Ása Rut Benediktsdóttir, sérfræðingur á umhverfis- og samfélagssviði EFLU, hélt fræðsluerindi á Dokkufundi í liðinni viku. Kynningin fjallaði um vistferilsgreiningar (e. Life Cycle Assessment, LCA) og hvernig þær geta stuðlað að aukinni sjálfbærni.
Stuðla að sjálfbærni
Kynnt voru dæmi um vistferilsgreiningar sem EFLA hefur unnið fyrir fjölbreytt fyrirtæki og stofnanir, þar á meðal vistferilsgreiningu fyrir jarðvarmastöð Landsvirkjunar, Þeistareykjastöð, og útgáfu umhverfisyfirlýsinga (e. Environmental Product Declaration, EPD) fyrir Steinull hf.
Sérstaklega var fjallað um hvernig LCA er notuð til að meta kolefnisspor bygginga í samræmi við breytta byggingarreglugerð sem tekur gildi 1. september 2025 sem krefst þess að kolefnisspor bygginga sé metið fyrir bæði byggingarleyfi og við lokaúttekt. Þá var farið yfir hvað vistferilsgreining er, hvernig slík greining fer fram og hvernig hún getur hjálpað fyrirtækjum og stofnunum að greina og draga úr umhverfisáhrifum.
Ása Rut er með M.Sc. í efnaverkfræði og hefur áralanga reynslu af vistferilsgreiningum, einkum í byggingargeiranum og iðnaði, auk þess að vinna umhverfisyfirlýsingar (EPD). Með sérþekkingu sinni hefur hún komið að fjölda greininga sem leggja grunn að sjálfbærari lausnum og vandaðri ákvarðanatöku.
Dokkufundir eru vettvangur þar sem sérfræðingar miðla dýrmætri þekkingu og faglegri reynslu á sínum sviðum. Þeir eru rafrænir, aðgengilegir öllum og stuðla að bæði faglegri og persónulegri þróun starfsfólks.