EFLA styður við átakið Römpum upp Reykjavík sem er ætlað að auka aðgengi hreyfihamlaðra að hinum ýmsu stöðum um miðborgina. Nýverið var haldinn blaðamannafundur þar sem framtakið var kynnt.
Stuðningur við Rampa í Reykjavík
Verkefnið felur í sér að koma upp römpum fyrir hreyfihamlaða við verslanir, þjónustu- og veitingastaði í Reykjavíkur til að aðgengi að stöðunum sé betra.
Forsprakki verkefnisins er Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, og er EFLA einn af stofnfélögum verkefnisins. Það voru fyrirtæki, félagasamtök og opinberar stofnanir sem lögðu verkefninu til fjármuni til að koma römpunum upp. Nú þegar hafa verið settir upp 100 rampar í Reykjavík, og það fjórum mánuðum á undan áætlun.
Útsjónarsemi við hönnun rampa
Sérfræðingar EFLU hafa veitt verkefninu liðsinni og aðstoðað við margvíslega sérfræðiaðstoð. Þar má nefna krefjandi hönnun ramps við Laundromat, í Austurstræti 9, þar sem taka þurfti tillit til húsfriðunar og verklegra framkvæmda sem þar eru í gangi.
Mikilvægt að tryggja öllum aðgengi
Blaðamannafundur, þar sem framtakið var kynnt, fór fram föstudaginn 5. nóvember í Ráðhúsi Reykjavíkur. Meðal þeirra sem kom tóku til máls voru Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason, félagsmála- og barnamálaráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. Öll voru þau sammála um mikilvægi þess að tryggja fólki í hjólastól aðgengi alls staðar og nefndu jafnframt að ramparnir kæmu til með að nýtast fólki með barnavagna og þeirra sem eiga erfitt um gang.
Hægt er að lesa nánar um verkefnið á vefsíðu Rampa í Reykjavík og þar geta fyrirtæki einnig sótt um fjárstyrk til að koma römpum upp við sína starfsemi.