Heimsókn HÍ til EFLU

22.09.2023

Fréttir
Two men in suits seated at a desk with laptops

Í tilefni af 50 ára afmæli EFLU, var kennurum og stjórnendum frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands boðið á morgunfund á Lynghálsi 4 síðastliðinn þriðjudag 19. september. Tilgangur fundarins var að ræða samstarfið milli Háskólans og EFLU, hvernig mætti auka það enn frekar og eins að skoða þarfir atvinnulífsins og fyrirtækja á borð við EFLU til framtíðar með tilliti til menntunar.

Heimsókn HÍ til EFLU

Sjö starfsmenn Háskóla Íslands komu á fundinn, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs (VON) var þar á meðal, deildarforsetar, prófessorar og kennarar. EFLU megin við borðið sátu sviðsstjórar orku, samfélags og staðgengill sviðsstjóra iðnaðar og fulltrúi viðskiptaþróunar.

Sigurður Magnússon forseti VON, tók fyrstur til máls og kynnti stjórnarskipulag HÍ, samstarf við atvinnulífið og möguleika Vísindagarða Háskóla Íslands.

Þá tók til máls Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri samfélagssviðs og fulltrúi atvinnulífsins innan háskólans, sem fjallaði um EFLU, tenginguna við háskólann og mikilvægi sumarstarfsmanna úr röðum háskólanemenda.

Í kjölfarið fóru fram góðar umræður þar sem meðal annars var farið yfir hvar væri vöntun á sérfræðingum og þekkingu, hvernig starfandi sérfræðingar úr atvinnulífinu geti kynt undir áhuga nemenda með kennslu, mögulegar lausnir til að skapa enn fjölbreyttari sérfræðiþekkingu hjá nemendum og hvaða áhrif atvinnuhorfur nemenda sem útskrifast af sviðinu hafa á námsval þeirra.

Að lokum voru næstu skref í samstarfi EFLU og HÍ rædd og ákvarðanir teknar um aðgerðir til að styrkja samstarfið enn frekar.

Mikilvægt er að halda samtali milli atvinnulífs og menntastofnanna á lofti og þakkar EFLA starfsfólki VON innilega fyrir komuna og hlakkar til áframhaldandi gjöfuls samstarfs.