Hvert er kolefnisspor íslenskra bygginga?

10.06.2024

Blogg
Straws and grass in focus in the foreground, background out of focus but you can see it's a meadow in the sun

Á heimsvísu veldur hið byggða umhverfi um 42% af losun koltvísýrings (CO2), sem skiptist í 27% vegna orkunotkunar bygginga og 15% vegna framleiðslu byggingarefna fyrir byggingar og innviði [1]. Það er því mikilvægt að huga að loftslagsáhrifum mannvirkja.

Frumkvöðull í gerð vistferilsgreininga

EFLA hefur verið frumkvöðull í gerð vistferilsgreininga (LCA), einnig nefndar lífsferilsgreiningar, í mannvirkjagerð á Íslandi og unnið rúmlega 20 greiningar fyrir byggingar til þessa. Niðurstöður vistferilsgreininga sýna umhverfisáhrif í tölulegu formi fyrir nokkra umhverfisáhrifaflokka og þar er kolefnisspor þekktasta afurðin, þ.e. umhverfisáhrif af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda.

Þegar kolefnisspor bygginga er fundið er stuðst við aðferðafræði vistferilsgreininga sem er alþjóðlega stöðluð og unnið er í samræmi við ISO 14040 og ISO 14044 staðlana og evrópsku staðlana EN 15978 um sjálfbærni í byggingariðnaði og EN 15804 um umhverfisyfirlýsingar byggingarefna.

Metin er losun gróðurhúsalofttegunda yfir allan vistferil byggingarinnar allt frá auðlindavinnslu hráefna, framleiðslu byggingarefna, flutning byggingarvara á verkstað, byggingartímann, rekstrartíma byggingarinnar og að lokum niðurrif, endurnýtingu og förgun. Þessir mismunandi þættir í vistferil bygginga fengu úthlutuð númer í alþjóðlega staðlinum EN 15978 sem sjá má á mynd 1.

Tafla.

Mynd 1 Þættir í vistferil byggingar skv. evrópskum staðli EN 15978.

Greiningar á hönnunarstigi

Vistferilsgreiningar gefa góða mynd af því hvar í vistferil byggingar helstu umhverfisáhrifin verða til. Lykilatriðið er að gera þessar greiningar snemma á hönnunarstigi byggingar til þess að upplýsingarnar nýtist til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum byggingarinnar.

Fyrsta heilstæða LCA greiningin sem EFLA gerði á byggingu var fyrir viðbyggingu Sundhallar Reykjavíkur og fljótlega bættust við margar aðrar greiningar. Greiningin náði til viðbyggingar, útiklefa og eimbaðs, samtals 710 m² af innrými. Í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands / Ólaf Wallevik var síðan á árunum 2019-2020 unnin greining á svokallaðri viðmiðunarbyggingu fyrir íbúðarhúsnæði á Íslandi. Sú bygging var fjölbýlishús á þremur hæðum byggt á árunum 2014-2016, 411 m² af innrými, klætt að utan og endurspeglaði þáverandi byggingaraðferðir og byggingarefni í notkun á Íslandi. Niðurstöður þeirrar greiningar má sjá á mynd 2.

Rit.

Mynd 2 Kolefnisspor viðmiðunarhúss fyrir steypt íbúðarhúsnæði, skipt niður á fasa vistferils (A-D). Neikvætt gildi (mínustala) fyrir endurvinnslu táknar umhverfislegan ávinning en sá hluti vistferilsins er þó ekki talinn með í heildarkolefnisspori byggingarinnar.

Hús.

Mynd 3 Viðmiðunarhús fyrir íbúðarhúsnæði.

Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð

Árið 2022 kom út Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð sem var afrakstur samstarfsverkefnisins Byggjum grænni framtíð. EFLA átti ríkan þátt í því samstarfsverkefni og sá m.a. um að safna saman niðurstöðum allra útgefinna vistferilsgreininga fyrir íslenskar byggingar í gagnagrunn en meirihluta þeirra hafði EFLA unnið. Út frá þeim gagnagrunni voru dregin meðalgildi fyrir nokkrar tegundir bygginga sem urðu síðan grunnur að mati á heildarkolefnisspori byggingariðnaðarins. Á mynd 4 má sjá meðalgildi fyrir kolefnisspor ólíkra bygginga. Á þeim tíma var aðeins til ein vistferilsgreining til grundvallar fyrir hvern flokk, nema fyrir steypt atvinnuhúsnæði sem byggði á sex vistferilsgreiningum.

