EFLA og Nýr Landspítali við Hringbraut (NLSH) hafa skrifað undir samning vegna yfirferðar á séruppdráttum fyrir meðferðarkjarna (spítala). Teikningarnar eru á fimmta þúsund talsins enda verður NLSH ein stærsta bygging landsins.
Samningur um yfirferð séruppdrátta
Verkefnið er hluti af heildarverkefni Nýs Landspítala við Hringbraut og áætlað er að meðferðarkjarninn verði tekinn í notkun árin 2025-2026. Verkið er afar umfangsmikið en samkvæmt áætlun eru teikningarnar um 4.700 talsins. Fara þarf yfir alla séruppdrætti frá hönnuðum hússins og athuga hvort teikningarnar séu í samræmi við lög um mannvirki og byggingarreglugerð. Í því felst m.a. yfirferð teikninga vegna burðarvirkis, rafmagns-, hljóðvistar-, bruna-, lagna- og loftræsihönnunar.
NLSH bauð út verkefnið í september 2019 og buðu fimm fyrirtæki í verkið. Eftir yfirferð og mat tilboðsaðila var gengið til samninga við EFLU.
Verkefnið verður unnið í samvinnu við byggingarfulltrúann í Reykjavík og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og gert er ráð fyrir að yfirferð teikninga verði lokið í júní 2022.