Samningur um hönnun viðbyggingar við endurhæfingardeild

25.08.2022

A group of five people seated at a long outdoor table, appearing to be engaged in a formal signing event

Frá undirritun samningsins.

Þriðjudaginn 23. ágúst var undirritaður samningur milli EFLU, Nýs Landspítala ohf. og Nordic Office of Architecture um fullnaðarhönnun 3.800 fermetra viðbyggingar við endurhæfingardeild Grensáss. Gert er ráð fyrir að hönnunarferlið taki um það bil eitt ár og að því loknu verði unnt að hefja verklegar framkvæmdir.

Samningur um hönnun viðbyggingar við endurhæfingardeild Grensáss

EFLA og Nordic Office of Architecture urðu hlutskörpust í útboði vegna fullnaðarhönnunar þar sem byggt var á matslíkani og verði. Nýbyggingin mun rísa vestan við núverandi aðalbyggingu endurhæfingardeildarinnar. Með henni munu aðstæður til endurhæfingar gjörbreytast og endurhæfingarrýmum fjölga.

Starfsfólk EFLU mun sjá um alla verkfræðihönnun ásamt verkefnastjórn, hönnunarstjórn, sjálfbærnimálum og BIM samræmingu. Vinna við þetta verkefni hefst núna í ágúst og er áætlað að hönnunarvinnu verði lokið eftir ár.

Ólafur Ágúst Ingason undirritaði samninginn fyrir hönd EFLU, Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, fyrir hönd Nýs Landspítala ohf. og Hallgrímur Þór Sigurðsson fyrir hönd Nordic Office of Architecture. Vottar að undirskrift voru Guðrún Pétursdóttir, formaður stjórnar Hollvina Grensáss, og Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala.

Four men smiling and posing together outdoor

F.v. Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, Ólafur Ágúst Ingason, EFLU, Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Hallgrímur Þór Sigurðsson, Nordic Office of Architecture og Guðrún Pétursdóttir, formaður stjórnar Hollvina Grensáss.