EFLA, ásamt ASK arkitektum og Landslagi hlaut Skipulagsverðlaun Íslands, fyrir rammaskipulag Skerjafjarðar.
Skipulagsverðlaun Íslands
Skipulagsfræðingafélag Íslands veitir verðlaun annað hvert ár til aðila sem unnið hafa vel á sviði skipulagsmála og lagt sitt fram til að bæta og fegra umhverfi í þéttbýli og drefibýli. Markmið verðlaunanna er að vekja athygli á vel unnum verkefnum á sviði skipulagsmála og hvetja til umræðu því tengdu. Í ár var þema verðlaunanna tileinkað skipulagi fyrir fólk og var tekið mið af skipulagsgerð sem unnin var á faglegan máta þar sem velferð fólks var höfð í öndvegi.
Átta skipulagsverðlaun voru tilnefnd til verðlaunanna og hlutu tvö verkefni verðlaun, annars vegar skipulagsverkefni Skerjafjarðar og hins vegar frumkvöðlaverkefni um skipulagsmál, sjá nánar á vefsíðu Skipulagsfræðinga Íslands.
Rammaskipulag Skerjafjarðar
Verkefni EFLU og samstarfsaðila var gerð rammaskipulags fyrir Skerjafjörð og var unnið fyrir Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar. Rammaskipulagið var unnið í framhaldi af vinningstillögu hópsins 2017 um svæðið. EFLA hefur komið að fjölmörgum þáttum skipulagsins og mörg fagsvið félagsins komið að þeirri vinnu.
Í álit dómnefndar vegna vals á verkefninu kom m.a. fram: „Rammaskipulag Skerjafjarðar markar að nokkru leyti tímamót í gerð rammaskipulags hér á landi og eru skipulagshöfundar framsæknir í viðleitni sinni til að leggja áherslu á góða umgjörð fyrir fjölbreytilega flóru íbúa og lifandi samfélag. Rammaskipulagið er langtíma stefnumarkandi skipulagsáætlun um uppbyggingu fjölbreytilegrar og vistvænnar borgarbyggðar á þessum mikilvæga lykilstað á höfuðborgarsvæðinu. Höfundar Rammaskipulagsins nýta sér staðsetningu og sérstöðu svæðisins til hagsbóta fyrir íbúa þess í nútíð og framtíð og íbúar alls höfuðborgarsvæðisins munu fá tækifæri til að njóta þeirra gæða sem svæðið býður upp á.“
Við erum virkilega ánægð og stolt að hafa fengið þessi verðlaun og þökkum samstarfsaðilum okkar fyrir frábært samstarf.