Samfélagsábyrgð og nýsköpun

06.01.2025

Fréttir
Maður og kona handsala samning á brú inni í almenningsgarði.

Drift Reynir Sævarsson, stjórnarformaður EFLU, og Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastýra Driftar EA.

EFLA hefur á árinu 2024 lagt ríka áherslu á samfélagsábyrgð og nýsköpun, með þátttöku í verkefnum sem stuðla að sjálfbærni og eflingu frumkvöðlastarfs á Íslandi. Verkefni fyrirtækisins spanna breitt svið, allt frá styrkveitingum til samfélagsverkefna og stuðnings við nýsköpun í bláa hagkerfinu og orkuskiptum.

Sjávarklasinn og samfélagssjóður

EFLA og Íslenski sjávarklasinn hófu í ár samstarf sem miðar að aukinni verðmætasköpun í bláa hagkerfinu. Verkefnið Verbúðin snýst um að styrkja tengsl frumkvöðlafyrirtækja og rótgróinna fyrirtækja í sjávarútvegi og stuðla að nýtingu hráefna sem áður voru talin úrgangur. Verkefnið hefur það að markmiði að leita nýrra lausna fyrir sjávarútveginn og efla rannsóknarstarf með aðkomu háskólasamfélagsins.

Á árinu veitti Samfélagssjóður EFLU styrki til 13 samfélagsverkefna. Úthlutunin fór fram í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík og á svæðisstöð EFLU á Akureyri. Með styrkveitingunum vill EFLA styðja fjölbreytt samfélagsverkefni sem hafa jákvæð áhrif á samfélagið.

Hópur fólks á uppstilltri mynd.

Frumkvöðlastarf og Grænafl

EFLA á Akureyri hóf í sumar þátttöku í Drift EA, samstarfsverkefni sem styður frumkvöðla í Eyjafirði. Verkefnið miðar að því að byggja upp öfluga frumkvöðlastarfsemi með aðsetur í gamla Landsbankahúsinu við Ráðhústorg. Drift EA er sjálfseignarstofnun sem hjálpar frumkvöðlum að þróa hugmyndir sínar og koma þeim í framkvæmd.

EFLA hefur einnig skrifað undir samstarfssamning við Grænafl á Siglufirði. Markmið verkefnisins er að stuðla að orkuskiptum í minni strandveiðibátum með því að innleiða rafvæðingu og þróa innviði fyrir hleðslustöðvar í höfnum landsins. Þátttaka EFLU í þessu verkefni, sem unnið er í samvinnu við kóreska og íslenska samstarfsaðila, styður stefnu fyrirtækisins um sjálfbærni og þróun nýrrar tækni.

Menn handsala samning á bryggju.