Samfélagssjóður EFLU hefur veitt fjárstyrki til fimm samfélagsverkefna. Markmið sjóðsins er að styðja við framtak einstaklinga og hópa sem stuðla að farsælli þróun samfélagsins, auknum lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi.
Samfélagssjóður EFLU hefur verið starfræktur frá 2013 og er úthlutað úr sjóðnum tvisvar á ári. Umsóknir eru metnar út frá markmiðum sjóðsins, markmiðum EFLU og áherslum valnefndar, en alls bárust 47 umsóknir.
Umsóknarfrestur fyrir haustúthlutun sjóðsins er 15. október.
Eftirfarandi verkefni hlutu styrk
Hjálparstarf kirkjunnar
Virkniverkefnið Taupokar með tilgang sem ætlað er konum úr hópi innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda. Konurnar endurvinna efni sem almenningur hefur gefið með því að sauma taupoka, dúka, grænmetispoka og fleira.
Ljósmyndasýningin Grímsey
Tveir ljósmyndarar, Þórdís Erla Ágústsdóttir og Sigríður Rut Marrow vinna myndræna og ritaða heimild um lífið í Grímsey. Þær hyggjast lýsa og vekja athygli á því merkilega mannlífi sem enn er til staðar á eyjunni.
Ástráður – Kynfræðslufélag Læknanema
Styrkurinn mun nýtast sem ferðastyrkur, endurnýjun á kynfræðslubúnaði og fatnaði ásamt greiðslu fyrir kennslu sérfræðinga sem undirbúningur fyrir umræðu við framhaldsskólanema um erfið málefni.
Rafíþróttasamtök Íslands
Fjármögnun búnaðar sem nýtist öllum rafíþróttaiðkendum landsins sem og styrkur til að skapa forsendur fyrir rafíþróttaiðkendur á landsvísu til að keppa saman í rými sem eykur félagslega hluta íþróttarinnar.
Tæknifræði við Háskólann á Akureyri
Tilgangurinn er að styðja við uppbyggingu náms í tæknifræði við Háskólann á Akureyri. Jafnframt er unnið að því að finna varanlega lausn með samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Við óskum styrkhöfum hjartanlega til hamingju með styrkinn við verkefni sín. Jafnframt þökkum við öllum sem sendu umsókn um styrk í samfélagssjóð EFLU og óskum þeim góðs gengis í framtíðinni.