Kolefnisspor umbúða hjá Ölgerðinni

14.02.2020

Fréttir
The image displays the front of a building with "Olgerdin" logo and three flags fluttering in the wind

Ölgerðin fékk EFLU til að finna út kolefnisspor mismunandi tegunda umbúða.

EFLA reiknaði út kolefnisspor mismunandi tegunda umbúða sem Ölgerðin notar fyrir drykkjarvörur sínar og tók greiningin mið af framleiðslu og flutningi umbúðanna. Helstu niðurstöður, út frá umhverfislegum sjónarmiðum, sýndu að ekki er ákjósanlegt að tappa á drykki erlendis og flytja inn fullar umbúðir. Einnig kom í ljós að hlutfall endurunninna efna í framleiðslu umbúða skiptir verulegu máli hvað kolefnissporið varðar.

Kolefnisspor umbúða hjá Ölgerðinni

Ölgerðin er einn stærsti drykkjarvörurframleiðandi landsins ásamt því að flytja inn, dreifa og selja margvísleg matvæli og sérvöru. Fyrirtækið vinnur markvisst að samfélagsábyrgð í starfseminni og leitar sífellt leiða til að gera hlutina betri bæði fyrir viðskiptavininn og umhverfið. Ölgerðinni vildi komast að því hvert kolefnisspor umbúða sem fyrirtækið notar fyrir sínar vörur og fól EFLU það verkefni að reikna út kolefnisspor mismunandi tegunda umbúða. Greiningin tók mið af framleiðslu og flutnings umbúðanna, en tók ekki mið af framleiðslu drykkjanna sjálfra, en samkvæmt rannsóknum getur hlutdeild umbúðanna verið milli 49% og 79% kolefnissporsins.

Endurvinnsla og framleiðsla á Íslandi veigamikill þáttur

Meðal þess sem kom í ljós í greiningunni var að hlutfall endurunninna efna í framleiðslu umbúðanna skiptir verulegu máli hvað kolefnissporið varðar. Miðað við núverandi endurvinnsluhlutfall í framleiðslu umbúða eru áldósir (60% endurunnið ál) með lægsta kolefnissporið, PET plastflöskur (0% endurunnið plast) með næstminnsta kolefnissporið og glerflöskur (79% endurunnið gler) með stærsta kolefnissporið.

Ölgerðin hefur ákveðið að auka hlutfall endurunnins plasts (rPET) í framleiðslu á plastflöskum, með því að fara úr 0% í 50% rPET. Þar með minnkar kolefnisspor umbúðanna um 17% og verður kolefnisspor þess minna en áldósanna.

Áldósir og plastflöskur skila sér til endurvinnslu

Gott skilahlutfall er á drykkjarumbúðum hér á landi eða um 85-90% undanfarin ár. Í dag skila sér eingöngu áldósir og plastflöskur aftur til hringrásarhagkerfisins til endurvinnslu, á meðan gler er ekki sent út heldur urðað eða nýtt sem fyllingarefni í vegagerð. Æskilegt er að gera kröfur um eins hátt hlutfall endurunninna efna í framleiðslu umbúða og kostur er, og að þeim verði svo skilað að loknum líftíma aftur í endurvinnslu þannig að þær verði áfram hluti af hringrásarhagkerfinu.

Mun umhverfisvænna að tappa á drykki innanlands

Önnur áhugaverð niðurstaða af greiningunni var sú að hlutdeild flutninga var um

5-16% af kolefnissporinu í tilfelli tómra áldósa og plastflaskna, en 34-49% í tilfelli tómra glerflaskna, sem eru þyngstu umbúðirnar. Það var einnig skýr niðurstaða greiningarinnar að það borgaði sig ekki af umhverfislegum sjónarmiðum að tappa á drykki erlendis og flytja inn fullar umbúðir.

Hægt er að lesa nánar um verkefnið á vef Ölgerðarinnar.