Gestastofa Þingvalla BREEAM vottuð

18.06.2021

Fréttir
Ljósmynd af Gestastofu þingvallam viðarklædd bygging, hellulagt fyrir utan.

Í síðustu viku hlaut Hakið, gestastofa þjóðgarðsins á Þingvöllum, fullnaðarvottun alþjóðlega umhverfisvottunarkerfisins BREEAM. Hlutverk EFLU var að sjá um verkefnisstjórnun BREEAM vottunar byggingarinnar, ráðgjöf og matsmannshlutverk. Vottunarstofan lauk miklu lofsorði á skil á gögnum og skýrslugerð EFLU í verkefninu.

Gestastofa Þingvalla fær alþjóðlega umhverfisvottun skv. BREEAM

Áður hafði byggingin fengið umhverfisvottun BREEAM fyrir hönnun byggingarinnar en nú fær byggingin fullnaðarvottun sem nær til bæði hönnunar og fullbúinnar byggingar. Fullnaðarvottunin staðfestir að byggingin uppfyllir staðla um vistvæna hönnun samkvæmt alþjóðlega viðurkennda vottunarkerfinu BREEAM. Engar athugasemdir eða frávik komu fram og hlaut Hakið endanlegt skor 59,9% - “ sem gefur einkunnina Very Good" - eins og að var stefnt.

Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR ) og Þingvallaþjóðgarður nutu ráðgjafar og verkefnastjórnunar EFLU í vottunarferlinu. BRE Global Ltd. sem BREEAM vottar bygginguna lýkur miklu lofsorði á skil á gögnum og skýrslugerð EFLU í verkefninu, sem hún segir vera framúrskarandi. EFLA þakkar Þjóðgarðinum á Þingvöllum og FSR fyrir samstarfið og óskar þeim innilega til hamingju með vottunina.

Í vottuninni er lagt mat á marga mismunandi þætti svo sem:

- Umhverfisstjórnun á byggingar- og rekstrartíma

- Góða innivist sem tekur m.a. til hljóðvistar, inniloftgæða og lýsingar

- Góða orkunýtni og vatnssparnað

- Val á umhverfisvænum byggingarefnum

- Úrgangsstjórnun á byggingar- og rekstrartíma

- Viðhaldi vistfræðilegra gæða nánasta umhverfis

- Lágmörkun ýmis konar mengunar frá byggingu t.d. er varðandi frárennsli og ljósmengun

Markmið BREEAM vistvottunar er að hanna og byggja byggingar sem hafa minni umhverfisáhrif, eru heilsusamlegri fyrir notendur og þurfa minna viðhald en hefðbundnar byggingar.

Fullnaðarvottunarskjal BREEAM fyrir Hakið

Umsögn BRE Global vegna BREEAM fullnaðarvottunar fyrir Hakið

Nánar er fjallað um hönnun gestastofunnar og vottunina á vef FSR:

Gestastofa Þingvallaþjóðgarðs hlýtur alþjóðlega umhverfisvottun

Loftmynd af Gestastofu þingvalla