Rit.

Mynd 4 Kolefnisspor íslenskra bygginga m.v. niðurstöður úr samstarfsverkefninu Byggjum grænni framtíð. Kolefnisspor er sýnt fyrir tvær tegundir húsnæðis (íbúðarhús/atvinnuhúsnæði) og tvær tegundir burðarvirkis (timbur/steypt).

EFLA unnið margar vistferilsgreiningar

Síðan vegvísirinn kom út hefur EFLA unnið margar fleiri vistferilsgreiningar og verður áhugavert að taka saman niðurstöður úr þeim á næstu misserum. Í töflu 1 má sjá yfirlit yfir þær vistferilsgreiningar sem EFLA hefur unnið fyrir byggingar.

Bygging / tengd verkefni | Ár unnið | Verkkaupi

  • Rannsóknarhús Landspítala | 2024 | Nýr Landspítali
  • Urriðaholtsskóli (2. áfangi) | 2024 | Garðabær
  • Gestastofa í Þjórsárdal - 2023-2024 - Rauðukambar
  • Hjúkrunarheimili í Boðaþingi 11-13 | 2023-2024 | Ístak
  • Innleiðing vistferilsgreininga fyrir byggingar í byggingarreglugerð | 2022-2024 | Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
  • Samræming á aðferðarfræði vistferilsgreininga á Norðurlöndunum | 2023-2024 | Nordic Sustainable Construction
  • Kolefnishlutlaus bygging við íslenskar aðstæður | 2022-2023 | Askur
  • Viðbygging SLN21 við Keflavíkurflugvöll | 2023-2024 | Isavia
  • Viðbygging SLN18 við Keflavíkurflugvöll | 2021–2023 | Isavia
  • Hótel í Kerlingarfjöllum | 2021–2022 | Fannborg
  • Nýr meðferðarkjarni Landspítala | 2021–2023 | Nýr Landspítali
  • Raðhúsalengja við Kinnargötu 44-80 | 2021–2022 | Vistbyggð ehf.
  • Viðbygging SSA21 við Keflavíkurflugvöll | 2021–2022 | Isavia
  • Endurbætur á leikskóla við Kleppsveg 150-152 (Brákarborg) | 2021–2022 | Reykjavíkurborg
  • Leikskólinn Steinerud barnehage | 2020-2021 | Lørenskog kommune
  • Viðbygging við leikskólann Grønlia barnehage | 2020-2021 | Lørenskog kommune
  • Raðhúsalengja við Urriðarholtsstræti 44-74 | 2020 | Vistbyggð ehf.
  • Leikskóli í Frogner, Osló | 2020 | Omsorgsbygg Oslo KF
  • Nýjar höfuðstöðvar Landsbankans við Austurbakka | 2020 | Landsbankinn
  • Nýbygging við Løkenåsveien 51 | 2020 | Lørenskog kommune
  • Hjúkrunarheimili á Höfn í Hornafirði | 2019-2020 | Framkvæmdasýsla ríksins
  • Viðmiðunarhús fyrir íbúðarhúsnæði | 2019-2020 | Nýsköpunarmiðstöð Íslands
  • Hjúkrunarheimili í Árborg | 2018 - 2019 | Framkvæmdasýsla ríkisins / Urban arkitektar
  • Nýbygging við Alþingi | 2018 - 2019 | Framkvæmdasýsla ríksins / Studio Granda
  • Viðbygging við Sundhöll Reykjavíkur | 2016-2018 | Reykjavíkurborg
  • Vöruskemma | 2007 | Límtré/Vírnet

Tafla 1. Vistferilsgreiningar fyrir byggingar sem EFLA hefur unnið og tengd verkefni.

  1. Architecture 2030 (2024). Why the built environment? Total annual global CO2 emissions. Tengill: https://www.architecture2030.org/why-the-built-environment/