Styrkir til rannsókna- og þróunarstarfs

13.03.2019

Fréttir
A complex intersection with multiple roadways, pedestrian paths and surrounding buildings

Loftmynd af Kringlumýrarbraut í Reykjavík.

Rannsóknir og nýsköpun eru mikilvægur og sívaxandi þáttur í starfsemi EFLU og er unnið markvisst að þróunarverkefnum. Nýverið fékk EFLA rannsóknarstyrki frá Vegagerðinni sem veitir nokkrum spennandi verkefnum brautargengi á árinu.

Á hverju ári auglýsir Vegagerðin eftir umsóknum um styrki til rannsókna- og þróunarverkefna. Veittir eru styrkir sem fjármagnaðir eru af svonefndu tilraunafé, sem er 1,5% af mörkuðum tekjum stofnunarinnar.

Rannsóknarverkefni EFLU sem hlutu styrk úr sjóðnum eru af fjölbreyttum toga og taka á ólíkum viðfangsefnum en með því sameiginlega markmiði að afla nýrrar þekkingar og stuðla að aukinni gæðum vegakerfisins og samgangna á Íslandi.

Verkefni EFLU sem hlutu rannsóknarstyrkina eru:

Rafbílar – áhrif á hljóðstig og tíðniróf

Verkefnið snýst um að framkvæma mælingar á hljóðgjöf frá sambærilegum bifreiðum sem hafa mismunandi aflgjafa, þ.e. diesel, bensín og rafmagn, og bera saman niðurstöður mælinga á hljóðstigi frá þeim. Markmiðið er að skoða hvaða áhrif ólíkir aflgjafar kunna að hafa á hljóðstig í umhverfinu miðað við breytilegan umferðarhraða og þær mótvægisaðgerðir sem ráðist er í vegna umferðarhávaða.

Nýting malbikskurl í burðarlög vega

Alþjóðakröfur til endurvinnslu, endurnýtingar og endurnotkunar úrgangsefna eru að aukast. Á Íslandi hefur undanfarin ár og áratugi verið fræst ofan af malbiki og við það myndast malbikskurl. Malbikskurl er gott efni sem best væri að nýta í nýtt malbik, en einnig má nýta efnið í burðarlög vega og stíga. Á hinum Norðurlöndunum er vel þekkt að nýta efnið í burðarlög vega bæði óbundin sem og bikbundin burðarlög.

Í verkefninu á að taka saman reynslu annarra þjóða í nýtingu malbikskurls í burðarlög vega, taka saman þá notkun sem hefur átt sér stað hérlendis sem og að kanna frekari möguleika á nýtingu efnisins í vegaframkvæmdir.

Road construction work in progress where workers are on machinery and road

Malbiksvinna á höfuðborgarsvæðinu.

Endurskoðun burðarþolsleiðbeiningar Vegagerðarinnar

Verkefnið felst í endurskoðun á burðarþolsleiðbeiningum Vegagerðarinnar sem voru gefnar út árið 2013. Leiðbeiningaritið er byggt á handbók norsku vegagerðarinnar, þá útgáfa 018 en nú N200. Nágrannaþjóðir okkar hafa uppfært sínar leiðbeiningar sem rétt væri að líta til en einnig þarf að líta til annarra rita Vegagerðarinnar sem og íslenskra staðhátta og aðstæðna.

Í verkefninu verður megináherslan á uppfærslu í samræmi við handbækur norsku Vegagerðarinnar en þó verður einnig litið til þess sem Svíar, Danir og Roadex verkefnið hafa gefið út. Svíar hafa verið mjög framarlega í burðarþolshönnun vega og eru að þróa mekanískar hönnunaraðferðir í stað þeirra emperísku aðferða sem víða eru notaðar í dag.

Staða BIM í samgöngumálum/samgöngumannvirkjum

Í verkefninu er leitast við að fá yfirsýn yfir stöðu BIM í samgönguverkefnum á Íslandi og rýnt í hvernig nágrannaþjóðirnar hafa unnið að innleiðingu BIM í samgönguverkefnum. BIM (e: Building Information Modeling) er aðferðarfræði í mannvirkjagerð er byggist á þrívíddarlíkönum, aukinni samvinnu og betri yfirsýn. BIM hefur það að markmiði að auka samverkun á milli aðila í mannvirkjagerð allt frá hönnun og framkvæmd yfir í rekstur mannvirkis.

Í framhaldi verkefnisins verður vonandi farið í að útbúa sér sniðið leiðbeiningarit fyrir Vegagerðina með lýsingu og kröfum á BIM verkferlum allt frá hönnun til framkvæmdar.

Mat á aðgerðum sem stuðla að bættu öryggi vegkafla og vegamóta | TARVA aðferðin

Víða erlendis hefur óhappa- og slysastíðni verið reiknuð út og metin fyrir vegi og vegmót m.a. til þess að leggja mat á umferðaröryggislegan ávinning af breytingum. Ein aðferð til að meta ávinninginn nefnist TARVA sem byggist á ákveðinni flokkun vegakerfisins. Í þessu verkefni verður lagt mat á það hvort TARVA aðferðin geti nýst til að meta breytingu á slysatíðni vega og vegamóta á Íslandi þegar aðgerðir eru gerðar til að ná fram öruggara umhverfi.

Greina aðstæður fyrir óvarða vegfarendur með myndgreiningu

Leitast verður eftir að greina aðstæður og meta umferðaröryggi á óvörðum vegfarendum með myndgreiningartækni. Notast verður við myndbandsupptökur til að mynda afmarkað svæði t.d. við gatnamót og gönguþveranir. Myndbandsupptakan er myndgreind með gervigreindarhugbúnaði og þannig fást fram upplýsingar sem nýtast við mat á aðstæðum og öryggi á óvörðum vegfarendum.

