Hafnar eru framkvæmdir vegna byggingar á 20.000 fermetra viðbyggingar við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. EFLA tekur þátt í hönnunarstjórn og sinnir margvíslegri verkfræðiráðgjöf vegna viðbyggingarinnar.
Ný viðbygging á Keflavíkurflugvelli
Áætlað er að byggingin verði tilbúin til notkunar árið 2024 og er áætlaður heildarkostnaður framkvæmda 20,8 milljarða króna. Stækkunin kemur til með að styrkja alþjóðlega samkeppnishæfni flugvallarins, bæta smásölusvæði og meðhöndlun farangurs. Afkastageta flugvallarins mun aukast til muna og er verkefnið mikilvægur áfangi í þróunaráætlun flugvallarins og liður í því að efla þjónustu við viðskiptavini. Verkefnið er einnig kærkomin innspýting fjármuna í íslenskt efnahagslíf og ekki síst á Suðurnesjum.
Farsælt samstarf til margra ára
EFLA hefur unnið töluvert með Isavia í gegnum tíðina og veitt margvíslega umhverfis- og öryggisráðgjöf ásamt hönnun tengt viðhaldskerfum og stýringum. Við óskum Isavia til hamingju með áfangann og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.