Verðmætasköpun úr íslenskum skógum

27.03.2025

Fréttir
Fólk á gangi í skógi.

Ljósmyndir | Björk Gunnbjörnsdóttur, Galtalækjarskógi.

Starfsfólk EFLU hafði umsjón með greiningu hugmynda og vinnu samráðshóps við gerð skýrslunnar Úr skógi – Skógarafurðir á Íslandi. Skýrslan varpar ljósi á álitlegar hugmyndir um nýtingu skógarafurða og að íslenskir nytjaskógar bjóði upp á fjölmörg tækifæri til verðmætasköpunar.

Framleiðsla úr íslensku timbri

Skýrslan er afrakstur verkefnis sem Félag skógarbænda á Suðurlandi stóð að með stuðningi frá ýmsum sérfræðingum og með styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Þar kemur fram að spurn eftir timbri á heimsvísu fer ört vaxandi og að gera megi ráð fyrir að um 50 þúsund rúmmetrar af bolviði úr íslenskum nytjaskógum verði tækir til nýtingar frá og með árinu 2030.

Meðal þeirra hugmynda sem metnar voru álitlegar til framleiðslu úr íslensku timbri eru garðhýsi, jólatré, krosslímdar einingar, límtré, millikubbar í vörubretti og viðarkurl til orkuvinnslu. Aðrar hugmyndir, eins og lífkolavinnsla og hitameðhöndlað timbur, gefa jafnframt tilefni til þróunar á sértækum vörum.

Skóglendi.

Mikilvægt verkefni

Hlutverk EFLU í verkefninu var að safna og greina hugmyndir ásamt því að vinna gróft forval í samstarfi við sérfræðinga úr skógrækt, hönnun, iðnaði og fræðasamfélaginu. Í greiningunni var litið til raunhæfni hugmynda út frá markaðslegum og tæknilegum forsendum.

Framhaldið felur í sér að greina ítarlega stöðu skóga, innviða og markaðstækifæra. Meðal annars þarf að skoða möguleika á miðlægu vinnslu- og sölukerfi fyrir skógarafurðir, auk þess sem áhersla verður lögð á samfélags- og umhverfisáhrif. Verkefnið er mikilvægt framlag til nýtingar á sjálfbærum auðlindum.

Silja Björk Axelsdóttir og Alexandra Kjeld hjá EFLU stýrðu gerð skýrslunnar í samstarfi við Björn Bjarndal, verkefnisstjóra Félags skógarbænda á Suðurlandi. Verkefnið naut styrks úr Sóknaráætlun Suðurlands og fékk einnig stuðning frá Landi og skógi, Listaháskóla Íslands og Félagi vöru- og iðnhönnuða.

Skóglendi.