Samstarfssamningur við Grænafl

23.09.2024

Fréttir
Menn handsala samning á bryggju.

EFLA skrifaði fyrir stuttu undir samstarfssamning við Grænafl á Siglufirði. Framlag starfsfólks EFLU er í formi vinnuframlags til nýsköpunar í þágu starfsemi Grænafls sem tengist orkuskiptum í minni fiskiskipum. Samningurinn gildir til ársloka 2025.

Nýsköpun fyrir rafvæðingu minni fiskiskipa

Markmið Grænafls er að minni strandveiðiskip hætti að brenna jarðefnaeldsneyti. Fyrst og fremst er hugað að rafvæðingu strandveiðiflotans, þar sem orkunýting flotans býður upp á að hann keyri á hreinu rafmagni.

Til þess að markmiðið náist þarf að gera breytingar á bátum sem þegar eru í notkun. Þá er stefnt að því að setja upp hleðslustöðvar í höfnum landsins, í samvinnu við HS Orku. Grænafl á heimahöfn á Siglufirði en þar ríkir lífleg strandveiðimenning og innviðir og tækniþekking er til staðar. Unnið er að verkefninu í samvinnu við kóreska og íslenska samstarfsaðila.

EFLA mun leggja starfseminni til vinnuframlag í samræmi við tilgang og markmið Grænafls. Fyrst um sinn verður þetta vinnuframlag stuðningur við Grænafl en síðar er ætlunin að þróa samstarfið áfram eftir þörfum. Þátttaka EFLU í verkefninu er í samræmi við stefnumótun fyrirtækisins varðandi þátttöku í nýsköpunarverkefnum, aukna sjálfbærni og stefnu um ráðgjöf í orkuskiptum.

Þess má geta að bæði EFLA og Grænafl munu taka þátt á Hafnasambandsþingi sem haldið verður á Akureyri dagana 24.-25. október.