Hlutdeildarfélag EFLU, Aero Design Global, hefur hlotið „Design Organization Approval “(DOA) leyfisveitingu frá Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA). Með þessari viðbót við núverandi leyfisveitingar eykst þjónustuframboð fyrirtækisins til muna.
Leyfisveiting eykur þjónustuframboð
Með DOA leyfisveitingunni er Aero Design Global (ADG) þar með orðið fyrsta íslenska fyrirtækið, sem ekki er í eigu flugrekanda, til að geta boðið upp á þjónustu frá a-ö varðandi viðhaldsstýringu, tækni og verkfræðiráðgjöf fyrir flugvélaeigendur og flugrekendur. ADG, sem var stofnað 2016, veitir þjónustu samkvæmt samþykktum verkferlum, ströngum stöðlum og reglugerðum EASA ásamt því að lúta eftirlitsskyldu Samgöngustofu Íslands.
Viðhaldsstjórnun með CAMO leyfi
Fyrsta leyfisveitingin sem ADG hlaut árið 2017 var „Continuing Airworthiness Management Organization leyfi “(CAMO) frá Samgöngustofu sem veitir heimild til að bjóða upp á þjónustu sem tengist viðhaldsstýringu flugvéla. Í því felst m.a. að útfæra kröfur um skoðun og viðhald ásamt því að skilgreina hvers konar vottana er krafist í einstökum verkum. Ráðgjöfin nær til fyrirtækja sem eru með flugvélar í rekstri og einnig til þeirra sem þurfa að leggja flugvél í styttri eða lengri tíma, t.d vegna gjaldþrots flugfélags eða ef verið er að skila vélum eftir að leigutíma lýkur.
Staðfesting á lofthæfi flugvéla
ADG hefur einnig leyfi frá Samgöngustofu til að gefa út svokölluð Lofthæfitilmæli, „Airworthiness Review Recommendations “(AR), til flugmálastjórna allra 32 landa innan EASA vegna útgáfu á lofthæfistaðfestingarvottorði - „Airworthiness Review Certificate“(ARC) fyrir flugvélar. Allar flugvélar innan EASA landa (28 lönd innan ESB og 4 lönd innan EFTA) verða að hafa gilt ARC skírteini sem þarf að endurnýja að jafnaði á þriggja ára fresti.
Jafnframt verða allar flugvélar sem hafa verið í flugrekstri utan aðildarríkja EASA og er fyrirhugað að taka í notkun innan þeirra, að fá ARC útgefið af flugmálastjórn viðkomandi aðildarríkis. Sú vinna felur í sér vottun um að viðkomandi flugvél sé lofthæf og uppfylli allar þær kröfur sem gerðar eru til flugrekanda innan EASA aðildaríkjanna. Þessi réttindi hefur ADG sem hluta af sínu CAMO leyfi.
Stórskoðanir við eigandaskipti
Meðal verkefna ADG eru stórskoðanir sem þarf að framkvæma þegar flugrekandi skilar flugvél til eiganda í lok leigutíma. Í þeim tilfellum kemur ADG inn fyrir hönd flugvélaeiganda eða flugrekanda og fer yfir öll lofthæfigögn frá fyrrum flugrekanda og gerir viðeigandi athugasemdir svo að vélin geti farið aftur í flugrekstur á sem fljótlegastan og hagkvæmastan hátt.
Þegar stórskoðanir eru framkvæmdar veitir ADG ráðgjöf um hvernig megi endurmerkja og mála skrokk flugvéla, svokallað „Livery Change “, samkvæmt kröfum EASA og flugvélaframleiðanda.
Breytingar á farþegarými
Flugfélög sem eru með margar flugvélar í flotanum vilja oftast aðlaga skipulag farþegarýmis, svokölluðu „Layout of Passenger Accommodations“ (LOPA), til samræmis við aðrar flugvélar sínar. Slíkt er gert til að vissar tegundir sæta og sætafjöldi auðveldi vinnuferli áhafna við þjónustu farþega og til að hafa neyðaráætlanir samræmdar. Samhliða breytingum á skipulagi farþegarýmis er jafnframt mikil áhersla lögð á að samræma staðsetningu á neyðarbúnaði svokölluðum „Emergency Equipment Layout“ (EEL). Það felur í sér að útfæra staðsetningu á neyðarbúnaði í farþegarými s.s. súrefnisflöskur, slökkvitæki, hjartastuðtæki og fleira.
Flókið ferli tengt gjaldþroti flugfélaga
Í samtali við Ægir Thorberg Jónsson, framkvæmdastjóra Aero Design Global, þá hefur rekstur fyrirtækisins gengið vel frá stofnun þess fyrir fjórum árum. Meðal annarra verkefna sem ADG hefur unnið að er svokallað „Asset Recovery“ en slík vinna fer fram þegar flugfélög fara í þrot og koma þarf flugvélunum í hendur á eigendum sínum. „Þannig höfum við verið fengnir til að aðstoða flugvélaeigendur við gjaldþrot flugfélaga eins og t.d. Monarch Airlines, Fly Niki, Thomas Cook, Primera Air. Stærsta einstaka verkefnið sem við höfum tekist á við í tengslum við lofthæfitilmæli var gjaldþrot WOW air í fyrra, sem reyndist mér þungbært þar sem ég setti upp Tækni- og viðhaldsdeild WOW air árið 2013 með Skúla Mogensen og öðru góðu fólki“ en Ægir starfaði hjá WOW til ársins 2016 þegar hann ákvað að söðla um og stofnaði ADG, ásamt Guðmundi Lofti Ólasyni, og í samstarfi við EFLU.
Áskoranir tengdum Boeing 737-MAX
Tæknileg vandamál sem hafa komið upp í tengslum við B737-MAX vélarnar hafa verið í brennidepli og hefur Boeing og FAA flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum lent í miklum erfiðleikum vegna málsins. Um þær miklu áskoranir sem Boeing stendur frammi fyrir með B737-MAX vélarnar segir Ægir „Það er því mikilvægt sem aldrei fyrr að flugvélar sem fyrirhugað er að vera í rekstri innan EASA ríkja séu yfirfarnar af fyrirtækjum sem hafa mikla þekkingu og reynslu af lofthæfi mismunandi flugvélategunda. Það þarf að votta allar breytingar sem eru gerðar á flugvélum samkvæmt gæðakröfum og reglugerðum EASA og geta eingöngu fyrirtæki með DOA leyfi, líkt og ADG er með, framkvæmt þessar úttektir. Það er því afar ánægjulegt að geta núna boðið fyrirtækjum „one-stop-shop“ þar sem þau geta fengið á einum og sama staðnum alhliða þjónustu vegna viðhaldsstýringar, tækni- og verkfræðiráðgjafar".
Breið þekking og frábært samstarf
Aðspurður um samkeppnishæfni ADG við fyrirtæki sem bjóða upp á svipaða þjónustu nefnir Ægir að styrkur félagsins sé m.a. fólginn í breiðri þekkingu starfsfólks og samvinnu við EFLU í tengslum við alhliða verkfræðiráðgjöf. „Samvinnan hefur verið afar góð í gegnum tíðina og vil ég jafnframt nota tækifærið og þakka starfsfólki EFLU og að öðrum ólöstuðum þeim Guðmundi Þorbjörnssyni, Brynjari Bragasyni og Hafsteini Helgasyni hjá EFLU, sem hafa staðið þétt við bakið á okkur frá því við hófum starfsemi.“
Nánari upplýsingar um starfsemi og þjónustu ADG er að finna á vefnum.