Rammasamningur við Carbfix

08.02.2022

Fréttir
A modern black building with glass windows

Höfuðstöðvar EFLU eru að Lynghálsi 4.

Fyrir stuttu undirrituðu fulltrúar EFLU rammasamning við fyrirtækið Carbfix, sem er hluti af Orkuveitu Reykjavíkur. Samkvæmt samningnum mun EFLA sjá um ráðgjafarþjónustu, hönnun og framkvæmdaeftirlit fyrir Carbfix.

Rammasamningur við Carbfix

Um er að ræða þverfagleg verkefni sem hafa snertingu við flest svið EFLU en fyrirtækið er leiðandi í ráðgjöf er kemur að umhverfis- og loftslagsmálum. „Það er gríðarlega spennandi fyrir okkur að takast á við þessi verkefni á komandi misserum,“ segir Skúli Björn Jónsson, sviðsstjóri á iðnaðarsviði EFLU.

Einnig hafi verið sérstaklega ánægjulegt hversu hátt hæfnismat EFLA fékk miðað við þær miklu kröfur sem Carbfix gerði til umsækjenda og starfsfólks þeirra. „Fjölbreytt og sérhæfð þekking starfsfólks EFLU gerir okkur kleift að takast á við þessi verkefni, ekki síst við hönnun á lausnum þegar kemur að kolefnisförgun og niðurdælingu,“ bætir Skúli við.

Carbfix vinnur að því að binda koldíoxíð í berg með því að leysa það upp í vatni og dæla niður í berglög. Þar breytist það í steindir á innan við tveimur árum. Aðferðin hefur verið sannreynd sem hagkvæm og umhverfisvæn leið til að binda koldíoxíð varanlega og draga þannig úr neikvæðum loftslagsáhrifum.

Heildartími samningsins er eitt ár, en heimilt er að framlengja samninginn. Áætlað er að vinna við verkefnið hefjist á þessu ári.

Headshot of a man
The picture shows rocks with various sized holes

Carbfix vinnur að því að binda koldíoxíð í berg með því að leysa það upp í vatni og dæla niður í berglög. Þar breytist það í steindir á innan við tveimur árum. | Mynd: www.carbfix.com