EFLA kynnti Matarspor á Stóreldhúsinu, árlegri fagsýningu sem var haldin í Laugardalshöllinni í vikunni.
Áhugaverðar umræður
Fjöldi fólks lagði leið sína á kynningarbás EFLU á sýningarsvæðinu til að kynna sér Matarspor. Matarspor EFLU er þjónustuvefur sem er hugsaður fyrir mötuneyti, matsölustaði og matvöruverslanir þar sem reikna má út og bera saman kolefnisspor og næringargildi mismunandi máltíða, rétta og vara.
Hluti af kynningunni var fyrirlesturinn Umhverfisáhrif matar og Matarspor sem Sigurður Loftur Thorlacius, umhverfisverkfræðingur hjá EFLU og einn af sérfræðingunum á bakvið Matarspor, flutti á sýningunni.
Þar kynnti hann Matarsporið ítarlega og fjallaði um hvaða mataræði er best fyrir heilsu okkar og plánetunnar. Auk þess kynnti hann skilvirka aðferð til að halda utan um matseðla, næringargildi, ofnæmisvalda, kolefnisspor og matarsóun.
Starfsfólk EFLU þakkar þeim sem komu við og tóku þátt í áhugaverðum umræðum á kynningarbásnum síðustu daga.