Vistferilsgreiningar (e. Life Cycle Assessment) og útreikningur á kolefnisspori fyrir byggingar verða skilyrði frá og með 1. september 2025. Þetta samþykkti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun nýlega. Breytingin hefur í för með sér að skylt verður að skila inn niðurstöðum vistferilsgreininga til HMS bæði á hönnunarstigi, þegar sótt er um byggingarleyfi, og á lokastigi, áður en lokaúttekt fer fram.
EFLA frumkvöðull
EFLA hefur verið frumkvöðull á Íslandi á sviði vistferilsgreininga í rúma tvo áratugi og hefur unnið að greiningum og kolefnissporsútreikningum á öllum sviðum samfélagsins – orku, matvæli, iðnað og hið byggða umhverfi. EFLA hefur annast greiningar fyrir íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði af ólíkum gerðum, hótel, skóla, heilbrigðis- og hjúkrunarstofnanir og hefur að auki annast gerð umhverfisyfirlýsinga (EPD) fyrir byggingarvörur.
„Það er fagnaðarefni að nú sé komið þetta skýra sjálfbærniákvæði inn í byggingarreglugerð - eitthvað sem á eftir að gagnast okkur gríðarlega til að draga úr umhverfisáhrifum byggingargeirans og auka meðvitund með því að nota þennan skýra mælikvarða: kolefnisspor byggingarinnar. Þannig eigum við meðal annars eftir að sjá betur tækifærin sem felast í vistvænni hönnun og í endurnýtingu hráefna sem eru allt í kringum okkur,“ segir Alexandra Kjeld, umhverfisverkfræðingur hjá EFLU.
Starfsfólk EFLU í starfshópi
Innleiðingin grundvallast á vinnu starfshóps sem tók til starfa haustið 2022 og vann að tillögum að samræmdri nálgun við gerð vistferilsgreininga fyrir íslenskar byggingar. Í hópnum sátu sérfræðingar úr atvinnulífinu og háskólasamfélaginu sem allir hafa mikla þekkingu á vistferilsgreiningum, og var sérfræðingur EFLU þar á meðal.
Aðlögunartímabil á þessari innleiðingu er nú hafið, en tímabilið verður nýtt til fræðslustarfs, til að styðja við hagaðila og þannig að sem flestir öðlist reynslu við gerð og skil vistferilsgreininga áður en skyldan verður að veruleika. HMS hefur nú opnað sérstakt vefsvæði þar sem nálgast má allar helstu upplýsingar auk ítarefnis um þessa innleiðingu.