Samanburður á ferðatíma Strætós og einkabílsins innan höfuðborgarsvæðisins

Tilgangur verkefnisins er að bera saman ferðatíma með Strætó og með einkabílnum milli nokkurra áfangastaða innan höfuðborgarsvæðisins á annatíma árdegis og síðdegis. Slíkar mælingar geta gefið upplýsingar um samkeppnishæfni Strætó eftir mismunandi leiðum, en styttri ferðatími með almenningssamgöngum er ein af þeim úrbótum sem þykir mikilvægust meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins til þess að stuðla að aukinni notkun almenningssamgangna.

An urban street scene with a bright yellow city bus in motion

Ferðatími með Strætó verður borinn saman við ferðatíma með einkabílnum.

Áhrif af innleiðingu deilibíla á ferðavenjur og bílaeign

Ferðavenjukannanir og rannsóknir hérlendis og erlendis sýna að sá þáttur sem dregur einna mest úr líkum þess að fólk noti almenningssamgöngur er einkabílaeign og hefur það áhrif á næstum alla þætti þess hvernig fólk ferðast daglega. Mikilvægur liður í að auðvelda íbúum að draga úr notkun einkabílsins (eða koma í veg fyrir að fleiri en einn bíll sé á heimili) er aðgengi að deilibíl. Tilgangur verkefnisins er að meta þau áhrif sem deilibílaþjónusta hefur á ferðavenjur og bílaeign íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Sólarhringsdreifing umferðar eftir mismunandi gerðum gatna

Til þess að geta framkvæmt hávaðaútreikninga er mikilvægt að eiga áreiðanlegar upplýsingar um dreifingu og samsetningu umferðar á öllum tímum sólarhringsins. Markmið þessa verkefnis er að varpa ljósi á dreifingu umferðar yfir sólarhringinn á mismunandi gerðum gatna sem geta gagnast við útreikninga á hávaða. Notast verður við umferðarteljara til þess að meta umferðarmagn, hlutfall mismunandi gerða ökutækja og dreifing umferðar yfir sólarhringinn.

Hönnunarforsendur og samræming veglýsingar í þéttbýli og dreifbýli

Tilgangurinn með verkefninu er að skilgreina hönnunarforsendur veglýsingar í dreifbýli og þéttbýli. Það felur í sér endurskoðun á leiðbeiningariti Vegagerðarinnar, Veglýsing utan þéttbýlis, frá árinu 2009, með viðbótum vegna lýsingar á öllum þjóðvegum, utan sem innan þéttbýlis.

Miklar breytingar hafa orðið á sviði veglýsingar á undanförnum árum, ekki síst með tilkomu LED lýsingar. Það er því orðið tímabært að endurskoða ofangreindar leiðbeiningar og bæta þar ýmsu inn.

Markmið verkefnisins er að uppfæra núverandi leiðbeiningar um veglýsingu í dreifbýli ásamt því að bæta við lýsingu þjóðvega í þéttbýli. Þannig verður til samræming á notkun á lömpum og staurum sem myndi einfalda uppsetningu, viðhald og rekstur veglýsingarkerfa í framtíðinni.

Greining á kerfum og vinnuumhverfi í vaktstöð Vegagerðarinnar

Tilgangurinn með verkefninu er að skoða núverandi stöðu vaktstöðvar Vegagerðarinnar. Athugað verður hvernig skipulag vakstöðvarinnar og vinnuumhverfi er, auk þess sem skoðað verður hvernig stjórn- og öryggiskerfi eru skilgreind og hvernig starfmönnum gengur að sinna þeim. Metin verður staðan á gæðakerfi, verkferlum og vinnulýsingum. Auk þess að meta stöðuna á þjálfun og hæfni starfsmanna og hvernig fjarstýring kerfanna er skilgreind og varin fyrir utanaðkomandi aðgangi.

Markmið verkefnisins er að bæta aðstöðu, vinnuumhverfi og kerfi starfsmanna vaktstöðvarinnar, til að auka hæfni þeirra til að takast á við allar aðstæður og aðgerðir sem sinna þarf.

Í tillögu að 5 ára samgönguáætlun eru sett fram markmið um öryggi í samgöngum og mun verkefnið koma inn á nokkra þætti sem stuðlað geta að því að ná þeim markmiðum.

Félagsleg vistferilsgreining

Mat verður lagt á hvort aðferðafræðin félagsleg vistferilsgreining (e. Social Life Cycle Assessment) henti í vegagerðarverkefnum á Íslandi. Vistferilsgreining er alþjóðlega viðurkennd og stöðluð aðferðafræði þar sem mat er lagt á umhverfisáhrif vöru, framkvæmdar, framleiðsluferils eða þjónustu frá vöggu til grafar. Félagsleg vistferilsgreining er minna þekkt, þó hún eigi sér töluverða sögu. Árið 2009 gaf Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna út leiðbeiningarrit um félagslegar vistferilsgreiningar, og hefur aðferðafræðin verið notuð víða til að meta heildræn félagsleg áhrif á vistferli, vöru, framleiðsluferils eða þjónustu.

Markmiðið þessa verkefnis er að ráðast í heimildavinnu til að meta hvort aðferðafræðin félagsleg vistferilsgreining henti verkefnum Vegagerðarinnar á Íslandi. Jafnframt verður staða félagslegra vistferilsgreininga fyrir vegaframkvæmdir á nágrannalöndunum könnuð og litið verður til þess hvernig aðferðafræðin samræmist Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.