Hvað þýðir verðhækkun grunnorku?

31.10.2024

Blogg
Nighttime view of snow covered town

Undanfarin ár hefur eftirspurn eftir raforku aukist mun meira en framboð. Hvernig hefur þessi breyting á raforkumarkaði skilað sér í verði til heimila?

Stöðugt raforkuverð

Raforkuverð til heimila á Íslandi hefur verið mjög stöðugt síðastliðin 19 ár. Sé miðað við fast verðlag, hefur verðið varla haggast, sjá mynd. Þrátt fyrir það að undanfarið hafi verið að þrengjast um á raforkumarkaði, hefur meðal raforkuverð til heimila ekki hækkað, þó einstaka raforkusalar séu farnir að leiðrétta verð.

Mynd 1 Verð á raforku til heimila á föstu verðlagi. Myndin sýnir árskostnað heimilis fyrir hvern mánuð, ef gjaldskrá þess mánaðar myndi gilda í heilt ár. Á myndinni eru eingöngu sýnd raforkuverð, en ekki kostnaður vegna dreifingar eða opinber gjöld.

Verðlag á raforkumarkaði

Verð til heimila hefur e.t.v. staðið þetta mikið í stað vegna aukinnar samkeppni á markaðinum, en raforkusölum fór að fjölga upp úr 2017 og þá jókst verðbreiddin á raforku eins og sést glöggt á myndinni.

Þann 30.10 sl. birtist grein í Morgunblaðinu um hækkandi verð í heildsölu á raforku, með áætluðum hækkunum á svo kallaðri “grunnorku”. En hvað þýðir það á mannamáli og við hverju megum við búast á næstu misserum?

Raforkureikningur heimilanna skiptist í tvennt. Annars vegar eru það innkaup raforku, frá raforkusala sem heimilið velur sjálft. Hins vegar eru það greiðslur vegna dreifingar raforku og flutnings, en sá hluti reikningsins er innheimtur af dreifiveitu hvers svæðis og er sú starfsemi sérleyfisskyld. Sem dæmi, þá eru flestir á höfuðborgarsvæðinu með Veitur sem sína dreifiveitu. Að auki leggjast opinberar álögur á orkureikninginn, en einnig niðurgreiðslur þar sem það á við.

Verðskrár dreifiveitna eru yfirfarnar af Orkustofnun, sem setur dreifiveitunum tekjumörk. Þau tekjumörk miðast m.a. við eðlilegar fjárfestingar og viðhald. Verðskrá raforkusala ákvarðast aftur á móti af markaðslögmálunum. Þannig kaupa raforkusalar raforkuna ýmist á opnum markaði, beint frá vinnslufyrirtækjum eða framleiða hana sjálfir. Og hin umtalaða grunnorka kemur við sögu þegar raforkusalar eru að kaupa raforkuna á markaði.

Á raforkumarkaði eru ýmsar „vörur“ til sölu. Þar má nefna „grunnorku”, „mánaðarblokkir” og „stundarrafmagn”. Raforkusali áætlar heildarnotkun allra þeirra sem hann selur raforku til, og kaupir sama magn á raforkumarkaðinum að frádregnu því sem hann framleiðir sjálfur. Fyrirkomulagið er alveg hliðstætt því þegar smásali kaupir vörur af heildsala.

Eðlilega vill raforkusalinn kaupa raforku á heildsölumarkaðinum eins ódýrt og hægt er og ódýrasta orkan kallast grunnorka, en þá er raforkusalinn að kaupa orku (sama afl alla klukkutíma ársins) til heils árs í einu. Eðlilega er raforkunotkun breytileg – við notum t.d. yfirleitt minni raforku á sumrin en á veturna – og þá getur raforkusalinn ekki keypt grunnorku fyrir alla raforkuþörfina. Fyrir þá mánuði þar sem er meiri notkun, getur hann keypt mánaðarblokkir, en eins og nafnið gefur til kynna eru þær raforka í einn mánuð í senn. En svo er notkunin líka breytileg á milli daga eða jafnvel innan sólarhrings. Fyrir þá notkun, kaupir raforkusalinn stundarrafmagn, sem er ein klukkustund í senn. Og fari svo að raforkusalinn áætli notkunina sína ekki rétt, þarf hann að kaupa svokallaða jöfnunarorku. Þessar raforkuvörur verða æ dýrari, þ.e. mánaðarblokkir eru dýrari en grunnorka, stundarrafmagn er dýrara en mánaðarblokkir og jöfnunarorkan er langdýrust.

Þegar grunnorku þrýtur – þ.e. þegar framboð grunnorku verður lítið eða ekkert á markaði – þá neyðast sölufyrirtækin að kaupa mánaðarblokkir. Sem er, eins og fram hefur komið, dýrari vara. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum ætti sú hækkun að skila sér í verð til neytenda. Síðustu mánuði hafa viðskipti með grunnorku dregist verulega saman á raforkumarkaðinum, og síðustu þrjá mánuði hafa engin viðskipti átt sér stað.

Nú hafa einhverjir söluaðilar raforku keypt grunnorku nú þegar, sem þeir geta notað næstu misseri. En haldi þetta áfram, munu langflestir söluaðilar þurfa að kaupa mánaðarblokkir í æ meiri mæli til að geta haldið áfram að selja viðskiptavinum sínum raforku.

Sérfræðingar EFLU hafa fylgst með raforkumarkaðinum í áraraðir, og gefa reglulega út skýrslu um raforkuverð. Við metum það svo, að verðhækkanir á heildsölumarkaði raforku á næsta ári verði á bilinu 10-25% umfram verðlagshækkun. Litlar sem engar horfur eru á að rýmkist um á raforkumarkaði að minnsta kosti næstu þrjú til fimm ár.

Þetta þýðir að söluaðilar raforku sem framleiða ekki eigin orku til smásölu munu þurfa að kaupa sína raforku á allt að fjórðungs hærra verði en áður. Þá er bara spurningin hversu mikið af því muni skila sér í verðhækkunum til heimilanna?