Sendiráðsfulltrúar í heimsókn

16.09.2021

Fréttir
Four individuals posing for picture in an office setting

Mynd tekin á skrifstofu EFLU við Lysaker í Osló. Til vinstri: Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU, Eva Mjöll Júlíusdóttir, viðskiptafulltrúi, Ragnar Jónsson, framkvæmdastjóri EFLU í Noregi og Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra Íslands í Noregi.

EFLA í Noregi fékk til sín góða gesti þegar fulltrúar sendiráðs Íslands komu við á skrifstofuna í Osló. Tilgangurinn var að kynnast starfseminni og skoða möguleikana á að styrkja viðskiptatengsl milli landanna enn frekar.

Sendiráðsfulltrúar í heimsókn

Sendiráð Íslands í Noregi hefur m.a. veg og vanda að því að efla viðskiptatengsl milli landanna. Af þeim sökum komu fulltrúar sendiráðsins, Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra Íslands í Noregi, og Eva Mjöll Júlíusdóttir, viðskiptafulltrúi, í heimsókn á skrifstofu EFLU í Osló. Tilgangur heimsóknarinnar var einnig að kynnast verkefnum og starfsemi EFLU í Noregi. Farið var yfir sögu fyrirtækisins, áherslur þess til framtíðar í Noregi, sem og tengingar við móðurfélagið á Íslandi hvað varðar verkefni óháð staðsetningu. Með tilkomu öflugrar tækni, tölvukerfa og starfa án staðsetningar eru sífellt að verða minni hindranir til að vinna hvaðanæva sem er í heiminum.

Ört vaxandi starfsemi

Frá árinu 2008 hefur EFLA starfrækt skrifstofu í Noregi þar sem starfa 38 starfsmenn. Fyrirtækið hefur fest sig í sessi með ráðgjöf og hönnun tengda samfélagsinnviðum með megináherslu á orkuflutning og samgöngur. EFLA hefur komið að fjölmörgum verkefnum tengdum háspennulínum og tengivirkjum, vegum og umferð, brúarmannvirkjum, jarðgöngum og vatns- og fráveitukerfum. Nýverið hefur svo verið lagður grunnur að enn öflugra þjónustuframboði og starfsfólk á sviði verkfræðihönnunar fyrir byggingar bæst í hópinn.