…spyr Abraham Click, sjálftitlaður frumkvöðull, í þessari dæmisögu.
CE merki er, öllu öðru fremur, öryggismerki. Það gefur til kynna að varan er hönnuð og framleidd í samræmi við lög og reglugerðir Evrópusambandsins sem snerta heilsu, öryggi og umhverfi þeirra sem vöruna nota. Nánast allan búnað sem gengur fyrir orku, sem ekki er knúin af mönnum, þarf að CE merkja. Þess vegna eru heftarar og reiðhjól ekki CE merkt en kaffivélar og straujárn eru það.
Af hverju þarf að CE merkja?
Skoðum dæmi. Abraham Click hannar og lætur framleiða rafknúna framtíðarvél og fæst hún á góðu verði. Sebastían Kaupmann, kallaður Basti, kaupir vélina en strax á fyrsta degi klemmir hann sig, brennir sig og fær höfuðverk af látunum í vélinni. Basti er svekktur því hann fjárfesti í vél sem hann þorir ekki að nota sökum skorts á öryggi við notkun vélarinnar. Þessa vél mætti ekki selja á Íslandi því vélin er ekki CE merkt og því Abraham í vondum málum.
Nú hugsar Abraham að hann verði nú að CE merkja vélina svo hann geti selt hana á Íslandi.
Hvað þarf að gera til að CE merkja?
Við fyrstu skoðun virðist það vera frumskógur af stöðlum, tilskipunum og reglugerðum sem fylgja þarf við hönnun búnaðarins. Vélatilskipun, lágspennutilskipun og ég veit ekki hvað og hvað. Það er alveg rétt.
Abraham hefur nú gert endurbætur á hönnun framtíðarvélarinnar og uppfyllir hún nú allar viðeigandi kröfur. Abraham ætlar að skella CE merki á vélina. Má hann það? Ég held nú síður. Til þess að CE merkja þurfa allar helstu tækni-, prófana- og framleiðsluupplýsingar að vera til staðar í skjali sem framleiðandi búnaðarins þarf að útbúa.
Hægt væri að skrifa langloku um nákvæmar kröfur en alltaf þarf að vera fyrir hendi eitt tækniskjal sem inniheldur allar nauðsynlegar upplýsingar. Nauðsynlegar upplýsingar eru síðan mismunandi hverju sinni eftir því hvers eðlis og hversu flókinn hluturinn, sem merkja á, er. Einungis framleiðandi eða kaupandi getur CE merkt vöruna, en má þiggja hjálp frá öðrum.
Abraham þarf því að leggjast í heljarinnar pappírsvinnu til þess að sýna fram á það að framtíðarvélin uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til hennar. Nú eða hafa samband við einhvern sem kann að CE merkja.