Innviðir og eldgos

19.12.2024

Fréttir
Kona stendur úti í á með veiðistöng.

Með áherslu á nýsköpun, sjálfbærni og þjónustu við samfélagið árið 2024 tókst EFLU að takast á við fjölbreytt verkefni og auka áhrif sín í mörgum greinum.

Verkefni og ný tækni

Innviðaverkefni voru einnig áberandi á árinu. Sérfræðingar EFLU unnu að varnaraðgerðum fyrir háspennulínur á Reykjanesskaga, sem reyndust lykilatriði þegar eldgos hófst þar á árinu. Varnirnar voru hannaðar til að verja möstur fyrir hraunflæði og skiptu þær sköpum í verndun innviða.

EFLA lagði sitt af mörkum við forhönnun nýrrar Ölfusárbrúar. Fyrsta skóflustungan að brúinni var tekin í nóvember af Sigurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra, en þetta mikilvæga verkefni er talið stórt skref í samgöngubótum landsins.

EFLA var einnig leiðandi í notkun nýrrar tækni. Myndmælingateymi fyrirtækisins vann að þrívíddarmódelum af hrauni frá eldgosinu sem hófst í maí. Með þessum mælingum var unnið hárnákvæmt heildarhæðarlíkan fyrir svæðið, sem nýtist meðal annars til hraunflæðishermana og framtíðarskipulags.

Raflínumastur með nýtt hraun allt í kring.

Sjálfbærni og skipulag

Áhersla á sjálfbærni var rauður þráður í starfi EFLU á árinu. Fyrirtækið tók þátt í Glatvarma á Bakka, rannsóknarverkefni sem kannaði nýtingu glatvarma frá PCC BakkiSilicon. Jafnframt vann EFLA að úttekt á olíunotkun sveitarfélaga á Íslandi í samstarfi við Eim, með það að markmiði að undirbúa orkuskipti á Norðurlandi eystra. Ný útgáfa af Matarspori kom út, en þjónustuvefurinn veitir upplýsingar um kolefnisspor, næringargildi og matarsóun í mötuneytum.

Þróun á sviði skipulags og uppbyggingar einkenndi einnig árið 2024. Á Austurlandi hefur teymi þéttbýlistæknis hjá EFLU vaxið ört og unnið náið með sveitarfélögum að hönnunar- og skipulagsverkefnum. Á Vesturlandi aðstoðaði EFLA sveitarfélagið Borgarbyggð við endurskoðun aðalskipulags til ársins 2037. Með þessum verkefnum hefur EFLA eflt starfsemi sína á landsbyggðinni og staðið við loforð sitt um bætt aðgengi að ráðgjöf og þjónustu.

Fjórar manneskjur á uppstilltri mynd.