Haustúthlutun Samfélagssjóðs EFLU fór fram í dag og í þetta skipti fengu sex verkefni styrk úr sjóðnum. Fulltrúar þessara verkefna tóku við styrknum á viðburði í dag, annars vegar í höfuðstöðvum EFLU, að Lynghálsi 4 í Reykjavík, og hins vegar á svæðisstöð fyrirtækisins á Akureyri.
Fjölbreytt verkefni
Samfélagssjóður EFLU hefur styrkt verkefni síðan árið 2013 og er úthlutað úr sjóðnum tvisvar á ári, að vori og hausti. Markmið sjóðsins er að styðja við framtak einstaklinga og hópa sem stuðla að farsælli þróun samfélagsins, auknum lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi. Umsóknir eru metnar út frá markmiðum sjóðsins, markmiðum EFLU og áherslum valnefndar. Næsta úthlutun verður vorið 2025.
Verkefnin sem fengu styrk að þessu sinni eru Get together, Skautafélag Akureyrar, RU Racing, Pangea stærðfræðikeppni, Fagrir tónar í Firðinum og Fjölskylduhjálp Íslands.
Get together
„Get together“ er verkefni þar sem viðburðir eru haldnir vikulega á bókasöfnum Hafnarfjarðar og Kópavogs fyrir flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun, efla virkni og skapa jákvæðar upplifanir fyrir börn og fullorðna. Á opnum húsum fá þátttakendur að njóta veitinga, taka þátt í handverki, föndri og öðrum þroskandi viðburðum. Börn flóttafólks, sem oft búa við einangrun og takmörkuð tækifæri til þroska vegna langs biðtíma, fá þar örvun og leikfélaga. Að meðaltali mæta 30 manns vikulega, þar af helmingur börn undir sex ára aldri. Styrkur til verkefnisins verður nýttur til að fjármagna efni, veitingar og leikföng og stuðlar verkefnið að sterkari tengslum flóttafólks við íslenskt samfélag.
Fjölskylduhjálp Íslands
Fjölskylduhjálp Íslands kaupir matvæli fyrir skjólstæðinga sína fyrir jól. Samtökin, sem voru stofnuð árið 2003 og urðu 21 árs í september, hafa að markmiði að styðja þá sem minna mega sín. Í hverjum mánuði fá um 2.500 fjölskyldur aðstoð frá F.Í. en síðastliðið ár úthlutuðu samtökin 29.000 matargjöfum. Skjólstæðingar eru meðal annars öryrkjar, einstæðir foreldrar, eldri borgarar og heimilislaust fólk. Úthlutun fer fram vikulega í Iðufelli og Reykjanesbæ. Markmið FÍ. er að hjálpa sem flestum að njóta hátíðanna.
Skautafélag Akureyrar
Skautafélag Akureyrar ætlar að kaupa fleiri skauta til láns fyrir byrjendur í listskautum. Félagið lánar byrjendum skauta í upphafi iðkunar til að draga úr kostnaði fyrir fjölskyldur, sérstaklega þær sem standa fjárhagslega verr. Vegna aukinnar þátttöku hefur núverandi búnaður ekki dugað til að mæta eftirspurn. Markmið verkefnisins er að gera öllum börnum kleift að stunda íþróttina á jafnræðisgrundvelli og gefa þeim tækifæri til að prófa listskauta áður en þau skuldbinda sig. Verkefnið mun gagnast börnum sem koma á námskeið eða hefja æfingar hjá listskautadeild félagsins um ókomin ár.
RU Racing
RU Racing er kappaksturslið Háskólans í Reykjavík sem tekur þátt í Formula Student, verk- og viðskiptafræðikeppni á milli evrópskra tækniháskóla. Nemendur sjá um að hanna og smíða formúlubíl frá grunni og keppa í greinum eins og verkfræðilegri hönnun, viðskiptamódeli, kostnaðargreiningu og framleiðslu. Verkefnið sameinar nemendur frá ólíkum sviðum sem nýta þekkingu sína til að leysa flóknar áskoranir. Styrkurinn nýtist til að fjármagna smíði nýs bíls, kaupa íhluti, grindarefni, dekk og öryggisbúnað. Með þátttöku RU Racing í keppnum eykst samstarf við íslensk fyrirtæki og nemendur öðlast verðmæta reynslu.
Pangea
Pangea, stærðfræðikeppni fyrir nemendur í 8. og 9. bekk, hefur það að markmiði að efla áhuga nemenda á stærðfræði og veita öllum jafnt aðgengi að keppni, óháð kyni, búsetu eða uppruna. Með fjölbreyttum verkefnum, mismunandi erfiðleikastigum og háu hlutfalli nemenda sem komast áfram í aðrar umferðir, byggir Pangea sjálfstraust nemenda sem annars gætu talið stærðfræði óyfirstíganlega. Markmið Pangea er að vekja áhuga á stærðfræði, styðja efnilega nemendur og tryggja jöfn tækifæri fyrir öll börn á Íslandi til að glíma við stærðfræði á sínum forsendum. Verkefnið hefur vaxið jafnt og þétt síðan 2016 og síðasta vor tóku um 4800 nemendur úr 59 skólum þátt í keppninni. Það stuðlar að betri stærðfræðikunnáttu sem er mikilvæg fyrir aukið tæknilæsi og framfarir samfélagsins.
Fagrir tónar í Firðinum
Verkefnið Fagrir tónar í Firðinum býður upp á tónleika fyrir eldri borgara í Hafnarfjarðarbæ, þar sem píanó- og flautuleikarar flytja efnisskrá sem samsett er úr klassískum perlum og íslenskum þjóðlögum. Markmið verkefnisins er að bæta vellíðan eldri borgara, með því að bjóða þeim upp á tónlistarflutning. Sýnt hefur verið fram á að það að upplifa tónlist auki vellíðan, minnki þunglyndi og kvíða, og auki félagslega tengingu, sérstaklega hjá þeim sem upplifa einmanaleika. Rannsóknir sýna að tónlist getur einnig haft jákvæð áhrif á andlega og líkamlega vellíðan aldraðra, sem gerir þessa tónleikaseríu mikilvæga í því samhengi.
Opnað verður fyrir umsóknir fyrir vorúthlutun Samfélagssjóðs EFLU árið 2025 í janúar. Úthlutunin verður 15. apríl 2025.