Námskeið um kolefnisspor bygginga verður haldið í Endurmenntun Háskóla Íslands þriðjudaginn 4. mars og fimmtudaginn 6. mars. Kennarar á námskeiðinu eru Ása Rut Benediktsdóttir og Alexandra Kjeld, sérfræðingar í umhverfismálum og vottunum hjá EFLU.
Áratuga reynsla
EFLA hefur gegnt ráðgefandi hlutverki í sjálfbærnimálum til opinberra aðila og fyrirtækja í áratugi og hefur þar að auki verið virkur þátttakandi í nýsköpun og rannsóknum, bæði á Íslandi og milli landa. „Við höfum verið í fararbroddi í vistferilsgreiningum og kolefnissporsútreikningum á Íslandi í meira en 20 ár og höfum unnið að á annað hundrað greininga á sviði bygginga og samgöngumannvirkja, úrgangsmálum, orkuvinnslu, þjónustu og iðnaði,” segir Alexandra Kjeld.
Alexandra og Ása Rut hafa áralanga reynslu af vistferilsgreiningum í byggingar-, samgöngu- og orkugeiranum og greiningum og notkun mismunandi hugbúnaðar við mat á kolefnisspori bygginga. „Útreikningar á kolefnisspori bygginga verður orðin að skyldu samkvæmt byggingarreglugerð þann 1. september næstkomandi og er því mikilvægt að byggingaraðilar og hönnuðir búi sig undir þessar breytingar áður en sótt verður um byggingarleyfi næstkomandi haust,” bætir Alexandra við.
Breytt byggingarreglugerð
Námskeiðið er hannað fyrir þá sem vilja afla sér þekkingar og hæfni til að meta kolefnisspor bygginga í samræmi við breytta byggingarreglugerð sem tekur gildi 1. september 2025. Nýju reglurnar gera þá kröfu að kolefnisspor bygginga sé metið fyrir bæði byggingarleyfi og lokaúttekt. Þriðjungur losunar gróðurhúsalofttegunda í heiminum er rakinn til byggingargeirans sem undirstrikar mikilvægi þekkingar á þessum málum fyrir framtíðarþróun greinarinnar.
Á námskeiðinu munu þátttakendur fá innsýn í vistferilsgreiningu (LCA, Life Cycle Assessment), sem er lykilaðferð við mat á kolefnisspori bygginga. Farið verður yfir aðferðafræði vistferilsgreininga, hvaða gögn þurfa að liggja fyrir, hvaða hugbúnað er helst notast við og leiðir til að draga úr kolefnisspori mannvirkja með upplýstu vali á efnum og hættum. Þá verður sjónum beint að vægi mismunandi byggingarhluta og efna í heildaráhrifum bygginga.
Námskeiðið hentar öllum
Námskeiðið er hagnýtt og byggir á raunverulegum dæmum. Þátttakendur fá tækifæri til að vinna þær aðgerðir sem þeir þurfa að kunna skil á til að setja upp einfalda vistferilsgreiningu fyrir byggingu undir leiðsögn reyndra sérfræðinga. Námskeiðið hentar öllum sem starfa í byggingariðnaði, svo sem arkitektum, verktökum, ráðgjöfum, verkfræðingum og öðrum sem koma að hönnun og byggingu mannvirkja.
Engar forkröfur eru gerðar fyrir námskeiðið, en þátttakendum er ráðlagt að kynna sér nýjar reglur um vistferilsgreiningu á heimasíðu HMS (hms.is/lifsferilsgreining). Einnig er mælt með að þátttakendur komi með eigin fartölvu og geri ráð fyrir að taka niður punkta.
Námskeiðið er kjörið fyrir þá sem vilja auka þekkingu sína og þróa hagnýta færni í vistferilsgreiningum og kolefnissporsútreikningum, á sama tíma og þeir undirbúa sig fyrir breyttar kröfur í byggingargeiranum.
Nánari upplýsingar og skráning er á vef Endurmenntunar Háskóla Íslands.