EFLA ásamt Arkþing – Nordic munu í sameiningu vinna að gerð rammahluta aðalskipulags fyrir þróunarsvæði A ásamt Hafnarfjarðarvegi milli bæjarmarka Garðabæjar, en samningur þess efnis var undirritaður fyrir stuttu.
Samningur um skipulagsráðgjöf í Garðabæ
Í nóvember síðastliðnum óskaði Garðabær eftir ráðgjöfum sem skipuðu þverfaglegt teymi skipulagsráðgjafa, artkitekta, landslagsarkitekta og verkfræðinga til að vinna að gerð rammahluta aðalskipulagsins sem um ræðir. Gerð var krafa um víðtæka reynslu af skipulagsgerð, samráði við íbúa og hagsmunaaðila, góða þekkingu á samgöngulausnum og umhverfismati.
Alls bárust fimm umsóknir í forvalinu og lagði matshópur til að gengið yrði að samningum við EFLU og Arkþing - Nordic. Markmiðið með verkefninu er að móta stefnu um uppbyggingu á svæðinu með áherslu á gæði byggðar, umhverfi, samgöngur, samráð við íbúa og samvinnu við hagsmunaaðila.
Svæðið er skilgreint í Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 sem þróunarsvæði sem er í tengslum við miðbæ Garðabæjar og áformaða Borgarlínu á Hafnarfjarðarvegi. Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins er svæðið, ásamt miðbæ Garðabæjar, skilgreint sem bæjarkjarni og samgöngumiðað þróunarsvæði en gert er ráð fyrir einni af meginstöðvum Borgarlínunnar á svæðinu.
Meðfylgjandi mynd er frá undirritun samningsins. Þetta eru f.h. Sigurður Guðmundsson, bæjarfulltrúi Garðabæjar, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Helga Jóhanna Bjarnadóttir frá EFLU og Hallgrímur Þór Sigurðsson frá Arkþing – Nordic.