Fyrsta skóflustungan tekin að nýrri Ölfusárbrú

21.11.2024

Fréttir
Maður tekur skóflustungu með skurðgröfu.

Fyrsta skóflustungan Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, tekur fyrstu skóflustunguna fyrir nýja brú yfir Ölfusá.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, tók í gær fyrstu skóflustungu vegna framkvæmda við nýja Ölfusárbrú og tengda vegi í landi Laugardæla. Fulltrúar EFLU voru á svæðinu enda kom starfsfólk fyrirtækisins að forhönnun brúarinnar.

Forhönnun unnin af EFLU

Við forhönnun brúarinnar var sérstök áhersla lögð á þróun tæknilegra útfærslna og heildrænna lausna í hönnun. Nýja brúin verður 330 metra löng og 19 metra breið, þar sem brúargólfið verður hengt í turn sem staðsettur verður í Efri-Laugardælaeyju. Í hönnunarvinnunni voru mismunandi lausnir metnar, þar á meðal útfærslur á mismunandi burðarformum turna, kostnaður við turn úr stáli og steypu, mismunandi breiddir og form brúargólfs og áhrif jarðskjálftaálags.

Arkitektar frá Studio Granda komu að útlitshönnun til að tryggja að mannvirkið falli vel að umhverfinu og styrki ásýnd svæðisins.

Þrír menn ræða saman í boði.

Ræða málin Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, ræðir við Pál Bjarnason og Þóri Þórisson, starfsmenn EFLU.

Bættar samgöngur og lífsgæði

Áður en fyrsta skóflustungan var tekin var undirritaður verksamningur um verkið. Auk Sigurðs Inga undirrituðu Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar og Þorvaldur Gissurarson, framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins ÞG Verks, samninginn.

Nýja Ölfusárbrúin er hluti af stærra verkefni um færslu Hringvegar út fyrir þéttbýlið á Selfossi. Henni er ætlað umbylta umferð á svæðinu með auknu umferðaröryggi, styttri ferðatíma og minni mengun innanbæjar. Nú fara um 14.500 ökutæki yfir gömlu hengibrúna daglega. Umferðin hefur vaxið hratt og ný brú mun mæta auknum kröfum framtíðar.

Auk brúarinnar verður lagður nýr 3,7 km langur vegarkafli, gerð ný vegamót, og undirgöng fyrir gangandi, hjólandi og hestamenn.

Samstarfsverkefni og samfélagsleg áhrif

Verkefnið er unnið í samstarfi Vegagerðarinnar, Sveitarfélagsins Árborgar, Flóahrepps og helstu veitufyrirtækja á svæðinu. Fulltrúar þessara aðila voru viðstaddir skóflustunguna í gær. Nýja brúin mun bera uppi lagnir fyrir rafmagn, ljósleiðara og vatnsveitur, sem styrkir innviði og atvinnulíf á Suðurlandi. Áætlað er að ljúka framkvæmdum haustið 2028.

Gamla brúin, sem þjónað hefur í nærri 80 ár, verður áfram sögulegt tákn og mun áfram sinna léttari umferð innan svæðisins.

Ljósmyndir | Vegagerðin.

Fjöldi fólks fylgjist með.