kjöts svona hátt og svona mikill munur á kjöti og grænmeti? Munurinn á kolefnisspori kjöts og grænmetis er yfirleitt það mikill að hann er meiri heldur en kolefnisspor vegna innflutnings með sjóflutningum. Þetta á við um meðaltal í Matarspori en er ekki algilt fyrir alla framleiðendur kjöts og grænmetis.
Þetta er hins vegar ekki jafn klippt og skorið ef grænmeti eða ávextir eru fluttir inn með flugi, en þá hækkar losunin umtalsvert. Matarspor býður notanda að stilla innflutning matvæla þannig hægt sé að ganga úr skugga um hvort valkosturinn sé loftslagsvænni.
Kolefnisspor íslensk lambakjöts var metið í greiningu sem var gerð af Environice árið 2017. Í greiningunni var tekið tillit losunar gróðurhúsalofttegunda frá meltingu dýranna, geymslu og notkun búfjáráburðar og tilbúins áburðar, notkun kalks og þvagefnis og brennslu jarðefnaeldsneytis.
Auk þess var tekið tillit til þeirrar losunar sem verður ofar í virðiskeðjunni við raforkuvinnslu, framleiðslu og flutning tilbúins áburðar, rúlluplasts og annarra aðfanga. Um helmingur kolefnissporsins (án landnotkunar, vinnslu, pakkningar og dreifingar) er vegna meltingar dýranna, 25% vegna búfjáráburðar og 13% vegna brennslu eldsneytis. Hlutdeild annarra þátta í sporinu er talsvert minni.
Í ofangreindri greiningu var ekki tekið tillit til losunar vegna framleiðslu og flutnings eldsneytis, framræsingar votlendis fyrir tún og beitarlönd, land- og gróðureyðingar á afrétti né vegna annarra breytinga á landnotkun og má því ætla að kolefnissporið sauðfjárræktar sé í raun hærra.
Í Matarspori er stuðst við ofangreindar niðurstöður fyrir íslenskt lambakjöt, auk þess sem reiknað er inn alþjóðlegt meðaltal fyrir losun vegna landnotkunar, vinnslu kjöts, pökkun og dreifingu.
Kolefnisspor íslensk nautakjöts var metið í greiningu sem var gerð af EFLU árið 2020. Í greiningunni var tekið tillit losunar gróðurhúsalofttegunda frá meltingu dýranna, geymslu og notkun búfjáráburðar og tilbúins áburðar og brennslu jarðefnaeldsneytis.
Auk þess var tekið tillit til þeirrar losunar sem verður ofar í virðiskeðjunni við raforkuvinnslu, framleiðslu fóðurs, framleiðslu og flutning tilbúins áburðar og rúlluplasts. Um helmingur kolefnissporsins (án landnotkunar, vinnslu, pakkningar og dreifingar) er vegna meltingar dýranna, 13% vegna búfjáráburðar og 12% vegna framleiðslu og flutnings tilbúins fóðurs. Hlutdeild annarra þátta í sporinu er minni.
Í ofangreindri skýrslu var ekki tekið tillit til losunar vegna framleiðslu og flutnings eldsneytis, framræsingar votlendis fyrir tún og beitarlönd eða losunar vegna annarra breytinga á landnotkun og má því ætla að kolefnisspor nautgriparæktar sé í raun hærra.
Í Matarspori er stuðst við ofangreindar niðurstöður fyrir íslenskt nautakjöt og mjólkurframleiðslu, auk þess sem reiknað er inn alþjóðlegt meðaltal fyrir losun vegna landnotkunar, vinnslu kjöts, pökkun og dreifingu.
Gögn fyrir kolefnisspor íslensks eldislax byggja á greiningum á sjókvíaeldi en kolefnisspor íslenskrar bleikju byggir á greiningu á landeldi.
Kolefnisspor kjötframleiðslu samanstendur af losun frá öllum þáttum í vistferlinum. Þannig er tekið mið af losun vegna landnotkunar eða breyttrar landnotkunar (t.d. ef mýri hefur verið ræst fram vegna ræktunar), af metanlosun vegna gerjunar í meltingarvegi dýranna, losun vegna áburðar- og eldsneytisnotkunar og vegna framleiðslu fóðurs.
Kolefnisspor nautgripa- og sauðfjárræktar hefur verið reiknað fyrir greinarnar í heild sinni, en ekki liggja fyrir íslensk gögn um losun vegna landnotkunar. Er því reiknað inn alþjóðlegt meðaltal fyrir kolefnisspor landnotkunar. Einnig er reiknað inn alþjóðlegt meðaltal fyrir t.d. vinnslu, pökkun og dreifingu ef íslenskar tölur liggja ekki fyrir.
Þegar íslenskar tölur liggja fyrir um kolefnisspor landnotkunar fyrir kjötframleiðslu verður kolefnisspor kjöt- og mjólkurframleiðslu í Matarspori uppfærð. Sjá einnig svar hér að neðan um upplýsingar til grundvallar kolefnisspors fyrir lambakjöt og nautakjöt.
Sojakjötsafurðir mætti nálga sem tófú, svo lengi sem þær eru að mestu leyti úr soja og próteininnihald þeirra er svipað og í tófú (16 g prótein í 100 g).
Í skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) frá ágúst 2019 eru lagðar til aðgerðir til að draga úr loftslagsáhrifum matvælaiðnaðarins í heiminum, m.a. að draga úr matarsóun og úrgangsmyndun, breyta neysluhegðun og auka sjálfbærni í landbúnaði.
Það er nokkur munur á kolefnisspori þorsks frá línuveiðum og frá togveiðum. Kolefnissporið er 2-3 sinnum hærra fyrir togveiðar heldur en línuveiðar. Í Matarspori er gefið vegið meðaltal þar sem búið að vigta kolefnisspor línuveiða og togveiða út frá því hversu mikill afli er veiddur á Íslandi með hvorri aðferð.