Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá EFLU, hélt erindi á Morgunfundi Vegagerðarinnar fyrir stuttu þar sem hann fjallaði um vegagerð á nýju hrauni. Frá því að eldsumbrot hófust á Reykjanesskaga er heildarumfang vegagerðar á svæðinu um 38 km, þar af eru samtals 8,8 km á nýju hrauni.
Varnargarðarnir sönnuðu strax gildi sitt
Eldgos á Reykjanesskaga hafa leitt til óvissu og nýrra áskorana við að verja innviði á svæðinu. Fyrir fjórum árum hófust öflugar skjálftahrinur í kringum Svartsengi og Þorbjörn sem síðan færðust yfir í Fagradalsfjall árin 2019-2020. Árið 2021, áður en það byrjaði að gjósa í Fagradalsfjalli, var settur saman hópur um varnir mikilvægra innviða til að greina áhættu og meta hvaða varnir væru mögulegar eða nauðsynlegar fyrir svæðið.
Jón Haukur segir að á þessum tíma hafi ekki verið vitað hvort eða hvenær það myndi gjósa en þann 19. mars 2021 hófst gos í Fagradalsfjalli. Í kjölfarið voru byggðir fimm varnargarðar í tilraunaskyni, þ.á.m. var byggður leiðigarður undir Stórhól í júní 2021. Sá garður sannaði gildi sitt þegar hann greip hraunið og beindi því frá gönguleiðinni upp á fjallið. „Það var varla búið að koma tækjunum á staðinn þegar hraunið kemur, en það tekst að stýra þessum lifandi hraunstraumi án þess að það væri kominn eiginlegur garður. Þarna skapaðist gríðarlega mikil reynsla,“ segir Jón Haukur.
Fyrsti vegurinn yfir hraun
Þann 2. janúar 2024 er byrjað á varnargarði L7 norðan við Grindavík en 12 dögum síðar, 14. janúar, byrjar að gjósa á ný í Sundhnúksgígaröðinni og þá fer Grindavíkurvegur undir hraun í fyrsta sinn. „Þarna fer vatnsveita, hitaveita, rafstrengir og fjarskipti til bæjarins allt forgörðum og fyrsta stóra lokunin verður á vegakerfinu. Nesvegur og Suðurstrandavegur voru opnir. Þarna gerum við fyrsta hraunveginn, vinnuveg yfir í Melhólsnámu, viku eftir að hraunið rann yfir veginn,“ upplýsir Jón Haukur.
Í vegagerð á nýju hrauni skipti máli að vinna rólega. Farið er með ýtu yfir hraunið og búin til veglína, síðan er hraunkarginn á yfirborðinu sléttaður áður en vegfylling er keyrð út sem yfirlag og að endingu eru fláarnir lagaðir. Helsta vandamálið er gufa og ryk. Gufan myndist þegar það rignir á heitt hraunið og hún byrgir fólki sýn. Rykið hleðst á rúður og lokar á loftsíur í vélum sem getur skapað hættu fyrir þann sem er að stjórna tækinu. „Það þarf að skilja þessa eiginleika á skorpunni og fljótandi massann til að geta unnið í þessu umhverfi,“ segir Jón Haukur.
Opnaðir á um það bil viku
„Stóri skellurinn kom síðan föstudaginn 8. febrúar 2024 þegar það gaus enn á ný og af meiri ákafa en áður svo hraun rann yfir Grindavíkurveg, Njarðvíkuræð fór í sundur og það varð heitavatnslaust á Suðurnesjum, með tilheyrandi óþægindum fyrir 30 þúsund manns. Daginn eftir var búið að keyra fyrstu jarðýtuna yfir hraunið, 52 tímum eftir að það rann. Hraunið var passlegt, lítill hæðarmunur og passlegur kargi ofan á hrauninu,“ segir Jón Haukur. Vegurinn yfir hraunið í þetta sinn var 300 metra langur og var opnaður sex dögum eftir að það byrjaði að gjósa.
Grindavíkurvegur tapaðist í þriðja sinn undir hraun þann 15. mars. Enn á ný var lagður nýr vegur yfir hraunið og hægt að opna hann viku síðar. Sá vegur var 400 metra langur.