Starfsfólk EFLU hefur komið að undirbúningi fyrir nýjan Tækniskóla sem munu rísa við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði. Samkomulag um þennan nýja skóla var undirritað í liðinni viku af fulltrúum stjórnvalda, Hafnarfjarðarbæjar og Tækniskólans.
Skólinn í eina byggingu
Í dag fer starfsemi Tækniskólans fram í átta byggingum á fimm mismunandi stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Með þessari nýju byggingu mun öll þessi starfsemi verða í einni byggingu. Byggingin verður 30.000 fermetrar og mun rúma um 3.000 nemendur. Framkvæmdin mun fara fram í tveimur áföngum, í fyrri áfanga verður byggð um 24.000 m2 bygging og í seinni áfanga um 6.000 m2 til viðbótar. Þá er gert ráð fyrir frekari stækkunarmöguleikum á lóðinni í framtíðinni. Næstu skref eru undirbúningur hönnunar og framkvæmdar og eru áætluð verklok haustið 2029.
EFLA hefur aðstoðað Tækniskólann við undirbúning nýja skólans allt frá árinu 2018. Aðkoma EFLU hefur verið margvísleg s.s. verkefnastjórnun og greiningarvinna á sviði staðarvals, samgangna, skipulags og byggingarkostnaðar. Einnig hefur EFLA unnið að þarfagreiningu og nánari útfærslum með arkitektum og starfsfólki Tækniskólans.