Samningur um yfirferð séruppdrátta

06.10.2020

Fréttir
Four individuals seated at a table in a room with framed photographs on the wall behind them

Samningurinn var undirritaður þann 16. september 2020. Frá vinstri: Sigríður Sigurðardóttir og Gunnar Svavarsson frá NLSH, Ólafur Ágúst Ingason frá EFLU og Óskar Torfi Þorvaldsson frá byggingarfulltrúa Reykjavíkur.

EFLA og Nýr Landspítali við Hringbraut (NLSH) hafa skrifað undir samning vegna yfirferðar á séruppdráttum fyrir meðferðarkjarna (spítala). Teikningarnar eru á fimmta þúsund talsins enda verður NLSH ein stærsta bygging landsins.

Samningur um yfirferð séruppdrátta

Verkefnið er hluti af heildarverkefni Nýs Landspítala við Hringbraut og áætlað er að meðferðarkjarninn verði tekinn í notkun árin 2025-2026. Verkið er afar umfangsmikið en samkvæmt áætlun eru teikningarnar um 4.700 talsins. Fara þarf yfir alla séruppdrætti frá hönnuðum hússins og athuga hvort teikningarnar séu í samræmi við lög um mannvirki og byggingarreglugerð. Í því felst m.a. yfirferð teikninga vegna burðarvirkis, rafmagns-, hljóðvistar-, bruna-, lagna- og loftræsihönnunar.

NLSH bauð út verkefnið í september 2019 og buðu fimm fyrirtæki í verkið. Eftir yfirferð og mat tilboðsaðila var gengið til samninga við EFLU.

Verkefnið verður unnið í samvinnu við byggingarfulltrúann í Reykjavík og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og gert er ráð fyrir að yfirferð teikninga verði lokið í júní 2022.

Vefsíða NLSH um framkvæmdina