Skýrsla um ástand innviða

23.02.2021

Fréttir
A man in blue shirt with his arm crossed in front of a blurred background featuring a rocky stream

Reynir Sævarsson, byggingarverkfræðingur og formaður FRV, kynnti ástand fráveitna á kynningarfundi.

Fjallað er um ástand innviða á Íslandi og framtíðarhorfur í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafaverkfræðinga. EFLA lagði hönd á plóginn við gerð skýrslunnar og voru sérfræðingar EFLU höfundar kafla um fráveitur, orkuflutningsmannvirki og úrgangsmál.

Skýrsla um ástand innviða

Í skýrslunni er ástand innviða í samfélaginu metið, þ.e. ástand flugvalla, hafna, vegakerfis, fráveitna, hitaveitna, vatnsveitna, raforkuvinnslu, raforkudreifingar & raforkuflutninga og fasteigna. Uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða er umtalsverð hér á landi og er áætluð 420 milljarðar króna. Innviðirnir eru metnir út frá ástandi þeirra og fá einkunn á bilinu 1 til 5, þar sem 1 er lægsta einkunn og 5 sú hæsta. Að meðaltali fá innviðirnir sem skýrslan nær til einkunnina 3, sem er sama einkunn og þegar fyrri skýrsla innviðagreiningar kom út 2017. Ástand fráveitna og vegakerfis er metið verst og fá þessir innviðir einkunnina 2 sem þýðir að ástand þeirra er slæmt og brýn þörf á úrbótum.

Reynir Sævarsson, byggingarverkfræðingur hjá EFLU og formaður FRV, kynnti ástand fráveitna á kynningarfundi sem fór fram miðvikudaginn 17. febrúar. Þar kom m.a. fram að fráveitukerfi eru víða í slæmu ásigkomulagi vegna aldurs. Stór hluti lagnakerfa er yfir 50 ára og þarfnast viðhalds sem fyrst. Þá er ofanvatn oftast leitt óhreinsað til sjávar eða í fráveitukerfi þar sem blandast öðru fráveituvatni og að nauðsynlegt er að setja lög um hreinsun og meðhöndlun þess. Staða fráveitumála hefur þó lítillega skánað á síðustu árum en endurstofnvirði þeirra hefur aukist og uppsöfnuð viðhaldsþörf stendur í stað.

Það er von Félags ráðgjafarverkfræðinga og Samtaka iðnaðarins að skýrslan nýtist sem mikilvægt gagn í faglega umræðu um innviði íslenska hagkerfisins og forgangsröðun áætlana varðandi úrbætur og fjárfestingar.

Glærur frá erindi um ástand fráveitna 2021

Skýrsla | Innviðir á Íslandi 2021

_________________________________________________________________

EFLA er leiðandi í ráðgjöf á sviði fráveituhreinsunar , hönnunar veitukerfa og veitumannvirkja og hefur komið að fjölmörgum verkefnum tengdum fráveitumálum bæði innanlands og erlendis, t.d. á Akureyri, Mývatni, Selfossi, Höfn í Hornafirði og í Noregi.