Úthlutun úr Samfélagssjóði 2023

01.12.2023

Fréttir
A large group of people holding bouquet of flower with a big screen in the background

Styrkþegar Samfélagssjóðs EFLU 2023 ásamt Ágústu Rún Valdimarsdóttur og Sæmundi Sæmundssyni

Í gær, fimmtudaginn 30. nóvember, voru styrkir úr Samfélagssjóði EFLU afhentir. Í ár voru veittir sex styrkir úr sjóðnum. Verkefnin voru af fjölbreyttum toga og flokkuðust til góðgerðar- og félagsmála, menntamála, íþrótta- og æskulýðsmála og menningu og lista.

Úthlutun úr Samfélagssjóði 2023

Markmið sjóðsins er að styðja við framtak einstaklinga og hópa sem stuðla að farsælli þróun samfélagsins, auknum lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi.

Alls bárust sjóðnum 74 umsóknir en eins og áður sagði hlutu sex verkefni styrk að þessu sinni. Í úthlutunarnefnd Samfélagssjóðs EFLU sitja Sæmundur Sæmundsson forstjóri, Anna Heiður Eydísardóttir og Ágústa Rún Valdimarsdóttir.

Verkefnin sem hlutu styrk úr Samfélagssjóði EFLU 2023:

Kraftur stuðningsfélag

Kraftur er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. Kraftur hlaut 500.000 kr. styrk fyrir fjölskylduviðburði á vegum félagsins. Viðburðirnir eru boðnir félagsmönnum Krafts að kostnaðarlausu og eru hugsaðir til að skapa vettvang þar sem fjölskyldur geta komið saman og átt góðar stundir þrátt fyrir þær hindranir sem þau eru að takast á við.

Two individuals shaking hands, one holding bouquet of flowers

Þórunn Hilda Guðjónsdóttir hjá Krafti stuðningsfélagi ásamt Sæmundi Sæmundssyni forsjóra EFLU

Vox Feminae

Kvennakórinn Vox Feminae hlaut 450.000 kr. styrk til örtónleikahalds á hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu. Í lok hverra tónleika verður efnt til samsöngs heimilsfólks, starfsfólks og kórkvenna. Kórinn fagnar þrjátíu ára starfsafmæli í ár og er örtónleikaröð á hjúkrunarheimilum ein leið til að fagna þeim tímamótum.

Three individuals standing in front of a presentation screen, with one person holding a bouquet of flowers

Stefan Sand kórstjóri Vox Feminae og Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir kórmeðlimur taka við styrknum frá Sæmundi Sæmundssyni forstjóra EFLU.

STEM Húsavík

STEM Húsavík hlaut 400.000 kr. styrk fyrir Forritunarklúbb STEM fyrir börn á aldrinum 8-14 ára og þátttöku klúbbsins í FIRST Lego League forritunarkeppninni. STEM Húsavík var sett á fót í maí 2022 og er fyrsta STEM (Science, Technology, Engineering, Math) námsvistakerfið á Íslandi þar sem sérstökl áhersla er lögð á samfélagsþátttöku.

Three individuals standing in front of a presentation screen, with one person holding a bouquet of flowers

Huld Hafliðadóttir forstöðukona og stofnandi STEM á Húsavík, Sæmundur Sæmundsson forstjóri EFLU og Bridget Burger Fulbright sérfræðingur og ráðgjafi við STEM Húsavík

Körfuknattleiksdeild Skallagríms

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hlaut 350.000 kr styrk fyrir kaupum á skotvél sem hefur þann tilgang að grípa fráköst og senda boltann til baka á leikmenn. Vélin er notuð í þjálfun á öllum aldursstigum og skapar stórbætta aðstöðu fyrir einstaklinga sem vilja bæta körfuknattleik sinn.

Two individuals standing in front of a presentation screen, with one person holding a bouquet of flowers

Sigríður G. Bjarnadóttir, formaður körfuknattleiksdeildar Skallagríms ásamt Sæmundi Sæmundssyni forstjóra EFLU.

Fjölskylduhjálp Íslands

Fjölskylduhjálp Íslands, sem fagnar 20 ára starfsafmæli á árinu, hlaut 200.000 kr styrk fyrir matarsöfnun fyrir fjölskyldur í landinu.

Three individuals standing in front of a presentation screen, with one person holding a bouquet of flowers

Sæmundur Sæmundsson forstjóri veitir Ásgerði Jónu Flosadóttur og Jóhannesi Jóni Gunnarssyni styrk fyrir matarsöfnun Fjölskylduhjálpar Íslands.

Félagsfærnifjör

Íunn Eir Gunnarsdóttir hlaut 100.000 kr styrk fyrir útgáfu á kennsluhandbókinni Félagsfærnifjör. Tilgangur kennsluhandbókarinnar er að veita fagfólki verkfæri til að kenna börnum félagsfærni og byggir á kenningum um nám, hópastarf, hlutverk, leiðbeinenda og áhrif jafningja. Íunn Eir tók við styrknum á starfsstöð okkar á Akureyri af Hjalta Má Bjarnasyni svæðisstjóra okkar á EFLU Norðurlandi.

Við óskum styrkþegum innilega til hamingju og þökkum öllum sem sóttu um í Samfélagssjóð EFLU fyrir umsóknirnar.

Two individuals standing in front of wall with the EFLA logo, one of them is holding a bouquet of flowers

Íunn Eir Gunnarsdóttir ásamt Hjalta Má Bjarnasyni, svæðistjóra EFLU á Norðurlandi

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Samfélagssjóð EFLU fyrir 2024.