Tillögur EFLU, Ask arkitekta og Gagarín um útfærslu og uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis við Miklubraut og Skeiðarvog, þar með talinn stokk, voru kynntar í síðustu viku. Alls voru fimm tillögur kynntar og þar með mögulegar útfærslur í næstu umferð og þróun svæðisins.
Umfangsmikil uppbygging er fyrirhuguð í tengslum við Borgarlínu á næstu árum og auglýsti Reykjavíkurborg eftir tillögum í verkefnið. EFLA, Ask arkitektar og Gagarín tóku höndum saman og útfærðu hugmyndir að nýju skipulagi, ásýnd og uppbyggingu svæðisins sem verður blanda af íbúðar- og atvinnuhúsnæði.
Auðvelt að ferðast um Draumaborgina
Verkefnið sem fékk nafnið Draumaborgin gerir ráð fyrir því að Miklatorg, austan Snorrabrautar, sé hjartað í tillögunni og tengipunktur mannlífs í borginni eftir að Miklabraut verður dregin í stokk. Þægileg tenging við Borgarlínu og góðar samgöngur er lykilatriði og Snorratorg verður nýja meginstoppistöð almenningsvagna sem og megintenging við flugvöllin. Þétting byggðarinnar skapar fjölbreytt mannlíf og svæðið byggist upp af fólki sem þar býr, starfar og vinnur að sköpun á svæðinu.
Grænn ás myndar tengingu við útivistarsvæðin
Íbúar, vegfarendur og gestir svæðisins upplifa öryggi í lifandi og kviku borgarumhverfi þar sem vistvænir ferðamátar, almenningssamgöngur eru í aðalhlutverki og ákjósanlegasti valkosturinn til að komast leiða sinna. Áhersla er lögð á betri tengingu á milli hverfa sem og við háskólana og íþróttastarfsemina á Hlíðarenda. Grænn ás liggur í gegnum Draumaborgina og myndar sterka tengingu útivistarsvæða, á milli Öskjuhlíðar og Klambratúns.
Meðfylgjandi tvö myndbönd sýna tillögur teymisins um framtíðaruppbyggingu á svæðinu.
Fjölbreytt gróðuræktun umhverfinu til heilla
Vistvæn nálgun í hönnuninni er grunnstef og gert er ráð fyrir grænum þökum og gróðurhöll með lóðréttum landbúnaði (e. vertical farming) sem kemur til með að vera kennileiti fyrir svæðið og liður í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Hægt er að lesa meira um tillögurnar á vef Reykjavíkurborgar.
- 1 / 5
Uppbygging svæðis við Miklubraut. Líkanmynd: Ask arkitektar/EFLA.
- 2 / 5
Frá Miklubraut. Líkanmynd: Ask arkitektar/EFLA.
- 3 / 5
Frá Sæbraut. Líkanmynd: Ask arkitektar/EFLA.
- 4 / 5
Uppbygging við Sæbraut. Líkanmynd: Ask arkitektar/EFLA.
- 5 / 5
Uppbygging við Miklubraut. Líkanmynd: Ask arkitektar/EFLA.