Styðja við hæfileika ungmenna

20.12.2024

Fréttir
Þrír menn og einn með blóm.

Pangeakeppnin, stærðfræðikeppni ætluð nemendum í 8. og 9. bekk, hefur skipað sér fastan sess á Íslandi frá því hún var sett á fót árið 2016. Verkefnið fékk styrk úr Samfélagssjóði EFLU. Keppnin hefur vaxið stöðugt og laðað til sín áhugasama krakka frá öllum landshornum.

Keppni með íslensku sniði

Pangeakeppnin á Íslandi á rætur að rekja til samnefndrar keppni í Þýskalandi sem nú er haldin víða um Evrópu. Keppnin er tveggja umferða, þar sem fyrstu umferðir fara fram í skólunum sjálfum og úrslitakeppni fer fram í Menntaskólanum við Hamrahlíð. „Pangea á Íslandi er þó sjálfstæð keppni,“ segir Sölvi Rögnvaldsson, einn af skipuleggjendum keppninnar. „Við semjum okkar eigin spurningar í samstarfi við stærðfræði- og eðlisfræðinema við Háskóla Íslands og sníðum fyrirkomulagið að íslenskum aðstæðum.“

Pangeakeppnin miðar að því að ná til sem flestra nemenda og veita þeim bæði hvatningu og sjálfstraust í stærðfræði. „Við viljum efla almennan áhuga krakka á stærðfræði. Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að margir komast áfram á eitthvert stig keppninnar, sem við vonum að efli trú þeirra á eigin getu,“ segir Sölvi.

Þá er einnig lögð áhersla á að styðja framúrskarandi nemendur. „Glæsileg úrslitakeppni sýnir þessum krökkum að hæfileikar þeirra og áhugi séu mikils metnir. Við viljum hvetja þau til áframhaldandi afreka.“

Stöðugur vöxtur frá upphafi

Fyrsta árið tóku rúmlega 1000 nemendur þátt í Pangeakeppninni, en þátttakendur í ár voru tæplega 5000. „Við vonum að okkur takist að brjóta 5000 þátttakendamúrinn árið 2025,“ segir Sölvi og bætir við að framtíðarmarkmiðið sé að keppnin verði árlegt tilhlökkunarefni fyrir 8. og 9. bekkinga í skólum landsins.

Pangeakeppnin hefur þannig sýnt sig sem vettvangur sem ekki aðeins styrkir tengsl ungra nemenda við stærðfræðina, heldur einnig styður við hæfileika þeirra og vekur áhuga á námi.