Málþing EFLU um orkuskipti í höfnum

30.11.2023

Fréttir
Few individuals watching a big screen which appears to be a video conference call with multiple participant

Í tilefni af 50 ára afmæli EFLU á árinu buðum við hagaðilum á málþing um orkuskipti í höfnum síðastliðinn þriðjudag 28. nóvember. Málþingið, sem bar titilinn Siglum í átt að grænni framtíð, fór fram í höfuðstöðvum EFLU að Lynghálsi 4 en var jafnframt streymt á starfsstöðvar okkar á Akureyri, Ísafirði og Reyðarfirði

Málþing EFLU um orkuskipti í höfnum

Skúli B. Jónsson sviðsstjóri Iðnaðarsviðs EFLU opnaði málþingið og í kjölfarið voru haldin þrjú erindi af sérfræðingum EFLU. Majid Eskafi hafnarverkfræðingur fjallaði um mikilvægi hafna við að ná loftlagsmarkmiðum, Jón Heiðar Ríkharðsson vélarverkfræðingur ræddi hlutverk hafna og hafnarsvæða sem orkuinnviði og hvernig það hlutverk kemur til með að breytast með orkuskiptum og að lokum tók Atli Már Ágústsson rafmagnstæknifræðingur til máls og skoðaði framtíðaráskoranir í rafvæðingu íslenskra hafna. Þá tóku við áhugaverðar umræður þátttakenda á málþinginu og starfsfólks EFLU.

EFLA tekur virkan þátt í samfélagslega mikilvægum verkefnum og eru orkuskipti í höfnum eitt af þeim verkefnum.

Framundan eru miklar breytingar í átt að hreinorkuvæðingu hafna og unnið er að því að setja fram spennandi lausnir til að auðvelda núverandi starfsemi að takast á við slíkar breytingar.

Við leggjum áherslu á að styðja þessa þróun með faglegri ráðgjöf,nýsköpun og stafrænum lausnum þar sem sjálfbærni er að sjálfsögðu grunnstoðin.

Hafnir skipta höfuðmáli þegar kemur að alþjóðlegum flutningakerfum og rafvæðing hafna myndi draga úr kolefnislosun, bæta hafnarumhverfi til muna og spilar stóran þátt í að Ísland nái kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

Með málþinginu vildum við kynna okkar sýn og eiga gott samtal um þetta stóra framtíðarverkefni.

Meðfylgjandi eru myndir frá málþinginu.

Við þökkum þeim sem tóku þátt innilega fyrir komuna.