Olíunotkun sveitarfélaga

09.01.2025

Fréttir
Olíutankar við hafið.

EFLA og Eimur hafa gefið út skýrslu þar sem tekin er saman olíunotkun sveitarfélaga fyrir tímabilið 2010 - 2020. Eimur vinnur að því að bæta nýtingu auðlinda á Norðurlandi eystra og skýrslan er hluti af RECET verkefninu sem hefur það að markmiði að efla getu sveitarfélaga til þess að takast á við orkuskipti.

Olíunotkun eftir landshlutum eða sveitarfélögum hefur ekki verið greind opinberlega áður. Ein helsta niðurstaða greiningarinnar er sú að olíunotkun er ólík innan landshluta, eins og sést á mynd 1. Ennfremur er notkunarmynstur innan landshluta mismunandi eftir stöðum sem gerir það að verkum að það er ekki hægt að draga einfaldar ályktanir um olíunotkun einungis út frá íbúafjölda eða öðrum álíka lýðfræðilegum þáttum.

Mynd 1 Olíusala vegna samgangna á landi innan landshluta á Íslandi. Höfuðborgarsvæðið er undanskilið, sem og sala til flugvéla.

Mynd 2 Olíusala vegna skipa og báta innan landshluta á Íslandi. Höfuðborgarsvæðið er undanskilið, sem og sala til flugvéla.

Mynd 3 Olíusala vegna annarrar notkunar landshluta á Íslandi. Höfuðborgarsvæðið er undanskilið, sem og sala til flugvéla.

Mynd 4 Heildarolíusala landshluta á Íslandi. Höfuðborgarsvæðið er undanskilið, sem og sala til flugvéla.

Á myndum 1-4 sést að með auknum ferðamannastraumi á árunum eftir hrun jókst olíunotkun í samgöngum á landi í flestum landshlutum, en mismikið. Á Suðurlandi jókst notkunin um 50% frá því að hún var lægst og þar til hún náði hámarki 2018. Til samanburðar var aukningin einungis um 25% á Norðurlandi eystra, og enn lægri á Norðurlandi vestra, Vestfjörðum og Austfjörðum.

Á myndum 1-4 sést jafnframt olíunotkun skipa og báta, sem og önnur notkun og heildarnotkunin. Á tímabilinu dró úr heildarnotkun skipa og báta, sem er í takt við það sem gerist á landsvísu. En landshlutarnir eru með afar mismikla notkun. Undir aðra notkun fellur allt annað, s.s. iðnaður og orkuvinnsla.

Því hefur löngum verið haldið fram að olíunotkun sé hlutfallslega meiri í dreifbýli en í þéttbýli, einfaldlega vegna þess að í dreifbýli þurfi fólk að aka meira en fólk sem býr í þéttbýli. Þessu hefur almennt verið haldið fram án gagna eða mælinga sem styðja þessa staðhæfingu. En á mynd 5 sést olíunotkun í samgöngum á íbúa eftir landshlutum. Hér sést greinilega að olíunotkunin er minnst á höfuðborgarsvæðinu, og að notkunin er að minnsta kosti 25% meiri annars staðar, að Suðurnesjunum undanskildum.

Mynd 5 (a) Olíunotkun í flokknum samgöngur á landi á íbúa eftir landshlutum. (b) Olíunotkun í flokknum samgöngur á landi á íbúa eftir landshlutum, miðað við höfuðborgarsvæðið.

Mynd 6 sýnir þá hvernig olíusala í flokknum samgöngur á landi skiptist eftir sveitarfélögum. Þar má einnig sjá að landsbyggðin notar meira en þéttbýlin í kringum höfuðborgina. Áhugavert er að skoða að salan er fremur mikil í dreifbyggðum sveitarfélögum á Vesturlandi og Suðurlandi og má telja líklegt að þar sjáist áhrif ferðaþjónustu.

Kort af Íslandi.

Mynd 6 Olíusala í flokknum samgöngur á landi eftir sveitarfélögum.

Gagnasöfnun og birting gagna um olíunotkun eftir landsvæðum er besti mælikvarðinn á gang orkuskipta í byggðum landsins. Gögn um olíunotkun eftir landssvæðum má nota til að meta framtíðarorkuþörf bíla- og bátaflota eftir svæðum og nýtast þannig til að gera staðbundnar áætlanir um þá orkuþörf sem þarf til að mæta hreinorkuvæðingu bíla, tækja, báta og jafnvel skipa. Uppsprettugreining á olíunotkun er ennfremur leiðbeinandi um það hvar þörfin á hvötum til orkuskipta er mest.

Verkefnið var unnið af Ágústu Loftsdóttur, eðlisfræðingi, og Sindra Degi Sindrasyni, BSc í vélaverkfræði í samvinnu með starfsfólki Eims. Ágústa situr jafnframt í ráðgjafaráði RECET verkefnisins og hafði yfirumsjón með verkinu fyrir hönd EFLU.