EFLA hefur lokið við hönnun, smíði og uppsetningu á endurbættu róbótakerfi fyrir MS á Selfossi. Hlutverk róbótans er m.a. að sækja og stafla kössum á vörubretti.
Róbóti sem léttir verkin
Mjólkursamsalan, MS Selfossi, sinnir margvíslegum verkefnum á sviði mjólkurframleiðslu, pökkun og flutningastarfsemi en þar starfa um 110 starfsmenn. Hjá MS sinnir róbóti starfi innan framleiðslunnar sem reynir líkamlega á starfsfólk. Þannig tekur róbótinn vörubretti úr stafla og leggur á réttan stað á færibönd fyrir vörubretti. Að svo búnu tekur hann kassa með drykkjarfernum af færibandi og hleður á brettið þar til það er orðið fullt. Færibandið kemur svo vörubretti á stað þar sem að lyftari sækir brettið. Til marks um afköst róbótans má nefna að áður þurftu að jafnaði fimm starfsmenn að stafla kössum á brettin.
Fyrri fjárfestingar nýttar
Við hönnun þessa áhugaverða verkefnis var áhersla lögð á að nýta þau tæki og þær fjárfestingar sem fyrir voru í rýminu, t.d. róbótann, rúllubönd og hluta af stýrikerfum. Róbótinn er því er fær um að vinna með þeim vélum og tölvum sem fyrir voru í pökkunarlínunni. Hann nýtir tölvusjón til að fylgjast með eigin vinnu og annast fyrir vikið verkefnið af þeirri nákvæmni sem þörf krefur.
Öryggið í fyrirrúmi
Í kringum róbótann eru skynjarar og öryggisbúnaður sem tryggja að fyllstu varúðar sé gætt í umgengni starfsfólks við tækið. Þessi öryggisbúnaður er afrakstur áhættugreiningar og uppfyllir þær alþjóðlegu kröfur sem gerðar eru til iðnvéla af þessari gerð. Búnaðurinn tryggir að enginn getur komist að tækinu á meðan það vinnur. Ef öryggiskerfið er rofið stöðvast róbótinn samstundis sem tryggir öryggi starfsfólks.
Þrívíddartæknin flýtir hönnunarferli
EFLA leggur áherslu á að veita framleiðslufyrirtækjum heildarlausnir þegar kemur að hönnun, útfærslu og uppsetningu á hátæknibúnaði. Kappkostað er að notendaviðmót alls hugbúnaðar sé eins einfalt og öruggt og kostur er. EFLA hefur nýlega bætt þrívíddarhermi – Emulated 3D – við þjónustuframboð sitt. Með herminum er því enn fljótlegra að kynna grunnhugmyndir á myndrænan hátt um útlit og virkni þeirra hugmynda sem upp úr samtölum við viðskiptavini spretta, áður en hafist er handa við hönnun og framleiðslu. Þrívíddarlíkanið flýtir hönnunarferlinu og er meðal annars til þess fallið að fyrirbyggja vandamál sem annars gætu komið fram á síðari stigum verkefnisins.