Starfsfólk EFLU lykilaðilar í nýtingu glatvarma frá TDK

13.01.2025

Fréttir
Framkvæmdir við að leggja lagnir í jörð.

Framkvæmdir Vinna við fram- og bakrásarlagnir hitaveitukerfisins.

Í desember á síðasta ári var glatvarmi frá álþynnuverksmiðju TDK á Akureyri nýttur í fyrsta sinn inn á hitaveitukerfi Norðurorku, sem markar mikilvægt skref í aukinni orkunýtingu á svæðinu. Starfsfólk EFLU gegndi lykilhlutverki í undirbúningi og framkvæmd verkefnisins, sem felur í sér nýsköpunarlausnir í hitaveitukerfum.

Ráðgjöf EFLU

Framleiðsla á álþynnum er orkufrek og skilar miklum varma sem áður fór til spillis. EFLA vann í nánu samstarfi við Norðurorku við áhættumat og hönnun kerfis sem nýtir glatvarmann til húshitunar. Könnun EFLU leiddi í ljós að unnt væri að nýta allt að 12 MW af varmaafli með núverandi bakrásarkerfi. Lögð var til tenging við bakrásarkerfi sem skilar upphituðu vatni inn á aðveituæð Norðurorku frá Hjalteyri.

EFLA sá um hönnun og gerð útboðsgagna fyrir lagnir að og frá TDK-verksmiðjunni og aðstoðaði einnig við framkvæmdareftirlit. Auk þess vann EFLA með TDK við hönnun og tengingar varmaskipta. Vinnu við lagnir var lokið í byrjun desember og hleypt var á kerfið 13. desember.

Framkvæmdir við að leggja lagnir í jörð með þremur gröfum.

Umtalsverð aukning

Í verkefninu eru varmaskiptar notaðar til að hita bakrásarvatn Norðurorku. Varmaframleiðslan er þrepuð upp í áföngum til að tryggja hnökralausan rekstur. Þessi lausn, sem byggir á nýtingu orku sem áður fór til spillis, er mikil búbót fyrir hitaveitu Norðurorku og dæmi um hátæknilega og umhverfisvæna nýsköpun.

Hitaveita Norðurorku, sem er um 100 MW að stærð, mun aukast um 10-12 MW með þessu glatvarmaafli sem er umtalsverð aukning á afkastagetu hennar. Jafnframt undirstrikar verkefnið þörfina fyrir frekari uppbyggingu og ábyrga notkun á jarðhitaauðlindinni til framtíðar.